21.1.04

Og allt í einu er ekkert að gera í vinnunni. Síminn hefur ekki einu sinni hringt í dag. Það eru kannski bara allir voða glaðir að leika sér úti í hlákunni.

Þá er um að gera að reyna að blogga flókna vangaveltu, en þá gerist yfirleitt eitthvað til að trufla mann. (Svona eins og þegar maður er einmana eða jafnvel aleinn í eyðimörk. Þá er um að gera að fara að leggja á kapal. Einhver kominn yfir öxlina á manni um leið!)

Þannig að. Eftirfarandi vangavelta hefur verið að veltast um í mér talsvert lengi, en vaknaði úr dvala í framhaldi af athugasemd á spjalli leiklist.is sem laut að því að kominn væri tími á konu í Þjóðleikhússtjórastól. Í framhaldi af því komu nokkur komment um "pólitískan réttleika" þessarar athugasemdar.

Málið er það að ég á í smá vandræðum með femínisma þessa dagana. (Eða árin... Jafnvel bara þetta lífið.) Ýmislegt sem ég hef heyrt í kvenréttindabaráttu seinni tíma hefur vakið hjá mér langar og flóknar vangaveltur, með litlum niðurstöðum.

Mér finnst fínt að vera kona. Ég er að mörgu leiti mjög fegin því. Mér finnst ég t.d. búa við miklu meira atvinnufrelsi! Nú er það algjörlega orðið samfélagslega samþykkt að konur geta stundað öll störf. Öll. Það er ekki snefill eftir af þeirri kröfu að konur skuli setja ljós sín undir mæliker og læðast um lífið í kvenlegri uppgerðarhógværð með biturð í hjarta og sinni. (Sumar af kynslóð móður minnar gera þetta reyndar af gömlum vana, ekkert nema pirrandi og ég held að það sé á leiðinni út.) Þeir afturhaldspúkar sem halda slíku fram eru að flestra mati kjánar sem enginn hlustar á, og konur í því sem áður kölluðust kallastörf eru bara kúl.

Í kallaheiminum er þessi þróun ekki að gerast eins mikið. Þar eru ennþá í gangi einhver undarleg "matsjó" viðmið og ég hugsa að margir karlmenn myndu seint "láta sjá sig" í einhverju sem hefði stimpil á sér sem "keeeellingastörf". Alveg burtséð frá því hvar áhugasvið þeirra liggur. Eins eiga þeir við allskonar komplexa að stríða, sumir, ef þeir þurfa að vinna undir stjórn kvenna o.s.fr.v.

(Eða reyndar undir stjórn neins, sumir, þar sem það er ennþá stutt í "Bjarturísumahúsum" komplexinn hjá mörgum og þess vegna þurfa allir að eiga sitt eigið fyrirtæki á Íslandi, en það er nú allt önnur vangavelta.)

Að einu leyti erum við Íslendingar þó nokkuð á undan, allavega bæði Frökkum og Bretlandseyingum, í jafnréttisbaráttunni. Við íslenskar keeeellingar ætlumst ekki lengur til þess að karlmenn sjái fyrir okkur. Ég held allavega að það sé mjög sjaldgæft. Sá hugsunarháttur er hins vegar ennþá áberandi á áðurnefndum svæðum. Þar held ég að karlmenn búi við einstaklega slæmar aðstæður. Konur eiga að fá að gera hvað sem þær vilja, en ekki að þurfa að taka fjárhagslega ábyrgð á gerðum sínum eða lífsstíl. Kallinn á bara að halda kjafti og borga. Í staðinn fær hann kannski reglulegt kynlíf... kannski. Þarna held ég séu að alast upp kynslóðir ídjótískra frekjukvenna sem hafa aldrei vanist því að þurfa að hafa vit fyrir sér. Uppihald fyrir að vera til. Að vera kona er nefnilega sums staðar fullt starf (!) Hver fann upp á þessari dellu? Að sama skapi og það er ekki hollt fyrir börn að fá allt fyrirhafnarlaust upp í hendurnar, gildir ekki það sama um fullorðið fólk?

Hér á landi ber sem betur fer ekki jafn mikið á þessari firru. Samt stingur það mig alltaf í eyrun þegar ég heyri þetta með að "konur eigi að geta valið hvort þær vinna utan heimilis eða ekki". Hvað með karlmenn? Eiga þeir þá ekki líka að eiga sama val? Mér finnst þetta hljóma eins og að konan eigi bara að velja hvort hún vill vinna eða ekki og kallinn á heimilinu verði síðan bara að haga sér og skaffa samkvæmt því. Ég held að þetta sé spurning um samninga á hverju heimili fyrir sig og kjánalegt að reyna að búa til einhver svona boðorð. Hversu mikið fólk vinnur hlýtur fyrst og fremst að fara eftir því hversu mikið það vill, eða hversu mikilvægur lífsstíll er fyrir hvern og einn.

Ég lifi t.d. þannig að ég vinn eins mikið og við það sem mér finnst skemmtilegt. Svo lifi ég á því sem ég vinn mér inn. Mér finnst ekkert atriði, að "eiga dót" eða "geta ferðast" eða halda uppi einhverjum "lífsstíl" hvað sem það nú er. Svo er ég líka með ofnæmi fyrir stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Ég sé ekki betur en að mér sé það líka alveg óhætt, það er til fullt af fólki sem finnst svoleiðis gaman. Ég veit ekki hvort ég hef þessa lífssýn vegna þess að ég er kona og ég veit að mörgum finnst hún "skrítin". Ég get bara ekki keypt þau trúarbrögð nútímans að lífshamingjan felist í eignum eða "fjárhagslegu öryggi" hvað sem það nú er. Þessu gæti verið um að þakka að ég er keeelling. Er ekki hluti af matsjó heiminum og þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum eða slá um mig með því sem ég á. Dótið mitt eða dótleysi, starfsframi eða ekki eða hversu dýran mat ég ét, segir ekki neitt um mína tilvist.

Og nú hef ég vafrað inn á hliðarstíg og er komin út í eitthvað rant sem kemur femínisma eða jafnréttismálum eiginlega ekkert við.

Sko! Það er þetta sem gerist alltaf!

Engin ummæli: