7.11.09

Að kveðja

Það eru forréttindi að þekkja mikið af gömlu fólki.

Gamla fólkið sem nú kveður unnvörpum er til dæmis með "gömlu gildin" alveg á hreinu. Þessi sem almenningi á Nýja Íslandi gengur svo misvel að rifja upp. Þessi sem voru í gildi áður en allt fór að snúast um að græða eins mikið og er í mannlegu valdi og enginn gerði lengur neitt fyrir neinn.

Lára amma stóð í eldhúsinu. Oftast eldandi og bakandi ofan í ein 13 börn og milljón gesti. Það var alltaf pláss fyrir alla og nóg til frammi. Hún var alltaf kát. Það neikvæðasta sem ég heyrði hana nokkurn tíma segja var "Ég er nú svo aldeilis hissa!"

Síðasta samtalið sem ég átti við hana var fyndið. Hún var komin á sjúkrahúsið þá, ég var 27 ára og átti engan mann. Þetta þótti henni nú öldungis ómögulegt og ræddi það mjög. Það endaði með því að ég sagði henni, sísvona, að það þýddi ekkert að eiga þessa kalla, þeir drykkju allir svo mikið brennivín. Þá var hún sammála mér um að þá væri nú bara betra að eiga engan.

Það eru forréttindi að þekkja mikið af gömlu fólki.
Það fjölgar reyndar jarðarförunum.
En fólk sem vissi allan tímann að heilsast og kveðjast væri lífsins saga, hélt ekki að það yrði eilíft né færi með með veraldlegu auðæfin í gröfina, er gott að kveðja með ró og sátt.

Lára amma hvílir sko alveg örugglega ekki í neinum friði. Henni finnst hún sjálfsagt vera búin að gera nóg af því undanfarin ár.
Hún er að baka, og það eru margir gestir hjá þeim afa sem hún hefur ekki hitt lengi.
Kannski er hún meira að segja aldeilis hissa.

Engin ummæli: