1.12.07

1. des

Gleymdi næstum að blogga í dag. Var svo upptekin af því að geta ekki ákveðið hvort ég ætti að hætta við að fara á jólahlaðborð með Rannsóknarskipi, þar sem Freigátan var enn frekar slöpp, ég frekar löt og soldið stressuð. Á að skila ritgerð á fimmtudaginn um eitthvað sem ég skil ekki...
Freigátan var nú samt orðin frekar hress, þannig að ég ákvað að drífa mig, en við fórum bara á okkar bíl. Sem var eins gott. Rannsóknarskip fékk Freigátuveikina og ólétta konan þurfti að fara með hann snemma heim. Núna er hann kominn í rúmið, alveg fárfárveikur, og barnapían flýtti sér heim til að smitast ekki.

En fátt er svo með öllu illt, ég kom þá nógu snemma heim til að blogga um það að Sigga amma mín er 85 ára í dag. Og hefur vonandi gaman af því. Ég veit ekki hvort var nú mikið um veisluhöld á spíttlanum á Egilsstöðum þessvegna. Hún er nú orðin óttalega léleg til heilsunnar.
Þegar ég var lítil hélt ég að það væri frí á 1. desember til þess að maður gæti borðað fyrsta súkkulaðið úr dagatalinu og fara með afmæliskort til ömmu. Þau voru jafnan heimatilbúin og stór hluti af deginum fór í hönnunarvinnu.

Foreldrin mín áttu líka brúðkaupsafmæli í gær, höfðu þá verið gift í 39 ár. (Þau ætluðu að gifta sig 1. des, en þurftu að flýta því af því að pabbi þurfti að leika. Þetta er fólk með forgangsröðina á hreinu!) Í tilefni daxins, eða ekki, fóru þau á jólahlaðborð í gær með vinnustað... annarshvors þeirra, og ég vona bara að þau hafi komið heilli frá því heldur en Rannsóknarskip gerði. Annars gaf ég mér ekki tíma að dag til að heyra í þeim og gá hversu þunn þau væru.

Rannsóknarskip fær allavega líklega að eyða morgundeginum, sem var annars eyrnamerktur þynnku, í eitthvað annað og verra. Skinnið.

30.11.07

Aðventað

Þegar við Freigáta vorum búnar með morgunverkin (hún búin að gubba hafragrautnum ofan í seríósið mitt og yfir okkur báðar og ég búin að þrífa okkur báðar og nágrenni og koma öllusaman í þvottavélina og okkur í hreint) og jafna okkur á þeim, ákváðum við að gera eitthvað jóló.
Móðurskipið þrumaði uppá stól, eins og hverönnur kanna, og náði í aðventuljósin og -kransinn upp í efriskáp. Svo skelltum við aðventuljósunum upp í glugga, kveiktum á þeim og ulluðum bara á dagatalið, þó það sé tæknilega séð 2 dögum of snemmt, og dunduðum okkur svo lengið við að kroppa gamla grenið utan af aðventukransinum.

Freigátan þreyttist nú reyndar fljótlega á þessu og þurfti að fá að liggja lengi í sófanum á eftir og horfa á Barbapapa. Hún er alveg fárlasin í dag.

Fjárfesti síðan í meira greni síðdegis og gerði þennan fína aðventukrans, sem ég nenni ekki að taka mynd af alveg strax.

Smábáturinn átti að fara norður um í dag, en vegna veðurs var þeirri för frestað til næstu helgar. Rannsóknarskip er á tónleikum og litla gubbustelpan er nokkurn veginn sofnuð, held ég, svo við Smábátur erum bara hér í rólegheitunum að borða mandarínur og horfa á aðventukransinn og Survivor.

Næslæf

29.11.07

Duddurudduuuu!

Búin að vera með vaxandi kvíðaröskun vegna ljóðaþýðinga sem ég á að skila á morgun og var ekki byrjuð á í morgun. Í ljós kom... að þýða 19. aldar ljóð úr frönsku? Ekki eins mikið mál og margir gætu haldið... Vinnur nú sennilega engin þýðingaverðlaun, og ekki nennti ég að eltast við rímið, en, samt sem áður, verður hreint ekki alslæmt, huxa ég. Þungu fargi af mér létt. Og það var farið að síga heldur meira í heldur en óléttan.

Semsagt, á meðan Rannsóknarskip og Smábátur sátu í kristilegum hugleiðingum á jólatónleikum Kvennakórs Reykjavíkur, sat ég og þýddi tvö ógeðslegustu ljóðin úr Ljóðum illskunnar eftir Baudelaire. Kunni fleiri orð um rotnun, maðka og allskonar slímkennt ógeð en mig minnti. En til að gefa óljósa hugmynd um geðsleika innihaldsins; ég þurfti samt talsvert að brúka samheitaorðabókina. Ætla ekki að birta þessar þýðingar hér, þær eru að fara beint í bók. (Sem er nottla frekar kúl... þó við séum bara að tala um kennslubók... sem fyrsta árs nemar í bókmenntafræði framtíðarinnar, og einu lesendurnir, eiga sennilega eftir að hata meira en pestina.)

Freigátan varð annars að fullgildum sjúklingi í dag. Var með bullandi hita allan daginn og gubbaði til dæmis út um allt í hádeginu. Svo að það þýðir víst ekki lengur að vera með neina bjartsýni um að þessi veiki sé eitthvað minniháttar. Hún var bara lengi af stað. En litli sjúklingurinn sefur núna eins og lítið grjót og er vonandi að hamast við að láta sér batna á meðan.

Móðurskip hefur gert samning við Rannsóknarskip um að hann velti heim uppúr hádeginu og passi greyið á meðan ég reyni að bumbusunda úr mér grindverkinn frá í gær. Er annars öll að skríða saman eftir hálkuhnykkinn. Er samt að huxa um að reyna að komast til sjúkraþjálfara einhverntíma, og huxanlega nudd, ef ég kemst þá ekki að því að meðgöngu-fjárlögin séu uppurin fyrir þetta árið. Sem gæti svosem skeð.

Annars er þetta ágætishugmynd. 
Skilaboð til fjölskyldunnar: Ein jólagjafahugmynd handa óléttasta fjölskyldumeðlimnum, gjafabréf í eitthvað svakalega gott meðgöngunudd. Til dæmis í Lótus jógasetri eða einhversstaðar þar sem menn eru með bumbubekk.

28.11.07

Dett

Mynd daxins er af 22 mánaða afmælisbarninu.

---

Síðustu tímar í næstum ðllu.

Hænsnahópurinn gaggar framan í kennarann sem öllum kellingum í bekknum, sem eru á aldri við mömmu mína, finnst sætur. Sem aldrei fyrr. Ekki eru nú mörg orð af viti að fara fram í þessum tíma. Verður að segjast.

Fífl er ekki mættur. Ég þarf ALDREI að sjá hann aftur!

---

Þegar maður heldur að allt sé að fara að ganga svo afbragðsvel... gerist eitthvað annað. Freigátan fékk bullandi hita síðustu nótt og fór lasnandi með köflum í dag. Ég gabbaði nú samt Rannsóknarskip til að vera heima eftir hádegi svo ég gæti komist í allt meðgangið. Tóxt að púsla saman bæði jóga og sundi fyrir síðasta tímann í ritstjórnarfræðunum, og var nú bara nokkuð lukkuleg með skrokkinn á mér.

Þangað til ég flö-höjg á hausinn fyrir utan Krónuna. Mér fannst ég reyndar gera það besta úr þessu. Þetta var svona dett sem var alveg ótrúlega lengi að gerast þannig að égg gat alveg miðað það fullt. Miðaði á að lenda á vinstri rasskinninni, sem var sennilega mýxti hlutinn til að lenda á, fyrir utan kannski þá hægri. Fannst þetta vera hin bezta lending. Meira svona "lypp" en dett.

En eitthvað hef ég nú samt hnykkt mér. Óþægileg áminning um hvernig rassinum á mér leið í síðustu umferð.
Gengur vonandi til baka.

27.11.07

Beztu börn í heimi

Smábátur hefur öðlast skilning (aðallega vegna þess að ég nöldraði því í hann með mest pirrandi uppeldisröddinni) að líf bandóléttrar húsmóður í námi er hreint enginn pikknikkur. Áðan, þegar hann var búinn að læra heima, algjörlega óumbeðinn, kom hann með pleimódótið sitt, (sem venjulega er haldið heilagt) og lék sér að því með litlu systur sinni í góðan klukkutíma. Á meðan gat ég bara sitið og prjónað, með lappirnar uppá.
Til minnis: 11 ára börnum getur verið ýmislegt til lista lagt. Og þeim (allavega mínu) finnst óstjórnlega skemmtilegt að hjálpa til. Sérstaklega ef hann finnur uppá því sjálfur. Smábátur er fyrirmyndarbarn vikunnar, gott ef ekki bara mánaðarins fyrir þetta framtak.

Sérstaklega þar sem við Freigátan erum búnar að vera heima í dag, hún var frekar slöpp en ekkert mjög lasin. Og Rannsóknarskip var í skólanum sínum í allan dag og verður langt fram á kvöld vegna bekkjarkvölds í bekknum hans.

Móðurskipið er því frekar uppgefið enda þreytir það fátt meira en fúll tæm húsmæðrun.

En nú eru ormarnir komnir ú rí og best að horfa á eitthvað af Rendell-safninu sem Rannsóknarskip kom með færandi hendi úr síustu Nexus-ferð.
Sem sýnir nokkuð góða fyrirhyggju af hans hálfu þar sem hann verður mikið úti á galeiðunni á næstunni og sú feita nennir sjaldnast með.
En á morgun er M-dagur. Ætla að reyna að ná bæði M-Jóga og M-sundi í gatinu sem myndast hefur á miðvikudögum, áður en ég brenni í síðasta tímann af Ritstjírn og hræðilegum skrifum. Allt að klárast.

Og þessa færslu myndskreyti ég með myndum af englabörnunum og hjónakornunum.

26.11.07

Fyrsti M-dagurinn

var nú aldeilis ljómandi. Fór fyrst í meðgöngujóga og svo meðgöngusund. Skemmtilegt að vera alltaf að einhverju sem byrjar á "meðgöngu-" og hitta fleiri tonn af óléttum kellingum á einum degi. Reyndar held ég að geti verið að ég sofni yfir CSI NY, en það verður að hafa það.

Freigátan sló met á síðustu vikum, meikaði tvær vikur í röð án veikindadax í leikskólanum. En í dag var sigurgangan á enda. Hún var grunsamlega róleg þegar hún kom heim og var komin með bullandi hita um kvöldmat. Rannsóknarskip fór með hana á læknavaktina til að gá hvort þetta væri nokkuð eyrnabólga eða streptókokkar að gera endurkomu, en, nei, einhver splunkuný flensa varða heillin. Þó það hefði kannski verið þægilegt að geta látið Herra Pensillín um að redda öllusaman í bili, þá er ég nú frekar fegin að þetta er ekki upphafið af neinu krónísku eyrnabólguvandamáli. Hún sefur núna á sitt grænasta og Móðurskipið er dauðfegið að hafa afsökun til að skrópa í þýðingafræði á morgun. Hinn daginn ætlar Rannsóknarskip að vera feginn að skrópa á kennarafund.

Svo allir eru bara frekar fegnir.

Líka amma-Freigáta sem nær okkur þá örugglega heima þegar hún kemur í örstutta heimsókn á milli fundar og flux á morgun.

Útlendinganauðganir

Ég er búin að vera að læra. Og ætti alveg vissulega að halda því áfram fram að jógi. En það eru tveir óvenjudjúsí pistlar í hausnum á mér. Svo ég er að huxa um að reyna að koma út úr mér þeim sem ég hef grun um að verði styttri.

Hann skrifa ég í dag, í tilefni þess að nú heyrðist mér í útvarpinu að það væri að hefjast eitthvað 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Reyndar ku átak ársins í ár vera tileinkað mansali, en mig langar að fjalla um allt annað sem ég er alltaf að heyra umræðu um. Það eru "útlendinganauðganir."

Nú hafa þeir útlendingar sem tekið hafa upp á þeim ósóma undanfarið gefið útlendingafordómunum byr undir báða vængi. Og jafnvel er talað um að setja alla karlkyns innflytjendur á námskeið þar sem þeim er kennt að konur séu ekki búfé. Ég held nú samt að þessir menn séu, eins og í öðrum samfélögum, undantekningar frá reglunni. Eins og mennirnir sem lemja konurnar sínar. Gallinn er bara sá við ofbeldismenn og nauðgara að hver þeirra er líklegur til að ofbelda heilan haug af konum. Og reyndar öðru fólki líka. Helst minnimáttar, samt. Sem stækkar vandamálið út yfir þann fjölda manna sem eiga heiðurinn af að valda því.

Og ég kallaði þetta Útlendinganauðganir. Mér finnst málið nefnilega eiga aðra og náskylda hlið hér á landi. Það eru mennirnir sem eiga útlendu konurnar og fara illa með þær. Vandamál sem er vel þekkt. Og hefur haft alvarlegustu afleiðingar. En mig grunar að við vitum ekki um nema ponkulítð brot af.

Mér finnst lykilspurningin vera þessi; hvað er það sem segir ofbeldismönnum að þeir þurfi jafnvel minni virðingu að bera fyrir konum að erlendum uppruna heldur en löndum sínum? Mér finnst það vera nokkuð sem mætti halda námskeið í, while we are at it, Konur af öðru þjóðerni en þú ert sjálfur eru ekki búfé, og þörf á að boða íslenska ofbeldismenn á slík, ekki síður en þá útlensku.

Annars þarf bara að fara að taka á vandamálinu "Þeir sem níðast á minnimáttar" í heild sinni. Það tekur yfir ansi mörg vandamál. Og ekki bara karlkyns ofbeldismenn.

Það er nefnilega annarskonar kynbundið ofbeldi sem mig grunar að sé algengara en nokkurn grunar. Og það er andlegt ofbeldi sem konur gerast ekkert síður sekar um, á hendur maka sinna. Það er lúmskara og getur gert engu minni skaða. Og er mjög alvarlegt mál þar sem ég held að fæstir sem beita slíku geri sér einu sinni grein fyrir því.

Kannski þarf bara eitt námskeið, eða jafnvel eina setningu, sem allir ættu að kappkosta að fara eftir:

Maður á að vera góður við manninn/konuna sína.

Já, og bara fólk almennt.

Og svo er bannað að vera með vesen.

Þetta var styttri langhundurinn sem er að brjótast um í hausnum á mér.
Hinn er mikkklu lengri og flóknari og um allt annað.
Svo bíðiði bara!

25.11.07

Ooooo

Það kom að því að óléttan lét mig finna fyrir sér. Var í fyrirlestrum frá helvíti allan gærdaginn. Ekki nóg með það, það var ekki hægt að fá kaffi á f...ing háskólasvæðinu. Í dag er ég öll bjúguð og eilífðarþreytt. Sem gengur hreint ekki. Þarf mikið að gera á næstu dögum og vikum. Og morgundagurinn fer til fjárans. Eða Keflavíkur... löng saga.

En planið er að reyna að ná bæði meðgöngujóga og -sund á morgun og gá hvort ég get ekki hresst mig eitthvað. Og raða í mig járni, off kors.

Annars er Kóraninn bara þrælskemmtilegur. Hreint ekki sama torfið og Biflían. Eiginlega bara eins og lögfræði miðausturlanda fyrir 1500 árum. Kannski samt ákveðið áhyggjuefni ef menn vilja að hún eigi við í dag... réttarstöðuleysi kvenna og allt það... samt svolítið fallegt að menn skuli eiga að vera góðir við öjmingja og fávita, klappa þeim og tala hlýlega til þeirra.

En einhvers staðar þarf ég að stela mér tímanum sem ég þarf til að klára að fara yfir textana úr honum og andagiptina til að þýða Baudelaire-ljóðin. Svo ég geti nú farið að byrja á hinni þrælmerkilegu ritgerð um Menningarspeglun... eða eitthvað svoleiðis. Sem á að skilast 6. des. Þarf að klárast fyrr, þar sem þýðingafræðigerðin þarf að skilast 10. des og tekur meira en 3 daga.

Mér finnst ég vera að endurlifa oft áðurlifaða martröð. Með einu fráviki þó. Þrátt fyrir óléttuþreytu og bjúg, tímaskort og geðveiki, þá hef ég mikinn áhuga á öllum verkefnunum sem eftir eru, og hreinlega hlakka til að komast íðau.

Það er bara daglega amstrið sem þvælist fyrir þessa dagana.

En talandi um það, Rannsóknarskip og Smábátur tóku geðveikt vel til í gær og fóru svo út af örkinni í dag og redduðu alveg geðveikum helling af jólagjöfum. Svo þetta er bara spurning um að koma öllum í skólana sína, flesta virku dagana, og taka svo til málanna óspilltra.
Verst hvað maður er allt í einu orðinn þungur og sybbinn.