8.11.04

Eins og hún Elísabet, vinkona mín og verðandi mágkona, minntist á í kommenti hér að neðan átti Árni nokkur Friðriksson afmæli á föstudaginn. Henni þótti greinilega viðeigandi að það fengi umjöllun hér þannig að það er best ég svali nú forvitni haugs manna og tjái mig aðeins um tilvist téðs Árna.

Og, nei, við erum ekki að tala um rannsóknarskipið.

Þannig bar við að hausti ársins 1993 að ég fór austan til langskólanáms og lá leiðin til Akureyrar þar sem ég hélt, fyrir misskiling, að ég ætlaði að verða kennari. Þar lágu leiðir okkar Árna fyrst saman, vorum saman í bekk fyrstu önnina. Snerum þó bæði af villum okkar vega, hann hætti um áramót, ég um vorið.

Haustið 1994 ákvað ég síðan að yfirvinna óbeit mína á höfuðborgarsvæðinu, flutti þangað og hóf nám í bókmenntafræði. Og ákvað að ganga í leikfélag sem ég hafði heyrt að væri skemmtilegt. Fyrsti maðurinn sem ég rakst á þegar ég mætti á minn fyrsta fund í Hugleik var einmitt Árni þessi sem ég kannaðist við frá Akureyri. Hann var þá farinn að nema ensku í sama skóla og ég og við lékum saman í fullt af leikritum hjá Hugleik, og ég held við höfum líka setið saman einhverja kúrsa í skólanum, næstu 3 árin. Annars man það enginn svo ofboðslega gjörla, vorum ekkert að taka eftir tilvist hvors annars sérstaklega.

Þá skildu leiðir, en árið 1999 kynntist ég Elísabetu systur hans á leiklistarskóla bandalagsins. Varð okkur vel til vina og varð henni tíðrætt um mannkosti þessa bróður síns og þótti rétt og skylt að við stöllur gerðum tilraunir til að mægjast. Taldi ég öll tormerki á því þar sem við Árni vorum jú búin að þekkjast lengi og ekki hafði gneistað svo mikið sem örlítið þar á milli, undir neinum kringumstæðum. (Honum leiddist meira að segja svo mikið að þurfa að leika að hann væri skotinn í mér í einu leikriti að hann ákvað að hætta að leika! Í því leikriti fékk hann reyndar líka að giftast Unni Gutt, sem hlýtur nú að hafa bætt það eitthvað upp.)

Var svo kyrrt um hríð. Ég þvældist um útlönd og Austurland og frétti lítið af þeim systkinum.

Þangað til svo bar við að ég þurfti að mæta til haustþings á Akureyri í október síðastliðnum. Undirrituð var nú reyndar ekki mikið fyrir mann að sjá. Rétt svo hætt að rjúka úr rústunum eftir síðasta mann sem hafði gjört nokkurn óskunda í voru sálartötri. Hitti ég alltént þar fyrir hann Árna minn (og hina harðákveðnu systur hans sem enn hugði okkur mægðir) og urðu það miklir fagnaðarfundir. Svo miklir að með okkur Árna blossaði upp rómantík hin mesta og hefur varla slitnað beinlínusamband við norðurland síðan.

Þar með hefur trú vor á lífið, ástina, pörun og eilífa rómantík verið endurvakin af þvílíkum krafti að annað eins hefur ekki sést eða heyrst og ég er á leiðinni norður um helgina. Hitti hann Árna minn Friðriksson (ekki rannsóknarskipið) eftir fjóra daga!

Engin ummæli: