8.11.04

Í nýju íbúðinni minni held ég að búi andi morgunhana. Þar vakna ég alltaf löngu á undan vekjaraklukkunni og er iðulega búin að reykja hressilega í rúminu áður en ég þarf að fara á fætur. (Sem minnir mig á það, verð að fara að fá mér náttborð. Bara tímaspursmál hvenær ég sulla niður úr öskubakkanum.)

Svo þegar ég loxins druslast á lappir finn undantekningalítið ég hjá mér einhverja áður óþekkta þörf fyrir að BORÐA MORGUNMAT! Hefur ekki gerst síðan einhvern tíma í kringum 1986.

Hreiðurgerðin er alveg að fara með mig. Ég vaska stanslaust upp, fyllist óstjórnlegri kátínu þegar ég þarf að nota nýju þvottavélina mína og hugsa mikið um gluggatjöld. Það fer hins vegar dáldið í pirrurnar á mér að vera bíllaus þessa dagana og geta þess vegna ekki nálgast hina ýmsu húsmuni sem bíða mín út um allan bæ. (Svo maður minnist nú ekki á allt sem er ókeypt í Ikea og Rúmfatalagernum.)

En um leið og drossían losnar af langlegudeild verður tekið til við innréttingar af miklum móð og reynt að standa við eitthvað af stóru orðunum varðandi hittingar ýmsar í húsakynnum vorum.

Engin ummæli: