Hún Ásta átti afmæli í gær og til hamingju með það. Ég komst hins vegar ekki til að heimsækja hana í tilefni daxins sökum nennuleysis á náttfötunum.
Enda kom ekki dagur í gær. Ég veit það kemur ekki svoleiðis heldur í dag, á morgun eða nokkurn tíma fyrr en á næsta ári. Það verður nú bara að viðurkennast að skammdegið fer illa í mig og það er fáránlega erfitt að fara fram úr og gera eitthvað af viti. En, það verður mér sennilega til lífs að fara heim og láta mömmuna sjá um mig þangað til á næsta ári. Hún sökkar, skammdegisfýlan...
Ég er annars búin að kaupa allar jólagjafirnar, lá reyndar við nokkrum kvíðaköstum í Kringlunni í gær. Hvaðan kemur eiginlega allt þetta fólk?
Varð vitni að einu. Var í bókabúð og var að fá afgreiðslu þegar inn storma fjórir pottormar, á aldrinum 10 til 12 ára, ca, og spyrja afgreiðslukonuna hvort hún selji klámblöð. Konan kvað já við því en lét fylgja sögunni að þeir væru of ungir til að kaupa slíkt. Pottormarnir sinntu því engu, en snöruðust að tímaritahillunum þar sem þeir horfðu á forsíður að Burda og Bride Magazine í 10 sekúndur sögðu "OJ" og héldu síðan á brott flissandi og frussandi. Okkur afgreiðslustúlkunni var skemmt.
Ég fór nú samt aðeins að velta þessu fyrir mér, svona eftirá. Ætli kvenfólk sé sem sagt orðið svona rækilega hlutgert í augum komandi kynslóðar karlpenings að myndir af slíkum fyrirbærum séu samstundis orðnar klám? Ætli þetta hafi verið litlir og upprennandi talebanar sem krefjast þess heima fyrir að mæður þeirra og systur hylji á almannafæri allt nema augu og fingur? Ætli uppvaxandi kynslóð hyggi á siðferðisbyltingu með viðeigandi kvenhulningu? Eða kannski er bara búinn að vera vetur svo lengi að blessuð börnin hafa ekki séð úlpulaust kvenfólk síðan þau muna eftir sér...
21.12.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli