24.2.10

Refsivendir þrotabúanna?

Ég veit ekki hvað ég hef mikla trú á að einhvern tíma náist einhvers konar réttlæti yfir gróðærisfuglana. Ég held einhvernveginn að sérstakur saksóknari negli kannski einhverja smákrimma, en þeir stóru sleppa. Þeir gera það alltaf.

Mig langar ekkert sérstaklega að láta hengja þá eða flengja. En mig langar að sjá þá vel og rækilega gjalsdþrota. Helst búna að hella úr skattaskjólunum, á atvinnuleysisskrá eða í skítadjobbum, búandi í kjallaraíbúðum í Yrsufellinu, dragandi réttsvo fram lífið. Bara eins og venjulegt fólk.
Það er draumurinn.

Hingað til hef ég helst haft trú á að skattstjóri finni eitthvað á þá. Ekki einu sinni Al Capone slapp við skattinn...

En nú er maður að heyra af einum og einum skiptastjóra þrotabús sem lætur líklega. Þrotabú Baugs virðist ætla að vaða í Haga, ólíkt því sem aðrir kröfuhafar í þá virðast þora, og nú er Landsbankinn farinn að velgja fyrrum aðaleigendum og stjórnendum undir uggum.

Svo er ég að sjá í fréttunum að eignaflutningar yfir á eiginkonur hrunamanna verði riftanlegir talsvert aftur í tímann.

Alltaf líður manni nú ponkulítið vel þegar maður heyrir að eitthvað sé að mjakast.

23.2.10

Afmennskun auðmanna

Frjálshyggjufélagið sendi frá sér áhugaverða ályktun á dögunum. Hún var löng og tyrfin og afar illa samin, en það af henni sem komst í fréttir var sú að orðið auðmaður væri hjá vinstrimönnum farið að hljóma eins og gyðingur hjá áróðursmeisturum nasista. Ansi djúpt í árinni tekið. Og ekki rétt.
Ennþá.

Undanfari helfarar gyðinga var nokkuð langur. Ef stiklað er á virkilega stóru og einfaldað mjög, þá átti Þýskaland í alvarlegri kreppu eftir fyrra stríð. Nokkrir viðskiptamenn sáu sér þó leik á borði og tókst að auðgast talsvert (þó ekki nokkurn skapaðan hlut miðað við það sem við sáum í góðærinu, í dag héti það "að hafa það sæmilegt") sem sagt, ákveðnum mönnum sem voru slungnir í viðskiptum tókst að hafa það sæmilegt í gegnum kreppu millistríðsáranna, og líka í gegnum hrunið 1929 og eftirleik þess. Margir þessarra einstaklinga voru gyðingar sem gáfu trúbræðrum sínum og vinum ýmsar ívilnanir sem öðrum buðust ekki. Á hinn bógin voru þeir ríku sem sveltandi almúginn þurfti að horfa uppá alls ekki allir gyðingar og því síður voru allir gyðingar ríkir.

Þetta varð til þess að þýskur almenningur var mjög tilbúinn, og tók því raunar fagnandi, þegar nasistaflokkurinn tók til við að hreinsa til í þessari auðklíku og nota eigur hennar til að borga erlendar skuldir ríkisins. Og þetta hljómar kunnuglega.

Það sem gerðist í Þýskalandi var að gyðingar voru afmennskaðir. Enda áttu menn erfitt með að skilja hvernig ákveðnir einstaklingar gátu verið svo harðbrjósta að sölsa undir sig auð á meðan almenningur og ríkið barðist í bökkum og komst varla (og margir ekki) af. Var það mannlegt? Og það er í rauninni óskiljanlegt, frá mannúðarsjónarmiðum. Hins vegar var nokkuð stórt stökk yfir í að halda því fram að þessir menn hafi verið eintómir gyðingar og allir gyðingar. En þá ber að hafa í huga hversu mikið auðveldara var að hafa stjórn á upplýsingaflæði þá en nú.

Ég hef tilhneigingu til að bera saman hrunið og lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Reyndar er ótrúlegt hversu margt í tíðaranda góðærisins og tíðaranda stríðsins er líkt. Sérstaklega þöggun á allri gagnrýni sem tíðkaðist á báðum tímum. Í góðærinu var í rauninni það sama að gerast og nú. Það voru ekki nema fáir sem auðguðust. Þorri þjóðarinnar barðist í bökkum og verðlag hækkaði. Það hét bara ekki verðbólga heldur "þensla" og það var bannað að tala um að einhverjir hefðu það annað en ótrúlega gott. Til dæmis var bara lítið minnst á Vestfirði, svona yfirhöfuð.

Í dag er staðan á Íslandi þannig að almenningur á að borga, auk allra sinna skulda, fleiriþúsund milljarða af skuldum sem örfáir einstaklingar stofnuðu til. En í dag sér upplýsingasamfélagið til þess að við vitum hvaða einstaklingar eiga í hlut. Og að sjálfsögðu beinist mesta reiðin gegn þeim sem bárust mest á í góðærinu. Þeir sem bókstaflega stráðu peningunum í kringum sig. Það sem við vissum ekki þá, en vitum núna, er að þetta voru okkar peningar. Þetta voru peningar sem nú verða teknir af almannaþjónustu og okkur persónulega í gegnum skatta og vexti.

Og þeir eru ekki hættir.

Á meðan almenningur og þjóðfélagið horfir frammá allskonar gjaldþrot eru sömu einstaklingar enn í felum með milljarðana sína. Lifa kóngalífi. Hamast við að þvo skuldirnar hver af öðrum.

Hversu mennskir eru þeir menn sem hugsa um það eitt að halda í milljarðana sem þeim mun aldrei endast ævin til að eyða, hversu hátt sem þeir lifa, og vera í náðinni hjá fámennri klíku auðseggja, en láta sig einu gilda hvernig almenningur fósturjarðarinnar hefur það? Að skerða þurfi þá grunnþjónustu sem ekki græddi á góðærinu? Hvers konar þjóðníðingar eru það sem setja eigin pólitíska frama framar þjóðarhag í þessu ástandi? Og þykjast ekkert sjá að því að vera með puttana bæði í stjórnmálum og viðskiptalífi? Hvers konar maður er það sem lætur sér í léttu rúmi liggja að vera "persona non grata" í sínu heimalandi, svo lengi sem hann getur lifað eins hátt og hann vill af eigum sínum?

Er þetta mennskt?

Í ályktun frjálshyggjufélagsins átti að felast hræðsluáróður. Hann hljóðaði svona: Sauðsvartur almúginn haldi kjafti og borgi brúsann, annars er hann eins og nasistar í seinni heimsstyrjöldinni.

Ég held hins vegar að raunveruleg hætta sé á ferðum. Í þjóðfélaginu kraumar heilög og réttlát reiði sem á eftir að magnast ef núverandi ástand fær að stigmagnast í 13 ár. Þá verðum við líka tilbúin fyrir Hitler.

Ríkisvaldið verður að aðskilja sig frá viðskiptalífinu. Og ríkisvaldið verður að skipta sér af í viðskiptalífinu. Því lengur sem beðið er með það, því meiri verður fasisminn, og jafnvel mannréttindabrotin, þegar af því loksins verður að einhver taki sig til og "hreinsi til".

Líkingin við Þýskaland millistríðsáranna er ekkert alveg út í hött.
En það er ekki blanki meirihlutinn sem ætti að vera hræddur.

22.2.10

Besta lausn sem ég hef heyrt á Ísbjargarfjandanum

Ég sá þessa hugmynd í kommenti hér.

Einfaldasta leiðint til að Icesave-málið endi einhverntíma einhversstaðar, ríkisstjórnin feli Bjarna Ben og Sigmundi Davíð að ganga frá málinu.

Ríkisstjórnin og Alþingi geti þá snúið sér að öðru, og jafnvel fjölmiðlar líka.

Þetta er besta hugmynd sem ég hef heyrt á ævinni og vona að það berist Jógrími.