12.11.04

Í tilefni af umræðu á Varríusi um þjóðsönginn, og komment dr. Sigga um Íslendinga sem syngja hann fullir í útlöndum datt mér í hug lítil saga.

Þannig var að einu sinni, þegar ég var útlendingur, datt Íslendingamafíunni, þáverandi, í Montpellier að breggða sér á karókíbar sem einhver hafði rekist á fyrir tilviljun. Þangað ráfuðum við eitt kvöldið, fylktu liði, og ætluðum nú aldeilis að skemmta okkur og öðrum. Á leiðinni löbbuðum við m.a. í gegnum tóma verslanamiðstöð (Pólígonið) og skemmtum öryggisvörðum með upphitunarsöng...

...komum reyndar til baka ekki mjög löngu síðar eftir að okkur hafði verið fleygt öfugum út af karókíbarnum. Í ljós kom, sem sagt, að Frakkar taka karókísöng talsvert alvarlegar en 10 fullir Íslendingar og kunnu alls ekki að meta flutning Reynis og Aðalsteins á... hvaða lagi sem það nú annars var. Neituðu að úthluta okkar borði fleiri lögum (og misstu fyrir vikið af því að heyra í Sveppa, síðar söngleikjastjörnu) og gáfu kurteislega, en eilítið þurrlega, til kynna að nærveru vorrar væri ekki óskað. Svo héldu Frakkar á hvítum skyrtum áfram að þruma ballöður, reyndar meira af góðum vilja en óþrjótandi hæfileikum.

Þannig fór um sjóferð þá.

Þegar við vorum síðan á leiðinni til baka í gegnum Pólígonið, hálf-flissandi og pínulítið skömmustuleg, þá urðu öryggisverðirnir voða glaðir, enda örugglega leiðinlegt hjá þeim í vinnunni, og spurðu hvort við ætluðum ekki að syngja meira. Við fengum samtaka hugstrump og byrjuðum einum rómi á Þjóðsöng Íslendinga og kyrjuðum hann á leiðinni í gegn. Komumst að því að hljómburðurinn í tómu Pólígoninu var hrein snilld, auk þess sem það tekur akkúrat tímann sem það tekur að labba í gegnum það að syngja þjóðsönginn. Stoppuðum á stéttinni hinu megin til að leggja áherslu á lokatónana.

Skemmst frá því að segja að við það rjátlaðist af okkur skömmin og þjóðrembingurinn tók völdin að nýju.

En við fórum aldrei aftur á þennan karókíbar, enda ekki víst að okkur hefði verið hleypt inn.


Þetta var smásaga daxins.

Gleðilega helgi og ég vona að menn njóti hennar jafn vel og ég hef huxað mér að gera.

Óver end át.

Engin ummæli: