22.11.04

Skammdegið er farið að fara í pirrur mínar. Mér finnst myrkur leiðinlegt. Til að reyna að sporna við þróun niður í alsvartasta skammdegisþunglyndi keypti ég mér jóladagatal. Með súkkulaði. Og er að reyna að koma skipulagi á líf mitt.

Í gær ferðaðist t.d. eitthvað af pjönkum mínum til míns heima, úr geymslum systra minna. Mikil ógrynni átti ég af drasli sem ég var búin að gleyma. Bíllinn er enn á inniskónum, en stefnir á naglana í dag. Að því loknu hef ég huxað mér að festa kaup á sjónvarpi, gluggatjöldum og tæknivæðingu heimilisins í formi heimasíma, heima-internets og ógrynni sjónvarpsstöðva í formi breiðbands. Svo þarf ég aldrei aftur að fara út.

Þessu skal öllu lokið áður en Rannsóknarskipið kemur í bæinn á fimmtudag.

Og talandi um fimmtudag, þá hyggja menn á að frumsýna Memento Mori, samstarfsverkefni Hugleix og Leikfélax Kópavox. Virðist ætla að verða hin ágætasta sýning, en verður ekki sýnd mjög oft í þessari hrinu. Veit ekki ennþá nákvæmilega neitt... eiginlega, nema að það mál er bráðum að verða búið þannig að maður fer að geta verið stöku sinnum heima hjá sér, með góðri samvisku.

Það verður nú aldeilis munur.

Engin ummæli: