21.4.04

Og svo fékk ég loxins langþráðan póst með nákvæmum upplýsingum um hvenær workshoppið í Írlandi byrjar og endar. Víííí!
Og þá get ég farið að bóka mér flugför. Víííí!
Og þá hef ég eitthvað að gera við þennan gangslausa aukapéning! Víííí!
Og ég kem aftur til landsins að kvöldi 18. júní og get verið á lokadegi í Svarfaðardal þann 19. Víííí!

Víííí!
Þessi síðasti dagur vetrar er að verða hinn happadrýgsti.

Komst að því að nú, þegar 9 dagar eru eftir af mánuðinum, á ég 40.000 krónur til ráðstöfunar, hvernig í veröldinni sem ég fór að því. Ákvað að fara í ÞVÍLÍKA eyðsluklóarferð. Fór niður í Erlu og keypti mér nál. Síðan niður í Tiger (þar sem allt kostar annað hvort 200 eða 400 krónur) og keypti dós til að setja hana í. Líður eins og ég hafi verslað mér allan heiminn. Hmm. Lítið gleður vesælan, og í þessari sögu felst sennilega svarið við því hvers vegna ég á alltaf eftir péning. Leiðist að versla og það sem mig langar í eru yfirleitt frekar ómerkilegir, en nytsamlegir, hlutir.

Annars er Tiger sniðug búð. Minnir mig á búð í Montpellier þar sem allt sem mann vantaði fékkst. Þar kostaði allt 10 franka, þess vegna hét hún Tíufrankabúðin. Þangað til Evran var tekin upp. Þá kostaði allt 3,60 evrur. Málið vandaðist, og eftir það hét hún bara "Búðin".

Semsagt, mikill happadagur og ég er hérmeð hætt að týna nálunum mínum.
Nú skal Aristóteles tekinn í bakaríið. (Ekki með nálum, samt, þó hann eigi það alveg skilið.)
Og ég fæ að fara á skrifstofumót til Færeyja í október!

Það er stundum alveg skammarlega gaman í vinnunni.

Færeyjar rúla!
Og sumarið er komið... degi of snemma.

Í gær var frumflutt í fyrsta skipti í veröldinni tónverk eftir systur mína. Verkið "Hver tók ostinn minn?" kom fantavel út í flutningi Lúðrasveitar Reykjavíkur og svar flutt með miklum trukki og dýfu. Senunni stal þó eiginlega snillingurinn sem átti örstutt bassaklarinettsóló, hann átti nefnilega 11 ára afmæli og er á stærð við hljóðfæri sitt. Bára átti líka einleik á gullklósettið sitt, og var þar með búin að stela senunni næstum helminginn af prógramminu. Stóð sig eins og hetja og er á góðri leið með að verða frægari en ég. Svo er Dimitri Askinazi náttlega ágætis klarínettleikari, en það er þó ekkert miðað við hvað hann er sætur! Sannkallað augna- og eyrnakonfekt það.

Svo er planið að fara út að borða með fjölskyldunni og fara á Chicago með næstum öllum úr henni annað kvöld. Allt of sjaldan sem maður hittir það fólk þegar það eru ekki jól. Svo er afmælishátíð Hugleiks í Kaffileikhúsinu á Laugardaxkvöld. Þangað fer ég í samfylgd unnustans, sem er að verða soldið útundan í öllu fjölskyldufárinu.

Það er líka rífandi gangur í ritgerðinni þessa dagana, órtúlegt en satt, og ef svo fer sem horfir klára ég það dæmi í maí. Verst hvað ég á erfitt með að halda mig við efnið, er alltaf búin að skrifa helling um stefnur eða kafla í leikritunarsögunni sem mér þykja skemmtilegir, án þess að það komi málinu nokkuð við. En "Við listamenn getum illa haldið okkur við hið jarðbundna" *sveiflar hárínu, listrænt*. En svona í allra fúlustu alvöru þá held ég að það geti bara vel verið að ég útskrifist í sumar. Gæti reyndar sem best trúað að sú athöfn yrði haldin þann 19. júní, en þá hef ég huxað mér að vera norður í Svarfaðardal, ef ég verð komin til landsins.

Auðvitað ætti maður síðan að segja nokkur orð um Björn Bjarnason, af því að það eru allir að því. Mér finnst bara að Karl Ágúst hafi átt fínt komment í því máli í fréttablaðinu þegar hann sagði að Björn Bjarnason væri barn síns tíma.

19.4.04

Er að verða algjör atvinnubetlari. Sótti um styrki í menningarsjóði í dag upp á krónur 100.000,- án þess að blása úr nös eða blikna eða blána, eða skammast mín fyrir að vera að ræna saklausa skattgreiðendur þegar mig langar á námskeið í útlöndum. Þeir verða örugglega kátir þegar ég græði landi og þjóð Nóbelinn! (Já, svona líka fram úr hófi hæfileikarík... og hógvær!) Merkilegt hversu margir sjóðir liggja á glámbekk, ef maður nennir að leita að þeim. Það er reyndar út af fyrir sig heilmikið grúsk.

Og þá er Sirkus liðinn undir lok. Lokasýning fyrir næstum fullu húsi síðasta laugardag og mikil gleði á Eyjaslóðinni að henni lokinni. Var síðan óskaplega dugleg að sofa í gær og held að batteríin séu að verða fullhlaðin, hef t.d. fullan hug á að hella mér í ritgerðina góðu seinnipartinn(!) Annars er Leikfélag Hafnarfjarðar eitthvað farið að kveina undan afskiptaleysi, reyni að láta sjá mig á æfingu hjá þeim einhverntíma í vikunni og á vinnudegi í þeirra húsi um næstu helgi. Svo er Hugleikur eitthvað farinn að huxa um einþáttunga, tek kannski einhvern þátt í því ef nenna og tími leyfa.

Annars bara, allt í góðum gír, held ég. Foreldrin mín á leið í bæinn á morgun og planið er að fara í faðmi fjölskyldunnar á tónleika í Borgarleikhúsinu á þriðjudagskvöld og að sjá Chicago á fimmtudagskvöld. Þetta verður sem sagt fjölskylduvæn vika.