21.10.04

Þetta var nú meiri dagurinn.
Eftir þennan syngjandi rómantíska morgun tók við undirritun kaupsamninga, þar var allt eins og blómstrið eina, mér þótti seljandi traustvekjandi kall og hann lét mig hafa aukalykla af íbúðinni þannig að ég má þvælast þar út og inn eins og mér sýnist á meðan þeir eru að taka til eftir smiðina.
Eftir hádegi á morgun get ég síðan hafið búferlaflutninga, var að telja og þetta verða þeir 17. síðan ég huxaði mér fyrst til hreyfings úr foreldrahúsum (1993). (Vill til að eftir alla þessa flutninga er búslóðin svo lítil að hún kemst trúlega í u.þ.b. einn bíl.)
Nú á ég sem sagt skínandi gult, eldgamalt hús og eiturgrænan eldgamlan bíl. Já, fornmunaáhuginn virðist eitthvað ætla að loða við...

Eftir að ég var búin að fara "heimtilmín" og mæla þá hélt ég nú að helstu atburðum daxins væri lokið. En, nei. Kom í hina vinnuna og þá voru Fáfnismenn búnir að koma þar við, taka aðeins til hendinni og dusta af einum og einum blaðamanni.

Veit svosem ekki hvað þeir héldu að þeir væru að gera... ef þeir ætluðu sér að stoppa um sig fjölmiðlaumfjöllun þá var þetta greinilega ekki rétta leiðin. Voru fyrstu fréttir á öllum fjölmiðlum í gærkvöldi. Birtar myndir af þeim og hvaðeina. Gott ef það var ekki hringt í mæður þeirra líka.

Og hvað er þetta með handrukkara? Þetta er í annað skipti sem svoliðis pakk er eitthvað að gaufast nálægt mínu lífi, en langtímalesendur muna kannski eftir þessu.
Og ég er ekki einu sinni glæpamaður, að neinu ráði.

Allavega, í dag er planað ferðalag í Góða hirðinn, Ikea og Rúmfatalagerinn og huxanlega fleiri staði og vonandi verður allt bráðnauðsynlegt innbú komið í mína eigu eftir þá ferð.

Engin ummæli: