28.5.03

Jahám.
Ég lofaði víst að tjá mig eftir laugardagskvöldið ef það yrði eitthvað merkilegt. Það varða, það er bara svona rétt nýrunnið af mér núna. Skemmtan hófst sumsé með því að við Rannveig og Hanna Gyða mættum galvaskar upp í Einarsstaði þar sem Sigríður nokkur Hafdís hafði leigt bústað ásamt móður sinni, stjúpföður og syni. Þar dvöldum við í góðu yfirlæti við höfðinglegar veitingar fram eftir kveldi. Stór hluti þeirrar skemmtunar var náttúrulega hin stórskemmtilega söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva, en með henni fylgdumst við með þvílíkum óhljóðum að blessað barnið hann Alexander fékk hausverk af og varð frá að hverfa.
Við vorum helst á því að halda ekki með rússnesku lesbíunum, afþvíað þær voru frægar. Skemmtilegt fannst okkur hvað Bretar fóru rækilega út af laginu, og norski leikskólakennarinn bræddi hjörtu.
Síðan var brunað á ball, þar fyrir utan skildum við við Rannveigu, en við Siggadís og Hanna Gyða urðum með þeim allra fyrstu inn á ballið, alveg eins og fábjánar. Fljótlega fór þó að streyma að hverskonar lýður. (Ég hitti m.a. Herbert frá Reyðarfirði, Berglind, manst þú ekki eftir honum? Fyndinn kall sem hlær eins og fífl? Allavega, hann er að verða fimmtugur og hefur ekkert breyst undanfarin 10 ár.)
Eníhú. Við dönsuðum eins og vindurinn og ég drakk mér algjörlega til skammar, í annað skipti á innan við viku. Það endaði allt með ósköpum, ég talaði við einhvern Ítala og tjáði honum í smáatriðum hversu miklir vesalingar þjóð hans og kynbræður allir væru. Hann reyndi samt við mig, en komst ekki langt með það. (Enda var hann nú ekki frýnilegur greyið, nefið á honum náði hálfa leið inn að Kárahnjúkum.)
En, ég skammast mín náttúrulega samt niður fyrir allar hellur. Mannorðsmissir minn er algjör og hauspokalaus fer ég ekki út fyrir dyr á þessum stað meira í sumar. Í refsingarskyni er ég að útbúa vinnustofu til MA ritgerðarsmíða í afskekktasta horni hússins, í kompu inn af bílskúrnum, þar sem ég kem til með að taka út mína refsingu fyrir að til mín hafi sést á tali við óvinaþjóðina.
Annars er allt galið að gera í listalífinu. Ég fór á aðalfund Leikfélags Fljótsdalshéraðs í gær og lét kjósa mig í stjórn. Á laugardaginn verðum við síðan að setja upp myndlistarsýningu menntaskólanema á safninu sem verður hluti af formlegri opnun á sunnudag. Seinnipartinn á laugardag eru tónleikar með Báru systur og fleiri brottfluttum tónlistarmönnum og á aðfaranótt laugardax er náttúrulega planið að rífa sig upp um miðja nótt, fara upp á fjall og horfa á sólmyrkvann.
Hér er sumsé sumt í volli, en annað voða gaman.
Jibbíkóla!