19.1.04

Hmm. Aldrei slíku vant er ég ekkert að farast úr blogggleði. Sjáum nú samt hvað kemur.

Helgin var alveg ágæt.
Á föstudagskvöldið varð ég þeirrar óvenjulegu ánægju aðnjótandi að verða smá veðurteppt í ædol-partýi. Naut ég þar einnig í fyrsta sinn gestrisni frændsystkina minna þeirra Ella og Halldóru, og Skottu sambýlungs þeirra. Var þar vel veitt og gestkomandi sýnd blíða í hvívetna.

Á laugardegi gerði ég mér ferð, að afloknum snjómokstri, til systur minnar, hvar ég hlýddi á hið ágæta tónverk "Hver tók ostinn minn" sem nú er tilbúið undir slagverk. Er það að verða hin mesta snilld og ég hlakka mikið til að hlýða á frumflutning þess sem er áætlaður hjá Lúðrasveit Reykjavíkur þann 20. apríl næstkomandi.

Um kvöldið gerði ég síðan víðreist og fór í neyðarleiðangur til Hafnarfjarðar hvar unnusti minn lá með fastan bíl og heiftarlegt þunglyndiskast sökum knattspyrnuliðs erlendis sem hafði eigi hagað sér eftir hans geðþótta þann daginn. Já, það er margt, mannanna bölið. Var neyðarástandi aflýst, að ég held, eftir nokkuð DVD gláp og neyslu huggunarríks nammis í óhófi.

Á sunnudag þvældist ég fyrir á leikæfingu hjá Hugleik, þar er allt að gerast og viðhöfð hin besta skemmtan í æfingahúsnæði hvar hitastig er jafnan við frostmark. Við stefnum að því að gera Hugleikhúsið (sem er staðsett hálfa leið út á sjó) æfingarhæft fyrir næstu helgi.

Seinnipartinn var haldið í þrítugsafmæli Heiðu nokkurrar Skúladóttur í Breiðholtinu. Þar þótti ekkert fínt undir sautján sortum og veitt gífurlega af mikilli alúð. Þar fór sumsé eftirjólamegrunin endanlega í hundana, var þó farin langt með það, það sem af var helgar.

Kvöldið fór í áframhaldandi tilraunir til að gera unnustann að Buffy-fíkli, árangur óljós.

Og svo er bara aftur komin vinnuvika. Time's fun when you're having flies...

Engin ummæli: