14.10.10

Erfitt

Mikil lifandis skelfingar ósköp er erfitt að yrkja. Óbermið hann Þorvaldur Þorst setti okkur þetta fyrir sem heimaverkefni á leikritunarnámskeiði. Ég sat við textagerð við jólalag í allan gær. Sjaldan hafa jafnmörg ljót orð fallið yfir jafnmörgum fallegum.

Annars er ég í átaki. Í október er allt sem ég geri ÆÐISLEGT. Ekki verður krumpast á sálinni yfir nokkrum einasta hlut né minni persónu vantreyst til nokkurs. Öngvu kviðið né hrökklast undan í einu eða neinu.

Setti upp leiksýninguna Ljóð fyrir níu kjóla í gær á meðan annað fólk æfði leikritið mitt, og það var ÆÐI! Barnabókin verður í pössun hjá áhugasömum myndskreytara fram yfir helgi. Og þó það sé hunderfitt að yrkja er þessi jólatexti nú samt þegar farinn að standa framar ýmsu... já, bara mörgu... sem komið hefur á tónlistarmarkað jólanna undanfarna áratugi.

Kannski vill einhver syngja hann... Kannski vil ég bara syngja hann sjálf!

Best að reyna samt að klára að yrkja hann fyrst. Ef allir á námskeiðinu eru jafngóðir með sig í október, þá gefum við bara út plötu!

13.10.10

Það gerðist bara heilmikið af áætlanagerð gærdagsins. Soffía mús ritaðist, á óformlega pantað viðtal á forlagi í næstu viku og fer í skoðun hjá mögulegum myndskreytara í dag.

Og ég keypti mér haug af fötum en ákvað að hárið á mér væri ÆÐI.

Mál málanna í dag er að halda áfram með örstutta útdrætti úr óskrifuðum fyrirlestrum til að flytja á allskonar í útlöndum næsta sumar og síðan byrja á einhverju til að flytja á doktorsnemadegi Hugvísindasviðs í lok þessa mánaðar.
Leiðbeinandinn er með "sjálfa" ritgerðina í yfirhalningu fram á föstudag.

Svo er leiðinlegt að vera svona úldinn, syfjaður og skapvondur í svona fögru haustveðri, og miðri hringiðunni af endalaust spennandi verkefnum.

Sökkar verulega.

En það fer að koma nóvember!

12.10.10

Nokkur ráð við október/apríl

Þetta gengur ekki. Þess vegna er ég komin með plan.

a) Henda peningum í vandamálið.
b) Búa til skemmtilegt verkefni sem gæti jafnvel fjármagnað að henda peningum í vandamálið.

Aðgerð a) felst fyrst og fremst í tvennu.
a1) Háraðgerðir. Klipping og litun. Eitthvað fagurt á rándýrri stofu.
a2) Föt. Ný. Ekki síst vegna þess að ég á varla óslitnar/ómálaðar buxur og meðalaldur fatanna minna eru um 10 ár. Það er sem sagt alveg hægt að færa sterk rök fyrir því hjá fjárlaganefnd að það ÞURFI að fara í þessar aðgerðir.

Aðgerð b) er einnig tvíþætt.
b1) Panta fund með Borgarleikhúsmönnum sem eru með eitt handrit frá mér.
b2) Skrifa barnabók um Soffíu mús.

Því að sjálfsögðu kemur ekki til greina að fá sér "eðlilega vinnu eins og almennilegt fólk. Enda stendur í fréttunum að það sé ekki til svoleiðis í landinu, allir atvinnulausir og grenjandi.

Best að byrja...

11.10.10

Verkefnavika!

Þá er komið að vikunni sem engin kennsla er. Þá er önnin hálfnuð. Munar ekki miklu fyrir mig og ég er viss um að ég ruglast og mæti í þessa tvo tíma mína í vikunni. Þessa viku ætla ég að nota í að fabjúlera eitthvað um hvað ég myndi mögulega ætla aða segja á tveimur ráðstefnum á næsta ári. Samt í undir 200 orðum fyrir hvora. Ef ske kynni að framlag mitt yrði boðið velkomið á aðrahvora eður báðar þá er að finna fjármögnun í ferðir til Osaka í ágúst og London í september.
Gaman í kreppunni...

Svo er október. Fór út og hljóp mér til beinhimnubólgu á föstudaginn, hjólaði stóra hringinn í gær. Búin að sofa ógrynni. Samt síþreytt og sybbin. Lagast vonandi þegar nóvember kemur.

Svo mætti ég á leikritunarnámskeið hjá Þorvaldi Þorsteinssyni á laugardaginn. Hann skammaði mig fyrir útskýringar og hógværð. Daginn áður sat ég undir smá fyrirlestri frá mönnum sem vildu að ég hringdi í Borgarleikhúsið og færi að pitcha leikritinu sem er þar, almennilega.

Ég er meira að hugsa um að endurskrifa það og setja það svo í skúffuna. Hógværðin uppmáluð. Það er verið að setja upp leikrit eftir mig núna og það er bara nóg að gera í því og öðru og svona.
Ég veit alveg að það eru alveg peningar í því að stóru leikhúsin setji upp leikritin manns. En það er líka bara alveg tussumikil vinna. Hvað er leikstjórinn er kannski fáviti sem ekki er hægt að vinna með? Og leikurunum finnst þetta leikrit leiðinlegt og leika bara í því af því að þeir neyðast til þess? Ég hef aldrei sett upp leikrit með neinum nema fólki sem er með íðí af fúsum og frjálsum vilja. Ég er ekki alveg viss um að ég treysti þessu überboss/listrænn stjórnandi -> launaþrælarnir-sem-gera-eins-og-þeim-er-sagt formi í leikhúsi.

Fólk hefur tilhneigingu til að gera það sem það vill. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi tilhneigingu til láta setja upp leikritin mín í báknleikhúsunum. Getur vel verið út af ranghugmyndum, fordómum og almennri fælni gottogvel...

*andvarp*

Best að skrifa Hafliða tölvupóst og tilkynna endurskrif.