10.11.04

Öppdeit

Þegar 24 dagar voru í afhendingu á heimilinu mínu setti ég fram nokkur markmið. Rétt að gera úttekt á því hvernig málin standa.


1. Ég þarf að komast að því hverjir hafa búið á hanabjálkanum mínum, helst frá upphafi (a la Sesselja Agnes, fyrir þá sem þá bók þekkja) og helst vil ég að Þórbergur Þórðarson hafi leigt þar sem fátækur námsmaður. Mun allavega bera þær sögur út.

Skemmst frá því að segja að segja að sú rannsóknarvinna er ekki hafin. Frétti samt fyrir tilviljun að Sigga Birna bjó einu sinni í íbúðinni minni í smá tíma. Það er nú bara nokkuð merkilegt!

2. Fyrir kraftaverk mun ég hætta að reykja, eiga alltaf margar tegundir af te og gera jógaæfingar á morgnana. Eignast allskonar baðdót með blómailmum og fara í kertaljósaböð í tíma og ótíma með innhverfri íhugun.

Hmmm. Reyki stanslaust, um alla íbúð og aðallega í rúminu. Enn hefur hvorki te né baðdót komið inn fyrir þröskuldinn. Jógaæfingar hafa verið hverfandi. En kertaljósaböð eru á sínum stað, svona þegar tími vinnst til, en yfirleitt með púrtvínsdrykkju og reykingum og rómantískum órum, frekar en íhugun.

3. Mun ekki detta íða um helgar, sökum nálægðar við miðbæinn, heldur sitja heima í nýja ruggustólnum, hlusta á rás 1 eða klassíska tónlist og prjóna, eða lesa eitthvað af merkilegu bókunum sem hingað til hafa bara verið snobbað hilluskraut.

Er reyndar búin að hlusta helling á rásir 1 og 2. Það kemur til af fjarvistum sjónvarps. Og búin að prjóna. En bækur eru ýmist ofan í kössum eða enn fjarverandi. Og ég held ólifnaður hafi verið stundaður flestar helgar, þó ekki af neinni sérstakri nálægð við miðbæinn, heldur í Færeyjum og á öðrum undarlegum stöðum. Um helgina verður það t.d. Akureyri.

4. Mun ekki fleygja mér eins og örvæntingarfull lóðatík fyrir fætur fyrsta mannvesalings sem lítur á mig tvisvar, heldur bíða Alveg Róleg, með Reisn, Innri Kyrrð og Æðruleysi, eftir Hinum Eina Rétta. (Einhvern tíma geri ég svo tékklista yfir hvaða kröfur H.E.R. skal uppfylla.)

Það var ekki komin nein reynsla á þennan biðtíma þegar Rannsóknarskipið kom til sögu. Hvað þá komið á einhvers konar ástand reisnar, innri kyrrðar eða æðruleysis. Og hann var sennilega fyrstur til að líta á mig tvisvar og, já, held ég hafi svei mér þá gert allt sem ég ætlaði ekki, samkvæmt þessu markmiði. Gott mál. Algjörlega þess virði.

5. Á meðan ég bíð mun ég eyða afgangs orku í að skrifa Ódauðleg Meistaraverk og stefna á Nóbel. Ævinlega óaðfinnanlega tilhöfð.

Pah! Er komin með tölvu. Búin að nota hana til að horfa á 6 & the city. Á sloppnum.


6. Ég mun baka og elda af hjartans lyst, eins og hver önnur aðalpersóna í Snjólaugarbók og halda fámenn og innileg matarboð með exótískum smáréttum og heimpekilegum rökræðum um listir og menningu. Gjörning þennan mun ég jafnan fremja íklædd jarðarlituðum þægindaklæðnaði með viðeigandi lýsingu og tónlistarvali.


Já, einmitt. Ísskápurinn er búinn að vera krónískt tómur síðan ég flutti, sem og íbúðin öll, þannig að ekki hafa hin exótísku matarboð átt sér stað. Mig langar mikið að geta staðið við þetta, einhverntíma, en fyrst verður að vera hægt að bjóða mönnum sæti. Guðmá hins vegar vita hvenær það gerist.

Sem sagt, 1 Artífart Miðbæjarrotta, coming up!

Rrrright... eða bara enn ein efnishyggjurottan sem eyðir flestum vökustundum í vinnuna og lífsgæðakapphlaupið. Það er annað hvort í ökkla eða eyra.

Held sé óhætt að segja að langt sé í land með ansi margt á þessum ágæta markmiðalista, og sumt úrelt. Er að huxa um að bregðast við því með því að gera bara nýjan.

Engin ummæli: