1.10.04

Góðir hálsar, við lifum undarlega tíma.

Nýráðinn hæstaréttardómari er ævinlega hliðhollur Flokknum. Honum mælti enginn með, nema sá sem var ráðinn síðast, en hann er frændi Flokksins.

Nýráðinn rektor Landbúnaðarskólans á Hvanneyri er félagi Landbúnaðarráðherra úr hestamennskunni. Umsækendur með doktorspróf og áratuga starfsreynslu voru bara svo óheppnir að vera það ekki.

Nýráðinn Þjóðleikhússtjóri virðist hafa það fyrst og fremst sér til ágætis, fram yfir aðra umsækendur, að vera í matarklúbbi með Menntamálaráðherra og þar að auki í Flokknum. Vanfærni í mannlegum samskiptum og fádæma fáviska um leikhúslíf í landinu (svo sem eins og að halda að 20 ára gamall leikhópur sem ævinlega hefur starfað í hundraðogeinum byggi í Svarfaðardal) var engin fyrirstaða.

Og nú verða menn í Flokknum, sama hver flokkurinn er, að vera sammála forystunni í einu og öllu eða grjóthalda sér saman ella (sbr. nýjasta leikrit Framsóknar) og það er BANNAÐ að bjóða sig fram gegn sitjandi flokksformanni (sbr. Samfylking nýlega). Sundrungu innan Flokksins skal ævinlega haldið leyndri fyrir sauðsvörtum almúganum, sem hefur hvort sem er ekki vit á neinu.

Góðir Íslendingar, velkomnir til Sovét.

Engin ummæli: