10.12.09

Byltingin lifi!

Ómar Ragnarsson og Teitur Atlason spara mér ómakið að fjalla um helv... vinstri/hægri/snú kjaftæðið sem er vaðandi um allt í umræðunni þessa dagana.

Það er fáránlegt að hrunsvöldum sé í alvörunni að takast að fá ótrúlega marga almenna borgara til að vera (eða ætla öðrum að vera) ýmist með Sjálfstæðismönnum eða Útrásarvíkingum „í liði“.

Langflestir Íslendingar eru heiðarlegt fólk sem vill sjá hér annað og betra þjóðfélag á alla lund. Langflestir eru vaknaðir af dvalanum og eru að mynda sér sínar skoðanir á því ástandi sem „góðærið“ gat af sér. Þar að auki eru ýmis stórmál sem margir eru að endurmeta afstöðu sína til þessa dagana, til dæmis, náttúruvernd, stóriðja, Evrópusambandið, NATÓ, Obama, skattamál, velferðarmál, og svo mætti lengi telja, (ég ætla ekki einu sinni að nefna fokkíng Ísbjörgu) sem ganga svo þvert á allar flokkslínur að ekki er samstaða innan flokka um þær, og getur ekki verið.

Sem gerir nákvæmlega það að verkum að það þarf að gera fleiri byltingar.

Það er búið að gefa fjórflokknum allan séns í heimi. Hann virkar ekki. Hægri/vinstri á ekki lengur við nema í örfáum og smáum málaflokkum. Allir vilja redda þessu. Nema þeir sem enn sitja við kjötkatlana eins og ekkert hafi í skorist og hamast nú við að skipa lýðnum í fylkingar á móti sjálfum sér.

En í nýjum mótmælum á Austurvelli sé ég upphafið af nýrri byltingu. Þar hefur mönnum tekist, rétt eins og fyrir ári, að draga saman nokkur grundvallaratriði sem við erum flest sammála um. Hinn raunverulegi klofningur er á milli hrunsvalda og þjóðar og stjórnvöld virðast bæði máttvana og rígbundin á klafa úrelts skipulags sem heldur glæpalýðnum allsstaðar undir pilsföldunum.

Mér finnst alveg ljóst að við þurfum að halda áfram að berja á nýju ári. Kveikja í jólatrénu og allt það. Vill til að við sömdum ansi gott lag í fyrra og ætti ekki að verða skotaskuld úr að semja annað og róttækara.

Byltingin lifi!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki viss um að Hrunamenn vilji almennt láta rugla sé saman við Hrunmenn! Hinir fyrrnefndu hara jafnvel heimasíðu http://www.hrunamannahreppur.is/

en þeir síðarnefndu fara huldu höfði! Ég hélt hins vegar að útrásarvíkingar (og flestir sjálfstæðismenn) væru innifaldir í Hrunmönnum.
Annars tek ég heils hugar undir með þér að nýrrar byltingar er þörf - BYLTINGIN LIFI (ÞAÐ ER SVO ANNAR HANDLEGGUR HVER MARKMIÐIN EIGA AÐ VERA - ég vil koma öllu HYSKI burtu svo hægt sé að byrja með hreint borð!).
Ragnar Eiríksson

Hnakkus sagði...

Laukrétt.

Smössum þetta í mask!

Sigga Lára sagði...

Það er rétt. Þetta er illa farið með íbúa Hrunamannahrepps. Hér eftir heita þeir hrunsmenn í mínu orðasafni. Ljótara orð, eins og þeir eiga skilið, og þar að auki með litlum staf.

Sigga Lára sagði...

Datt svo niður á orðið "hrunsvalda" jafnvel ljótara og er gagnsærra.

Hjörvar Pétursson sagði...

Mér finnst alltaf mest viðeigandi að kalla þá "svikamilla."