10.12.09

Rörasaga

Af því að ég veit að einhverjar ömmur og frænkur bíða í ofvæni eftir fréttum að eyrnaheilsu yngsta fjölskyldumeðlimsins verða hér afrek morgunsins færð í annála, nokkuð nákvæmlega.

Friðrik hinn ungi vaknaði árla morguns en varð harla foj yfir að fá ekkert að drekka. Sama hvað hann heimtaði og grenjaði þá varð hann að vera fastandi þar til búið yrði að pípuleggja fyrir hlustir honum. Þetta þótti honum hið versta mál, en hefur honum þótt um ansi margt nú um nokkuð langa hríð.

Rétt fyrir níu mætti ég með hann, enn nokkuð grjótfúlan, upp í Handlækningastöð í Glæsibæ. Þar batnaði skapið nú nokkuð, ekki síst fyrir tilstuðlan Bubba Byggis dótsins á biðstofunni. En Adam var ekki lengi í Paradís og mótmælti harðlega þegar hann var dreginn inn á einhverja viðgerðarstofu. Sem betur fór var svæfingaferli bara sett í gang hið snarasta og drengur meðvitundarlaus.

Ég fór fram á biðstofu og þetta var búið innan 5 mínútna. (Ég hélt hálfpartinn að það hefði verið hætt við.) En drengurinn var kominn með rör í eyrun og búinn að losna við heilan lítra af slími sem læknirinn fann þar innanhúss. Hann spurði hvort drengurinn hefði ekki verið búinn að vera illa pirraður. Sem hann er búinn að vera. Kannski ekki endilega miðað við önnur börn, en miðað við eigið skapferli sem hann hefur beina leið frá föður sínum. Læknirinn sagði að hann ætti að heyra betur, sofa betur og verða almenn glaðari eftir að hafa losnað við allt þetta úr hausnum.

Læknirinn var farinn þegar sjúklingurinn vaknaði. Þá birtist einhver öskrandi umskiptingur sem hafði allt á hornum sér þangað til við vorum komin niður í bakarí og hann fékk kókómjólk. Það var þó strax greinilegt (þegar hann var þagnaður) að honum þóttu öll hljóð merkileg. Ég tók líka eftir því þegar ég var að tala við hann á leiðinni heim hvað ég var búin að venja mig á að tala hátt þegar ég talaði við hann.

Þegar heim kom hélt ég áfram að gefa honum allar mjólkurvörur sem hann gat í sig troðið, í gleði minni, þrátt fyrir magapínur undanfarinna daga. Hreinsaði svo samviskuna með LGG. Líklega verður karma mínu þó refsað með kúkasprengju seinna í dag. Drengur er farinn að brosa út að eyrum, eins og maður hefur ekki séð vikum saman og dundar sér syngjandi. Hann virðis þegar vera farinn að verða sjálfum sér líkur.

Í framhaldinu má hann fara í leikskólann á morgun og þarf að fá smyrsl í eyrun 2svar - 3svar á dag fram á sunnudag. Þá eiga eyrnabólgur framtíðar ekki að valda öllum þessum ósköpum og magaheilsunni vonandi bjargað frá fleiri pensillínkúrum. Sem er eins gott. Ég vigtaði manninn í morgun og hann er orðinn 10 kíló. Var 12 í haust. Hann er sem sagt búinn að léttast um einhver 15% af líkamsþyngd sinni og er kominn niður í þyngdina sem hann var í þegar hann var um 8 mánaða gamall. Enda er hann kominn með mjög vannæringarlegt yfirbragð og verður settur á Herbalife nú þegar og mataður á mæjónesi og rjóma til skiptis öll jólin.

1 ummæli:

Lilja sagði...

Ja hérna hér! Það sem er lagt á sum börn! Mikið gott að heyra að honum líður betur og fer vonandi að þyngjast aftur!