3.12.04

Meira af jólalögum...

Um árið var mikil umræða um jólalagið „Jólasveinar ganga um gólf“. Ég hélt í einfeldni minni að þetta væri nú bara einhver bóla, menn myndu átta sig á því að það gengi náttúrulega ekkert að ætla að fara að breyta þessu með einhverju handafli. En, í gær heyrði ég útundan mér að það var einhver hljómsveit að spila jólalög á rás 2. Og, hvað heyri ég? Stúlka með fallega rödd syngur:

...uppi á hól stend ég og kanna...

og skammast sín ekki einu sinni. Ég bara tek ekki þátt í þessu. Ég segi heldur ALDREI Mexíkói. Mér er alveg sama hvað hver segir. Á meðan ég dreg andann skal ég syngja: Uppi á STól stendUR MÍN KANNA, og Lítill MexíKANI með somsombreró, þegar mér þykir henta. Og ekkert rugl.

Það er annars helst í fréttum að nú sér fyrir endann á prófarkalestrarferli mínum. Þykir mér það allt hið besta mál og hef sennilega aldrei verið jafn kát yfir að vera rekin úr nokkurri vinnu. Nú skal spýtt í lófa og lögð drög að aukafjáröflunum sem eru LÍKA skemmtilegar. Er þegar komin með nokkrar hugmyndir og vilyrði frá valinkunnum einstaklingum og lízt vel. Ekkert er nú samt enn á hreinu og allt veltur á því að ég vinni almennilega úr, sem er kannski ólíklegt að gerist miðað við minn letistuðul, þannig að ef einhver veit um einhver skemmtileg hlutastarfsverkefni sem tengjast mínu fagi og/eða áhugasviði og borgar eitthvað þá mega þeir gjarnan setja sig í samband.

Engin ummæli: