10.9.05

Af Austlandinu

Þá er ég búin að nota og margnota öll dóna- og sóðaorð sem ég kann. Maður þekkir ekki orðaforðann sinn fyrr en maður er búinn að þýða nokkra Jackass-þætti.

Svo er komið gat á Fáskrúðsfjörð. Með þeim ófyrirséðu afleiðingum að nú geta innviðir þess samfélax lekið út um allt. Í hefndarskyni fórum við þangað í dag og átum frá þeim kaffi og kökur. Komum við á Reyðarfirði og tilbáðum heilagan Alcoa. Hann var bara kátur.

Og nú fer þessari útlegð minni að ljúka. Fer í menninguna á morgun. Og verð að segja það að þó Gröndallinn sé nokk skemmtilegur rekkjunautur þá vil ég nú heldur hafa Rannsóknarskipið mitt. En aftur sný ég með góðar birgðir af fatnaði og ýmsu á afkomandann nýfæddan, þannig að ekki þarf að velta fleiri vöngum yfir undirbúningi í bili. Einhverjum þykir þetta kannski fádæma snemmbúin fyrirhyggja. Held samt að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið. Leikárið er að byrja og svo koma jól. Og janúar verður líklegast kominn áður en maður getur sagt simsalabimm. Og þá er nú betra að standa ekki allt í einu uppi með berstrípaðan krakkann.

Og, hef eftir ágætlega áreiðanlegum heimildum að Bára syss ætli að hefja bloggun á morgun. Ég bíð allavega gífurlega spennt.

9.9.05

Í fréttum

er ýmislegt fróðlegt þessa dagana. Til dæmist verður maður víst geðveikur á því að vera í háskóla. Það var nú aldeilis seint í rassinn gripið að segja manni það fyrst núna.

Og svo er hann Davíð að hætta. Einhvers staðar er búið að tönnlast á því að "engum er sama um Davíð", þ.e.a.s. hvort hann er eða fer, en ég verð nú að viðurkenna að síðan fjölmiðlafrumvarpið var fjarlægt úr honum með skurðaðgerð þá hefur nú lítið farið fyrir honum, og mér var alveg orðið sama.

En umfjöllunin er undarleg. Kannski eðlilegt að stiklað sé á stóru í stjórnmálaferlinum, enda er hann álíka langur og allt mitt líf, en maðurinn er nú ekki nema undir sextugu og gæti alveg átt kommbakk þannig að það er nú kannski óþarfi að liggja svo mikið yfir því. En að fara yfir listamannsferilinn. Minna mann meiraðsegja á óhroðann "Opinberun Hannesar"! Það mætti halda að maðurinn væri ekki að fara í Seðlabankann heldur, eins og Eiríkur heitinn Stefánsson og Helgi Hóseasson kalla það, til Sameinuðu þjóðanna.

Mikið er annars greinilega gaman að koma mönnum af stað í pælingar um mannanöfn. Greinilega uppi margar kenningar. Ég myndaði mér tvær skoðanir á skógargöngu í gær. Annars vegar huxa ég að ég nenni ekki að brúka eins atkvæðis auknefni. (Huxanlega eins atkvæðisnafn sem ég léti þá duga... En kannski erfitt að skamma svoleiðis börn. Er það ekki Huld?) Og ég er soldið fyrir, ef nöfnin eru 2 og mislöng, að hafa lengra nafnið á eftir. En þetta er nú allt á stigi vangaveltna.

7.9.05

Hún er enn góð...

Alveg eins og þegar ég byrjaði á henni fyrr í sumar, og öll hin skiptin sem ég hef lesið hana. Hvernig finnst mönnum annars hljóma:

Ef stúlka:
Heljarslóð Orrusta Árnadóttir

Ef drengur:
Benedikt Gröndal Árnason

Ha?

Eins gott að maður verði að lesa eitthvað gáfulegra í kringum fæðingu.

Og, talandi um nöfn, kann Heiðu og Svandísi bestu þakkir fyrir að finna upp ónefnið Heiðlaugur Svan. Er búin að nota það í leikrit.

6.9.05

Í morgun

mætti systir mín hin kjaftforri snemma til vinnu, eins og lesa má á bloggi hennar. Í beinu framhaldi vakti hún mig lönnngu fyrir hádegi, í sumarfríinu. Hefði ég gert mér ljóst hvaða ófriður myndi fylgja þessu starfi, huxa ég að ég hefði nú borið mútur á Mikael Torfason á sínum tíma og bannað honum að ráða hana. Henni leiddist kannski á sálfræðistofnunum, en MÉR leiddist ekkert að hafa hana þar.

Allavega, er orðin margs vísari í sumarfríinu. Lærði til dæmis í dag að ef maður þvær sum ogguföt eftir ráðum móður sinnar (jájá, allt í lagi að setja þetta bara á 30...) þá breytast þau í oggupogguföt, verða pínulítil og hörð og myndu passa á Kafbát ef hann fæddist umþaðbil núna. Bót í máli að ég hefði aldrei nennt að troða unganum í föt sem þyrfti að handþvo.

Jæjah, manni er víst ekki til Z-nnar boðið. Bezt að halda áfram með þetta annríka sumarfrí. Einntveirogfimm!

5.9.05

Bloggrán?

Stundum er það nú bara þannig að í kommentum koma svona líka ljómandi góðir pistlar. Ég var að rekast á tvo sem komu fyrir nokkru síðan en ég var ekki að hafa fyrir að lesa, einhverra hluta vegna, fyrr en eftir dúk og disk, þ.e.a.s. núna. Mitt umræðuefni í pistli var í hvaða röð maður segði Nanna og Jón Geir, annars vegar, og röðun bóka hins vegar. Mér finnst mér ekki stætt á öðru en að birta svör Varríusar og Óbermisins Sævars hér í heild sinni. Þetta geri ég algjörlega án þess að spyrja höfunda og er örugglega með því að brjóta slatta af höfundarlögum.

En, bókstaflega, nauðsyn brýtur lög:

Varríus sagði:

Já röðin. Allt er þetta nú spurning um kríteríur:

Stafrófsröð?
Öfug stafrófsröð?
Stærðarröð?
Öfug stærðarröð?
Hverjum-þú-kynntist-fyrst-röð?
Öfug H-Þ-K-F-röð?
Hljómar-betur-röð?
Öfug H-B-Röð?

Eða bara sú almenna og ófrávíkjanlega regla að trommarar séu taldir upp síðastir.

eða öfugt.

Athugaðu líka að sumar þessar kríteríur nýtast líka ágætlega þegar bókum er raðað. Aðrar síður.

og öfugt.


Sævar sagði:
Smæðarröðin! Nanna og Jón Geir er mun eðlilegra. Miklu betra að enda á eins atkvæðisorði en tveggja. Meiri hvíld fyrir talfærin. (Talarðu ekki annars allt jafnóðum sem þú slærð inn, eins og ég?) Ég prófaði líka Nanna Geir og Jón, Nanna Jón og Geir, Geir Jón og Nanna, Jón Nanna og Geir, en ekkert af því virkaði. Grunar helst að það sé jafnvel ólöglegt.

Hljómar-betur-röðin virkar ekki á bækurnar. Nema maður taki eina og eina og láti detta flata í gólfið úr brjósthæð (teppalagt gólf er ómark) og raði síðan frá vinstri til hægri þeim sem gera mesta skellinn. Maður raðar nb bókum ALLTAF frá vinstri til hægri.

Lengi vel raðaði ég bókum reyndar eftir litum á kili og/eða frá hæstu til lægstu. Stundum varð til aflíðandi brekka efst, afspyrnuljót. Og Saga Kaupfélags Norður Þingeyinga og Engin miskunn eftir Dick Francis urðu að gjöra svo vel að standa hlið við hlið af því þær voru báðar grænar. Konan mín hló að þessu. Henni fannst aftur á móti óþægilegt ef ég raðaði ekki diskunum eftir stærð í uppþvottagrindina, eða þvottinum á snúruna frá stærsta stykki til hins smæsta. Ég hló bara að henni.
Og svona höfum við hlegið að furðulegum einhverfutendensum hvors annars þar til þeir afmáðust með öllu hjá okkur báðum. Og núna! Bækurnar allar í rugli, uppvaskið í vélinni, þvotturinn í kuðli í þurrkaranum... en ég hef reyndar tekið eftir að börnin eru í stærðarröð eftir aldri. Gæti hafa verið undirmeðvitundin sem raðaði þeim niður.

Svo biðst ég afsökunar. Borðaði langloku í hádeginu.


Mér er fyrirmunað að ímynda mér hvers vegna Sævar er ekki með blogg. Langlokur ætti hann allavega að hafa til matar sem oftast.

Mál málanna

En ekki dugar að týna sér endanlega í Móðursýki. Eitt er búið að vera að brjótast um í mér. (Það er að segja, annað en afkomandinn á mæjónesflippinu.)

Nú kom flóðbylgja um jólin. Skolaði burtu heilu strandbyggðunum í heimshluta sem okkur þykir við nú jafnan hafa efni á að líta dáldið niður á sökum vanþróunar og fátæktar og mannlegra vandamála hvusslax. Og hvernig gekk það til? Að hamförum afloknum, og reyndar á meðan á þeim stóð, fóru flestir nú bara að hjálpast að við að reisa við það sem eftir var, bjarga því sem bjarga varð og einhverjir huxuðu sér upplendis með fjölskyldur sínar. Það sem heyrðist af misindismönnum var að einhverjir óprúttnir voru staðnir að því að ræna börnum og selja. Var slíkt þó litið hornauga og þorri eftirlifenda lagðist á eitt um að hafa augun hjá sér og koma í veg fyrir slíkt.

Og nú renna öll vötn til New Orleans.

Allt fer á flot og talað er um að hamfarir séu jafnvel meiri. Og hvað gerist fyrst alls? Flokkar ribbalda og óþjóðalýðs brjótast upp á yfirborðið, ösla innan um hræ og brotsjó og ræna, nauðga og drepa. Gera það að verkum að þeir sem eru að reyna að stunda hjálparstarf hafa ekki frið til þess. Maður spyr sig, hvað er eiginlega að þessari þjóð? Og þetta þykist þess umkomið að siða til alla aðra í heiminum?

Maður getur sett sig í spor. Segjum sem svo að fína stíflan inni á Kárahnjúkum bresti og skoli burtu helming héraðsins. Ætli nokkur einast kjaftur væri svo illa innrættur að huxa: "Hei, sniðugt. Best að fara út og ræna einhvern." Eða: "Nú get ég loxins kálað þessari sem ég þoli ekki, þarna uppi á Laufás. Tekur örugglega enginn eftir því."

Ég huxa að hvergi annars staðar en á sumum vesturlanda er eiginhaxmunahyggjan orðin svo algjör að til séu marrrgir sem hika ekki við að notfæra sér náttúruhamfarir á þennan hátt. Og þá verður maður að spyrja:

Hvað er þá orðið okkar starf í sexhundruð sumur? Höfum við,kæru vinir, gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Eða erum við búin að brjóta og týna....
og svo framvegis.
[Fáfnismenn, 1. þáttur, held ég að ég muni rétt.]

Held við ættum allavega að huxa okkur vel og vandlega um áður en við ákveðum að heimsbyggðinni allri sé best borgið með okkar siðferðisviðmiðum.

Já...

það er vandlifað. Ég er búin að komast að því að það er ekki hlaupið að því að ætla að vera óléttur og fyndinn, bæði í einu. Allt í einu eru menn eitthvað óvenjureiðubúnir að taka mínar orðglöðu yfirlýsingar alvarlega (!) sem aldrei fyrr.

(Sumir reyna síðan náttúrulega eftir á að hlaupa í skjól við kaldhæðnina, eins og óbermið hann Sævar, sem ég er farin að gruna um að hafa frú sína hlekkjaða bak við eldavélina til þess að börnin missi nú örugglega ekki takið á pilsfaldinum. Pffff.)

Það er nú samt einu sinni þannig að að innræti hef ég ekki tekið neinum sérstökum stakkaskiptum, held ég. Flest sem ég tjái mig um geri ég til að reyna að vera fyndin. (Eða pólitísk, kemur fyrir.) En mínir innstu og raunverulegustu vonir, óttar, þrár og fyrirætlanir varðandi hlutverk mæðrunar eru nú eingöngu fyrir eyru og augu eins manns. Og huxanlega einnar og einnar vinkonu undir fjögur. Svo sem eins og allt mitt væm fram til þess. Enda held ég að vandi sé um slíkt að spá, þegar maður veitt ekkert útí hvað mar er að fara og sitt sýnist hverjum í heiminum um verkefnið. Þess vegna held ég að planleggingar um líferni eftir fjölgun mannkyns séu best takmarkaðar við það sem sjóndeildarhringurinn þekkti fyrir.

Og, já, það mun koma fyrir að ég bregði mér af bæ. Þó ekki væri til annars en að forpipruð systir mín hin kjaftforri fái að uppfylla örlög sín og verða eins og Patty og Selma í Simpsons, annað slagið. Mér skilst hún sé strax farin að æfa sig að reykja og safna hári á löppunum.

Eitt er þó að frétta af barninu. (Í sjálfri mér ;-) Ég hef heyrt því fleygt að það sé misjafnt hvenær konum þyki ófædd börn þeirra verða "raunveruleg". Og sá tími getur komið allt frá því að þær pissa á prikið og þangað til barnið er um fermingu. Mér varð ekkert sérstaklega um hreyfingar eða sónarmynd. En ég er ekki frá því að barnunginn hafi "líkamnast" aðeins fyrir mér síðustu nótt. Mig nefnilega dreymdi að ég héldi á því. Ég vaknaði svolítið með þá tilfinningu að það hefði gerst í alvöru.

(Síðan hélt draumurinn auðvitað áfram á þá leið að ég týndi barninu, eins og gerist gjarnan ef ég á börn í draumum mínum, fattaði að ég var ennþá ólétt og í framhaldi af því að ég hafði týnt barni einhvers annars og vissi ekki hvers... Hvað um það.)

Er á Egilsstöðum í foreldrahúsum. En Rannsóknarskipið hélt til byggða núna rétt áðan. Hér er brostið á með sumarleyfisblíðu (norðaustan hryllingi) þannig að ekki ætlar að viðra vel til þvotta á oggufatnaði sem ég er búin að vera að grafa hér upp. (Við höndlun á honum held ég reyndar að ég hafi fengið mína fyrstu: "Jiiiihvaððettersætt!"-tilfinningu.)

En það er nú vissara að hrista svoleiðis af sér þar sem verkefnið sem liggur aðallega fyrir hér er að skrifa einkar kaldhæðna og andstyggilega kafla í jólaleikrit.

4.9.05

Svo menn fái nú ekki endanlega hlönd fyrir hjörtun...

þá er víst líklega rétt að taka það fram að fyrirheit síðustu færslu tóku til EINS KVÖLDS sem haldið skal einhvern tíma næsta sumars að mjólkurbúslokun aflokinni. Þeir sem eitthvað þekkja til míns lífsmunsturs vita að ég hef ekkert verið að liggja íðí árum saman og sé ekki fram á að gera það neitt frekar í framtíðinni. Og mín drykkja á herðablöðin samanstendur af um 3 bjórum og þar enda þolmörkin og það gerist yfirleitt skömmu eftir miðnætti.

Mér þykir nú helvíti skítt að vera að fá á mig ávirðingar fólks fyrir að ætla að voga mér að eiga félagslíf og fá mér í tána eitt kvöld eftir ár. Og mér er mjög til efs að barnunginn taki uppá að taka tennur, læra að tala og ganga allt sama kvöldið, akkúrat á meðan.

Komm on fólks, hemja taugadrulluna.