31.12.09

2009

Árið var hafið í Brekku, Eyjafjarðarsveit, við undirleik flugelda.

Síðan var haldið í bæinn að gera byltingu, við undirleik búsáhalda.

Svo urðu yngri börnin 1 og 3ja ára.

Móðurskip vann á Bjartinum alla byltinguna og fram undir vor. Kláraði svo M.A. gráðu hina síðari og fór með hana á atvinnuleysisbætur. Fór á leikritunarnámskeið í Færeyjum í maí og í Svarfaðardal í júní. Það var gaman. Ákvað í framhaldinu að missa 20 kíló. Verkefni sem nú er hálfnað með dyggri aðstoð félaganna hlaupa og Herba. Hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Sem telst óneitanlega til stórtíðinda.

Ákvað um svipað leyti að fara í doktorsnám og rannsaka samfélagsádeilu í leikhúsi fyrir og eftir hrun. Og byrja líka að læra til trúbadors. Bæði verkefni eru í farvegi.

Rannsóknarskip var í feðrunarorlofi fram á sumar. Hóf síðan á ný að kenna í skóla Haganna með haustinu hvar Smábátur hóf einnig nám eftir að hafa lokið námi við Vesturbæjarskólann um vorið. Una feðgar hag sínum vel á þeim bænum, að mér heyrist.

Í haust hóf Hraðbátur nám sitt, settist á leikskólabekk í smábarnaleikskólanum Sólgarði, sem er háskólaleikskóli. Hann kann gríðarlega vel við sig, en missti heilmikið úr síðla haustmánaða sökum langvinns heilsuleysis, sem þó snöggskánaði þegar rörabúnaður var lagður í eyru honum.

Freigáta hélt áfram á Drafnarborg og hefur verið hraust allt árið og hinn mesti dugnaðarforkur. Að loknu sumarlayfi flutti hún af litludeild yfir á stórudeild og vonandi fær Hraðbátur pláss á sömu stofnun á hausti komanda.

Hvað gerðist fleira?

Allir uxu heilmikið. Nema Móðurskip sem óx og minnkaði svo heilmikið aftur. Og vonast eftir frekari rýrnun á komandi mánuðum.

Á leikvígstöðvunum lék Smábáturinn frumraun sína, ja svona allavega í fullri lengd, með Hugleiknum. Móðurskip aðstoðarleikstýrði hinu sama verki, Ó þú, aftur, sem sýnt var á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins síðasta vor. Eitthvað meira var nú sjálfsagt einþáttungast... ég bara man það ekki, nema hvað við hjónin áttum bæði þætti í jóladagskrá Hugleiksins nú í desember.

Sumrinu var varið í austrinu og norðrinu að venju.

Þetta er nú allt í belg og biðu hjá mér.

Sennilega var þetta bara frekar venjulegt ár, svona innan heimilis. Ef ekki væri til sjónvarp og internet hefðum við ekkert tekið mikið eftir neinni kreppu, sosum. Ekkert minni peningar en venjulega, bara.

En samkvæmt kínverskri stjörnuspeki verður komandi ár arfaskítt hjá okkur hjónum báðum. En það byrjar ekki fyrr en 14. febrúar, svo, den tid den sorg.

Árið komanda hefjum við á Egilsstöðum, undir fullu tungli og rakettureyk.

Gleðilegt, ár, takk fyrir það gamla. Og allt það.

Engin ummæli: