26.9.05

Draugagangur

Þar sem ég eyddi helginni í að huxa um djáknann á Myrká, Glámur hélt fyrir mér vöku í nótt og ég er búin að berjast í allan morgun við andsetna fiskiflugu í vinnunni, finnst mér nauðsynlegt að deila með mönnum nokkrum athygliverðum staðreyndum sem ég hef verið að grafa upp undanfarið um "hefðbundna" íslenska drauga.

-Eyjaselsmóri er glasabarn. Hann reis upp úr meðalaglasi.
-Útburðarvæl eru fyrir veðurbreytingum.
-Draugar lögðust líka í vesturferðir. En þegar vestur um haf var komið hættu þeir gjarnan að vera mórauðklæddir og þungstígir en tóku uppá að klæðast hvítu og svífa eins og hverjir aðrir útlendingsdraugar.
-Sumir draugar voru taldir samkynhneigðir þar sem þeir sóttu í að laumast aftan að mönnum!

Mest af þessari visku hef ég af þessum vef.

Og ég myndi vilja bæta við einum flokki af draugum. Það eru stalkerdraugarnir. Það eru ótrúlega margir sem verða bara geðveikt skotnir í einhverjum og sjá síðan það fólk bara hreint ekkert í friði, langt fram yfir gröf og dauða. Jafnvel þrátt fyrir yfirlýst áhugaleysi viðkomandi, svo sem eins og séra Oddur reyndi að koma henni Miklabæjar-Sólveigu í skilning um.

Svo sá ég treilier úr mynd í gær sem mér sýnist vera að setja skemmtilegt "spinn" á svona mál. Ætla ekki að láta næstkomandi afrek Tims Burton, The Ghost Bride, framhjá mér fara.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Má ég lauma hugmynd að ykkur höfundum Jólaævintýris? Gæti það ekki heitið Draugur Group? Allavega svona að undirtitli!?