27.1.04

Lenti í vangaveltu um blogg.
Nú er þetta tjáningarform orðið nokkuð rótgróið, meira að segja svo að mér skilst að það sé búið að skrifa um fyrirbærið bækur og jafnvel farið að snerta á fyrirbærinu í ákveðnum kúrsum í bókmenntafræði í háskólanum. (Sel það reyndar ekki dýrar en ég keypti það, minnir að það hafi verið minnst á þetta í einhverju kaffihús-hanginu. Varríus kom með skilgreininguna "innihaldsblogg" um daginn sem nær yfir þær síður sem lúta frekar að almennum efnum heldur en persónulegum reynsluheimi. Um daginn rakst ég á færslu sem fjallaði um fólk sem væri að blogga um "ekki neitt" og þar sagði eitthvað á þá leið að "fólk væri ekki einu sinni að nota bloggið til dagbókarskrifa eða sjálfsskoðunar". Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvort viðkomandi þætti það verra... Mér fannst þetta bara svolítið undarleg vangavelta.

Bloggið er gífurlega sjálfsprottið fyrirbæri. Mér finnst einmitt sérstaklega skemmtilegt að sjá á hversu mismunandi hátt fólk er að nota það. Ég á mér mörg uppáhalds innihaldsblogg, m.a. Varrius (sem er linkur í hér við hliðina) og Pál Ásgeir (sem er linkur í út úr hans. Get ekki sett linka inn í textann minn sökum stæla í makka/skorts á nennu til að skrifa kóðann sjálfan). Hvoru tveggja mjög vel pennafærir menn sem gaman er að lesa. Samt er ég ekki frá því að meiri kúnst sé að skrifa skemmtilegt persónublogg. Ég hef hitt og heyrt í fólki sem finnst það aldrei hafa neitt að skrifa. Menn hafa jafnvel startað lygabloggum vegna þess að þeim þykir þeirra eigið líf ekki nógu spennandi. Ég held hins vegar að svoleiðis sé vandmeðfarnast af öllu. Þar eru menn í rauninni að skrifa endalausa skáldsögu. Það eru mjög fáir sem ég held að mundu endast í að blogga í nafni tilbúinnar persónu svo sannfærandi sé og skemmtilegt aflestrar.

Eigi persónublogg að vera skemmtileg er líka mjög mikilvægt að menn hafi góðan stíl og geti klætt staðreyndir í skemmtileg föt vegna þess að, lets feis itt, ekkert líf er svo gífurlega spennandi á daglegum basís að innihaldið eitt haldi blogglesendum við efnið. (Dæmi um einstaklega stílgott persónublogg er "Sápan" sem er linkur á hér við hliðina, mér finnst hún sérlega góður stílisti, en bloggar því miður ekki jafn oft og áður.) Ástæðan fyrir því að ég hef alltaf nóg að blogga um er t.d. ekki sú að mitt líf sé, eins og Friends þáttur, endalaus röð af skemmtilegum atburðum og uppákomum, heldur kannski frekar vegna þess hversu margt gerist í mínum sjúka hugarheimi stanslaust og hversdags. Ég blogga ekki einu sinni um helminginn af því.

Mér finnst ég stundum finna fyrir einhverri undarlegri "mikilvægiskröfu" um blogg. Það er stundum stutt í að mönnum þyki blogg "eiga" að hafa að innihaldi harðar staðreyndir frekar en hugarflug eða persónuleg málefni. (Þar með er blogg um blogg náttúrulega algjörlega út úr kú og verið að skræla laukinn.) Mér finnst hins vegar eitt af því skemmtilegasta við þennan miðil að hann er gjörsamlega frjáls og óháður og um hann gilda engar samfélagslega samþykktar reglur. Ég fór soldið að spá í mikilvægi bloggs yfirhöfuð þegar ég var á Leiklistarskóla Bandalagsins í sumar. Ég var inni í skólastofunni þar sem tölvan var og var að klára bloggfærslu. Fólk kom inn og ætlaði að nota stofuna, sem var ekkert mál, ég var að klára. Einhver spurði mig hvort ég væri að gera nokkuð mikilvægt.

Mikilvægt? Ég var náttúrulega að skemmta mér konunglega við að segja fólkinu "fyrir utan" hvað væri gaman hjá okkur í Svarfaðardalnum, en þar getur trúlega ekki flokkast sem mikilvægt, svona í stórveraldlegu samhengi. Ég var hins vegar búin að eyða slatta af tíma í að skrifa og vildi helst ekki henda því ópóstuðu.

En er blogg mikilvægt? Á það að vera það? Ég er alltaf að rekast á ótrúlegasta fólk sem les bloggið mitt og stundum finnst mér ég vera gífurlega efnis- og málefnaleg, þó ég reki svosem enga harðlínustefnu í því. Dagbókarskrif og sjálfsskoðun? Neeei, ég held ekki. Flesta hluti er nú skemmtilegra að skoða en sjálfan sig og dagbækur hef ég aldrei nennt að skrifa.

Allavega, við fólk sem heldur að líf sitt sé ekki nógu spennandi til að blogga um það við ég segja: Málið er ekki hvað þú segir, heldur hvernig þú segir það. Blogg eru líka oft ágætis tæki til að koma skipulagi á vangaveltur sínar. Eða eins og konan sagði: "Hvernig á ég að vita hvað ég hugsa nema ég heyri hvað ég segi?" Þetta er svona annar angi af því að ekkert snýst um hvað maður getur, heldur hvað maður gerir.

Sem sagt ég segi; bloggi bara hver sem betur getur, hvernig sem andinn blæs mönnum í brjóst, það er svo gaman að hafa eitthvað að lesa þegar maður nennir ekki að vinna. Svo líta bloggskrif líka alveg út eins og maður sé að vinna þó maður sé alls ekki að því!

Engin ummæli: