10.5.06

Jarðarför

Um síðustu helgi lést hann fóstri minn, Gísli sem lengst af bjó á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Hann kenndi mér ýmislegt, eins og t.d. að morgunsárið er ekki morgun-sárið, heldur morguns-árið. Sbr. árla morguns. Hann kenndi mér líka að brúka stuðla og höfuðstafi í kveðskap áður en ég varð 10 ára, og hugðist gera úr mér hagyrðing mikinn. Tóxt það reyndar ekki, en gerði það að verkum að ég fæ klíju og grænar ef ég heyri leirburð. (Nema eftir mjöööög mikið áfengi.)
Hann Gísli varð ekkert ógurlega gamall, en þó kannski eldri en nokkur bjóst við, þar sem hann var búin að eiga lengi við veikindi að stríða.

Um næstu helgi er ég sumsé að fara eystra með Rannsóknarskipip og Freigátu meðferðis, til að jarða þennan heiðursmann. Verð því utan þjónustusvæðis frá föstudegi til mánudax. Áður er ég að huxa um að skrifa minningargrein. Og Freigátan fær að fara í fyrsta sinn í flugvél. Það verður nú spennandi að sjá hvernig henni líkar það...

Annars er ég búin að ná mér í einhverja kveftangda veiki. Skrópaði í jógað í morgun (ákvað að vera ekki að smita 20 ungabörn ef ég kæmist hjá því) og ligg núna bara eins og eymingi með hor og slef á meðan Rannsóknarskip ryksugar. Verð að gera svo vel og jafna mig fyrir helgi, svo ég geti nú verið skemmtileg í jarðarför.

Í gær fór ég á tónlistarprógramm Hugleix í Þjóðleikhúskjallaranum. Það var skemmtilegt. Allir sungu og spiluðu óstjórnlega fallega. Hrifnust var ég af kántríútgáfi Ripps Rapps og Garfunkel á Söng Meyvants.
Allir að drífa sig á fimmtudaxkvöldið!
Hósópósíanna!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Blessuð sé minning Gísla! Mér finnst bara alveg ótrúlegt að hann var búin að vera að glíma við þessi veikindi síðan hann var 22 ára eða 1952. Það er langur tími
Bestu kveðjur Sesselja

Nafnlaus sagði...

Ég votta þér samúð mína Sigga mín. Það er alltaf synd að horfa á eftir góðu fóki. Hvort sem það var orðið satt lífdaga, veikt eða gamalt, söknuðurinn er alltaf til staðar og skarðið verður aldrei fyllt.
Gangi þér vel austur.
(passar,ég er að koma suður í dag)