2.12.04

Með vísnasöng ég kökuna mína hræri...

Þessi gullmoli barst mér að norðan í gær. Og ég fór að hugsa um jólalögin. (Hef reyndar ekki heyrt eitt einasta ennþá.) En datt í hug nokkuð sem mig hefur lengi langað til að gera. Nefnilega skoða aðeins texta Sveinbjörns Egilssonar við Heims um ból, út frá heilbrigðri skynsemi og orðabók menningarsjóðs. Það er nefnilega margt skrítið í kýrhausnum.

Heims um ból
helg eru jól.


Gott og vel. Svolítið verið að benda á hið augljósa kannski en...

Signuð mær... (!)

Bíddu nú við? Signuð? Er það gott eða slæmt? „Æi, þú veist, hún Mæja. Hún er eitthvað svo siiiiignuð, mar...“

...son Guðs ól,...

Lengi vel hélt ég að þetta ætti að vera son Guð sól, og fannst það bara alveg í samræmi við vitið í þessum texta.

...frelsun mannanna, frelsisins lind
frumglæði ljóssins,...


Frumglæði! Ójá. Og frumglæði ljóssins? Það eina sem mér dettur í hug er kveikjari. Þá er þetta orðin skemmtileg myndlíking. En svo kemur meira undarlegt:

...en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Takkfyrir það. Það eina sem mér dettur í hug er að hér sé verið að þýða sum orð beint úr ensku: Mannkind=mankind, Meinvill=meanwhile. Semsagt, á mannamáli, gjörvallt mannkyn var í myrkrinu á meðan. Meikar sens. Annars er þessi meinvill búinn að þvælast fyrir mér alla ævina.

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,...


Tímaflakk, gott og vel.

...liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,...


Hins andlega... seims? „Já, góðan daginn, ég er að huxa um að ganga í þennan sértrúarsöfnum, ég þarf nefnilega að finna minn andlega seim. Hef grun um að hann sé einhvers staðar við hliðina á konunni í sjálfri mér...“ Nema hér sé aftur verið að beinþýða... lifandi brunnur hins handlega, seems... og þá erum við farin að bregða sálmaskáldinu um vantrú.

konungur lífs vors og ljós.


Gottogvel.

Heyra má himnum í frá
englasöng: Allelújá.
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér


Tilreiðir sér? Já, ég tilreiddi mér íbúð um daginn. Svo tilreiddi ég mér nýjan kærasta... Ég er að huxa um að fara að nota þessa ágætu sögn. Að tilreiða.

samastað syninum hjá.

Og það.

Það eru mörg jólalög sem ég skil ekki. Hef til dæmis aldrei skilið hvað lögin „Gekk ég yfir sjó og land“ og „Adam átti syni sjö“ hafa með jólin að gera. Og hvað var hann líka að klappa saman lófunum og stappa niður fótunum og snúa sér í hring eins og fífl? Varð það bara svona almennt eitthvað sem menn gerðu þegar þeir voru búnir að eignast sjö syni og sá? Var maðurinn eitthvað bilaður? Það var kannski líka hann sem var gamli maðurinn sem bjó hinu megin við sjó og land og gat ekki ákveðið hvar hann átti heima? Sá stappaði líka og klappaði og lét öllum illum látum.
Ég held það hafi nú bara verið eitthvað að honum Adam.

Engin ummæli: