20.12.04

Þetta var helgi menningar og félagslegrar meðvitundar á alla kanta.

Á föstudaxkvöld ákvað ég að nenna ekki á Memento Mori (enda saumavélin sem ég ætlaði að sækja flúin af vettvangi) og ákvað í staðinn að vera heima og horfa á þrennt í sjónvarpinu í einu. List sem aðeins er hægt að iðka ef maður er aleinn um fjarstýringuna. Fljótlega urðu þó bæði Law & Order og Ædolið að lúta í lægra haldi, heimildaþátturinn um Band Aid tók alveg yfir. Þetta er, að ég held, í fyrsta skipti sem ég hef grenjað yfir heimildamynd. Ég veit ekki alveg hvort það var hreinlega það að sjá öll æskugoðin mín á einum stað að syngja jólalag, eða upprifjun á hungurkláms-myndunum frá Eþíópíu, eða myndir af sama stað nú 20 árum seinna þegar menn eru tiltölulega glaðir, börnin kát og ekkert tiltakanlega svöng, en ég vatnaði mörgum músum. Á milli þess þegar ég skellihló að lýsingunum á því hvað allar eitís stjörnurnar voru þunnar þennan dag og hversu alvarleg hárspreyslykt var í loftinu. (Og svo eru menn hissa á því að það hafi komið gat á Ósonlagið?) Og að Boy George sem var næstum eini maðurinn í heiminum sem var kominn út úr skápnum og þreyttist ekki á að bregða samgoðum sínum um samkynhneigð. Sérstaklega George Michael (!)

Á laugardaxkvöld byrjaði ég á að fara að sjá Birdy hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Skemmst frá því að segja að sú sýning er mikil snilld. Hver silkihúfan upp af annarri í leikarahópnum og flottar lausnir út um allt. Virkilega gaman að sjá.
Velkominn Ingvar.

Þaðan lá leiðin á Þjóðleikhúskjallarann að sjá fjóra kraftflimtingamenn í röð með Ágústu Skúla á milli. Það var algjör gargandi snilld og mér er ennþá illt í hlævöðvunum.

Í gærkvöldi reif ég mig svo upp úr þynnkunni og fór að sjá leikritið Þú veist hvernig þetta er, hjá Stúdentaleikhúsinu. Fyrr á árinu var eitthvað verið að reyna að segja mér að pólitískt leikhús væri dautt og úrelt. Það er haugalygi. Sem er eins gott vegna þess að þá væri nú minn leikritunarferill á enda. Þessi sýning er gargandi snilld og gladdi mig gífurlega þar sem þar sem það er nú ljóst að ég er ekki eina manneskjan sem finnst þetta þjóðfélag vera að sigla hraðbyri til Helvítis. Þetta átti víst að vera allra síðasta sýning, en mér finnst það ætti að vera allavega ein enn, starfsmannasýning á Alþingi.

Og svo eru víst bara að koma jól! Jahjarna.

Engin ummæli: