25.6.04

Jahjarna.
Ég má sofa út á morgun, bara alveg eins og ég vil, í fyrsta skipti í þessum mánuði. Líka fyrsta helgin í manna minnum sem ég get notið þess að vera ekki að skrifa ritgerð. Mmmmm. Get þá um leið fengið mér samviskubit yfir því að vera ekki að skrifa leikrit... Nema ég geri það bara, haldi áfram með rómantíkina. Svo ætti ég náttlega að fara að starta bjánismablogginu mínu, og svona. Svo ekki sé minnst á þátt minn í Sögumenn samtímans sem ku eiga að vera á öldum ljósvakans einhvern tíma í næsta mánuði sem nálgast eins og óð fluga.

Held ég huxi samt bara um sem minnst fyrr en EM verður afstaðið. Gaman í gær, mínir menn eins og hetjur. Varð ég þó að bera kæti mína í hljóði þar sem heitmaðurinn hélt með Englendingum og var arfafúll.

Og, því er skemmst frá að segja að lítið varð úr jónsmessunæturgöngu, veðrið ákvað að verða vont og sér ekki fyrir endann á því. Sumarið er greinilega ekkert sérstaklega tíminn, í ár.

Er búin að setja stefnuna á Austur, svona einhvern tíma þegar bæði litlu systkini mín verða þar líka, þá ætlum við öll saman að gera eitthvað í tilefni 3faldrar útskriftar. Erum allt í einu orðin alveg sprengmenntuð fjölskylda. (Og þar með náttlega alvarlegur baggi á þjóðfélaginu með milljarðaskuldir í námslán á bakinu, en það hljómar vel.) Enda fréttum við það í fyrrasumar að við værum frá "menningarheimili". Þótti okkur merkilegt að heyra það.

Mig minnir að einhvern tíma hafi sumarið þótt frekar rólegur tími í vinnunni minni. Það er greinilega misminni, því hér er eiginlega allt snarklikkað að gera.
Fussumsvei.
Best að fara að skrifa frétt um skólann sem ég var ekki á.

23.6.04

Var að átta mig á að upp er að renna Jónsmessunótt.
Hvernig væri nú að velta sér upp úr dögginni og hlaupa þrjá hringi rangsælis um húsið og reisa níðstangir uppá næsta fjalli?
Hugmyndir um nánari útfærslu?

22.6.04

Var að "lesa mig upp" á hinum og þessum bloggum og meðal annars að skoða hvað hefur farið fram í þáttunum sögumenn samtímans (http://www.blogg.is/sogumenn/) en mitt næsta mál er einmitt að búa til svoleiðis. Hef ekki enþá óljósustu hugmynd um hvað ég ætla að skrifa eða segja eða spila. Enda er þátturinn minn ekki fyrr en eftir rúman mánuð... ætti samt að fara að hugsa eitthvað um þetta.

Svo er í bígerð bloggsíða á ensku, að ósk nokkurra ammrískra kvenna sem ég var með á námskeiði. Hún á að fjalla að mestu um hugtakið "stupidism" sem er í vinnslu. Ég huxa að það útleggist kannski sem "bjánismi" á hinu ástkæra ilhýra og fjallar mikið um notkun á hundalógík.

Svo var gífurlega fögur mynd af okkur hjónunum á julli.is í ein á dag í gær. Einstaklega vel viðeigandi þar sem þetta er trúlega fyrsta og eina myndin sem er til af okkur saman. Ég á heldur enga mynd af honum. Ég hafði ekki einu sinni pælt í því fyrr en einhverjar af samnemendum mínum á námskeiðinu fóru að spurja mig að því, og í framhaldinu hvers vegna ekki. Mér datt bara eitt svar í hug. Ég man alveg hvernig hann lítur út.

Annars er ég búin að huxa mikið um rómantík undanfarið. Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ég væri frekar lítið í því, þrátt fyrir mýmörg sambönd af öllum tegundum. Kertaljós gera lítið fyrir mig, nema á jólunum. Orðskrúðugar ástarjátningar finnast mér yfirleitt virka sem djók. Ég er með tiltölulega lágan væmnisþröskuld og yfir rómantík í sjónvarpi eða bíó þarf ekki mikið til að ég fái klígju og missi áhugann. Svo fór ég að skrifa rómantíska tragedíu á námskeiðinu. Atriðið þar sem allt lék í lyndi olli mér miklum heilabrotum og sjaldan hef ég skrifað neitt jafn oft. Það endaði í 4 stuttum replikkum sem sögðu lítið en gáfu ýmislegt í skyn.

Ég held hins vegar að klisjurnar séu búnar að rugla mig. Mér þótti til dæmis ógurlega rómantískt þegar foreldrar mínir nenntu ekki að gera neitt með 35 ára brúðkaupsafmælið sitt, af því að þeim þótti ekkert tiltökumál að vera gift. Mér fannst svakalega rómantískt að Dóri skyldi dansa við mig á lokakvöldinu á skólanum, eftir að hafa lýst því yfir ítrekað að hann gerði það aldrei. Að sama skapi fannst mér gífurlega rómantískt að við skyldum taka upp á því að sofa í sitt hvoru herberginu, eftir 2 vikna aðskilnað, fyrir norðan. Það var bara eitthvað við það. Að kveðjast að kvöldi og fara svo í sitt hvort rúmið og hittast svo aftur í morgunmatnum. Svona soldið eins og í sumarbúðum.

Er búin að komast að því að ég er alveg hundrómantísk. Ég er hins vegar líka mínímalisti. Ég trúi gjarnan á "less is more". Mér finnst rómantík skemmtileg, en er lítið fyrir slepjukennda dramatík. (Ekki þar fyrir að eflaust hef ég tekið þátt í svoleiðis, oftar en ég vil muna, en fæ bara ekkert út úr því.) Er semsagt búin að enduruppgötva sjálfa mig sem mjög djúpstæðan rómantíker, en sá böggull fylgir skammrifi að ég þarf trúlega að endurskilgreina hugtakið. Geri það þegar ég get hnoðað niður í hnitmiðaða og míníaliska setningu í hverju munurinn felst.
Uppástungur?

21.6.04

Þá er öllum þvælingi lokið í bili, og það var nú gott.
Komin aftur og ferðafóbían algjörlega gengin í endurnýjun lífdaga. Líka búin að útskrifast, eftir því sem ég best veit, var annars ekkert á staðnum og held að nöfn okkar sem sýndu athöfninni það virðingarleysi hafi ekki verið lesin upp. Útskrifaðist sumsé í kyrrþey síðasta laugardag. Í framhaldinu er stefnan að snúa sér að uppbyggilegri skrifum, svona þegar einhveju lagi hefur verið komið á híbýlin. (Stefni á að þvo, taka til og skúra, strax í dag.)

Lokadagur í Svarfaðardal var hinn best lukkaðasti. Sá 10 hraðuppsetningar á stuttverkum. Mörg lofuðu góðu. Endurnýjaði kynni mín af mínum heittelskaða sem er allur orðinn hinn trúðslegasti. Og náttlega alltaf flottastur. Svo var náttlega mikið knúsast með um 60 manns, fram og til baka og út á hlið.

Og nú er alvara lífsins tekin við. Vinnan byrjuð aftur og sumarfríið í ár búið. Stutt gaman og skemmtilegt. Búin að tékka á stöðunni í EM. Byrjaði á að sjá í gærkvöldi síðust mínútur leiks Portúgala og Spánverja þar sem mínir menn sendu Spanjólana heimtilsín. Eiginlega ekki hægt að byrja betur! Skilst að það sé búið að fresta uppsetningu á Petru von Kant, sem er eins gott, mikið að gera að horfa á fóbolta næstu 2 vikur, eða svo.

Allt að gerast.