22.12.04

Kæri Davíð.
Gleðileg jól og til hamingju með góðærið, hagvöxtinn og að við skulum vera með ríkustu þjóðum heims. Þetta var nú aldeilis vel af sér vikið hjá þér. Að koma þjóðfélaginu á þessa líka gargandi siglingu.

Nokkrir menn eru meira að segja orðnir grilljónamæringar! (Reyndar náttúrulega ekki rétta fólkið, Jónarnir Ásgeir og Ólafs áttu náttúrulega ekkert að vera að vilja upp á dekk með að troða vinum þínum um tær... En á móti kemur að nú getur þú reddað öllum sem þú þekkir fínum embættum á vegum ríkisins. Það var nú eins gott.)

Já, það er góðæri. Allir sem máli skipta hafa það gífurlega gott. (Reyndar eru alltaf einhverjir öryrkjar og aumingjar vælandi, þykjast ekki eiga í sig eða á og standa í stækkandi biðröð fyrir framan Fjölskylduhjálpina og Mæðrastyrksnefnd fyrir hver jól. En eins og þú sjálfur sagðir: Þar sem eitthvað er ókeypis þá hópast náttúrulega sníkjudýrin að. Þetta er auðvitað rakkarapakk sem helst ætti að éta það sem úti frýs, hvort sem er.)

Og til hamingju með stríðið í Írak! Stórkostleg framtakssemi! Að koma á lýðræði! Eins og í Afganistan! (Reyndar er lýðræðið í Afgan ekki alveg að virka, löggan gerir það sem henni sýnist og glæpagengi ráða því sem þau vilja og menn eru að fá talsvert verri útreið en hjá Talebönum áður, en það er ekki okkar vandamál... er það?) Og Írakar skulu fá lýðræði, hvort sem þeim líkar betur eða verr. (Reyndar er útlit fyrir að þeim líki það verr, enda heittrúaðir talebanskir múslimar meirihluti þjóðarinnar. Og menn eru strádrepnir þar á hverjum degi og útlit fyrir að einhver slatti af fólki fái ekki að lifa af jólin... En þetta pakk náttúrulega veit bara ekki hvað því er fyrir bestu!)

Og til hamingju með lýðræðið á Íslandi! (Auðvitað var ekkert hægt að láta hvaða sótraft sem var hafa rétt á að hafa skoðun á fjölmiðlafrumvarpinu. Að láta sér detta annað eins í hug! Lýðræðið gengur náttúrulega ekki nema meirihluti þjóðarinnar sé sammála þér, eins og þú veist.)

Já, ég hef enga trú á öðru en að þú eigir gleðileg jól og sofir vel á nóttunni eftir allar þessar stórkostlegu ákvarðanir sem allar hafa verið þjóðinni og mannkyninu öllu til framdráttar. Hér mun ríkja Stöðugleiki og Lýðræðislegt Frelsi um aldir alda og megi Afturhaldskommatittir Aldrei Þrífast.

Engin ummæli: