Argaþras dagsins
Minn gamli heimabær (Egilsstaðir, Austur-Héraði) hefur verið pínulitið í fréttum undanfarið, mér finnst gaman að sjá myndir þaðan, það dregur úr fráhvörfunum. Tilefnið gerir mig hins vegar pöddubrjálaða í hverst skipti sem ég heyri minnst á þetta nýja fréttamál.
Það er nefnilega verið að fara af stað með samkeppni um miðbæjarskipulag í því ágæta plássi og í það á að spandera einhverjum 8 milljónum, þ.e.a.s., bara í verðlaunafé. Þess má geta að Minjasafn Austurlands sem býr í hálfkláruðu húsi við húsnæðis- og starfsmannaeklu var látið skera niður hjá sér kostnað á þessu ári, hluta af grunnskólanum er kennt í skúrum úti á skólalóð og leikfélagið verður að gera sér að góðu heilar 250.000 krónur á ári í styrk, engin aðstoð með húsnæði.
Aukinheldur. Þennan bæ má ganga horn í horn á fimmtán mínútum. Þarf miðbæ?
Aukin-aukinheldur. Ef endilega á að vera "miðbær" er þá alveg nauðsynlegt að hann sé á bílastæðunum við Kaupfélagið, í neðra horni bæjarins, fast við þjóðveg 1?
Svo veit ég ekki betur en að téður "miðbær" sé fullur af húsum og allskyns. Ef einhverjum dettur í hug að græða sér nokkrar milljónir til að hanna eitthvað á þessu svæði, þá þarf væntanlega að eyða nokkrum grilljónum í viðbót til að framfylgja því. Ekki satt?
Einhversstaðar heyrði ég þá fásinnu og firru að "flottur miðbær" myndi "koma Egilsstöðum á kortið". Eftir því sem ég best veit eru Egilsstaðir á öllum kortum, allavega þeim sem gefin hafa verið út síðan 1950.
Hvaða dauðans kjaftæði er þetta? Það er ekki undarlegt að illa gangi að reka bæjarfélög í landinu þegar verið er að eyða peningum í að hanna gosbrunna á meðan mennta- menningar og væntanlega öll önnur strarfsemi sveltu heilu fjárhungri. Allir skólar á svæðinu búnir að sprengja utan af sér og allar stofnanir kveinandi yfir blankheitum hvert sem litið er.
Hvað halda menn líka eiginlega að "nýr miðbær" geri?
"Já, förum í sumarfrí til Egilsstaða og eyðum öllum peningunum okkar þar. Eða flytjum bara þangað! Það er nefnilega svo gasalega lekker miðbær..."
Nei, ég held ekki.
Þetta er náttúrulega íslenska leiðin í hnotskurn, Eyða peningum sem eru ekki til í ekki nokkurn skapaðan andskotans hlut með viti. Ég vorkenni þessu bæjarfélagi alltént blankeheitin ekki rassgat þessa dagana. Heimska markaðsvæðingarinnar sýnist mér þarna vera að fara út í öfgar dauðans. Það er hálfvitalegt að eyða peningum í umbúðirnar á meðan innviðirnir svelta.
Og hananú!
19.1.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli