22.8.09

Jæjah!

Best að skreppa og hlaupa 10 kílómetra.

(Hefði einhver reynt að segja mér fyrir um þessa bloggfærslu fyrir tveimur mánuðum síðan hefði ég nú bara sagt viðkomandi að fara heim og taka pillurnar sínar.)

20.8.09

Hruni sé lof!

Margir tala um að þeir séu að verða örmagna af reiði. Reiði sem brast á um svipað leyti og kreppan. Ég held ég sé ekki ein um að vera á öndverðum meiði.

Mér líður eins og það sé loksins búið að hrekja Voldemort frá völdum.

- Þegar græðgin skein úr augum toppanna á meðan stór hluti þjóðarinnar barðist við að ná endum saman.
- Þegar eyða þurfti stórfé í sendiráð í útlöndum og í ferðir forsetans til erlendisbrúks á meðan ekki var viðlit að hækka laun heilbrigðisstarfsfólks og leikskólakennara upp í mannsæmandi.
- Þegar forsætisráðherra beljaði um góðæri sem fæstir fundu fyrir og lét að því liggja að þeir sem leituðu til Mæðrastyrksnefndar vegna þess að þar væri ókeypis viðurgjörning að hafa, frekar en af neyð.
- Þegar almenningur taldi hag sinn vera að vænkast þar sem hann gat tekið hærri lán en hann gæti nokkurntíma borgað.
- Þegar stór hluti þjóðarinnar hefði heldur valið peningana en lífið.
- Þegar siðferðileg gildi voru úrelt og gamaldags og áttu ekki við ef hægt var að græða á því að horfa framhjá þeim.
- Þegar var í tísku að fljóta sofandi að feigðarósnum sem við syndum núna í.

Ég var úrvinda af reiði og pirru í "góðærinu" sem aldrei náði til nema um 10% þjóðarinnar.

Núna er Voldemort fallinn. Fylgjendur hans eru eitthvað að reyna að klóra í bakkann, rannsóknir ganga erfiðlega, eins og gengur. Ekki er enn ljóst hverjir koma til með að gista Azkaban. Margir segjast hafa verið "gabbaðir út í þetta." En sannleikurinn er að byrja að mjakast upp á yfirborðið.

Þessa dagana er ég ekki neitt að verða örmagna af reiði. Ég les endalaust af skrifum fólks sem tjáir skoðanir sínar af eldmóði. Sumum er ég sammála, öðrum ekki. En flestir sem tjá sig eru vakandi. Ég hef staðið og setið Borgarafundum og Mótmælafundum, hlustað á ræður og tárast af sammáli og gleði.
Ég er yfirkomin af feginleika.

Peningar eða ekki.
Evrópusambandið eða ekki.
Æseif, smæseif.

Siðblindudofanum er að létta.
Og við erum vöknuð.

19.8.09

Dokt Hor ofl.

Ég hef trú á að bloggið fari aftur inn í rútínuna fljótlega. Allavega þegar einhver regla verður komin á vinnutímann og svona. Mál standa allavega þannig að ég er formlega orðin skráð í doktorsnám við Háskóla Íslands og hefi borgað gjöld, skráð mig í kúrsa og eitthvað svona. Komst í dag að því að ég þarf að sækja um vinnuaðstöðu í Gimlinum en get ekki gert það fyrr en á mánudaginn þegar konan sem sér um það kemur úr fríinu.

Svo hljóp ég 10 kílómetra í gær og er ekki einu sinni með harðsperrur. Hjólaði upp í útvarpshús í dag og það rigndi akkúrat á meðan. Held að 10 kílómetrarnir á laugardaginn ættu eftir þessu alveg að meikast. Hlakka bara til þegar það verður búið og ég get aftur farið að hlaupa eins og mér sýnist.

Komst líka að því að leiklistarhátíðin Lókal verður stútfull af leiksýningum sem ég hef ekki séð, en ætti að sjá, bæði vegna doktorsverkefnis míns og andlegrar velferðar minnar, svo hana er ég að hugsa um að stunda sleitulítið helgina 3. - 6. september.

Annars af fjölskyldu: Rannsóknarskip farinn að vinna og fór ásamt Smábátnum í dag að versla skóladót. (Vesen sem maður er alveg án meðan börnin manns eru í Vesturbæjarskóla.) Freigátan er komin í helgarfrí. Starfsdagar eru fram að helgi í leikskólanum hennar þannig að hún fær tvo mömmudaga sem við ætlum að nota afar vel í allskonar mamms. Hraðbátur fílar sig svaka vel í leikskólanum, sefur tvo tíma á dag og borðar eins og hestur. Kveður með virktum á morgnana, eins og ekkert sé, og er síðan alveg til í að koma heim seinnipartinn.

Smábátur er strax kominn á milljón í félagslífið, varla slitnað á milli hans og vinanna síðan hann kom, svo liggur fyrir að heimsækja einn frænda í föðurætt (eða hinnar stjúpmóðurinnar... er ekki alveg viss) á morgun og sumarbústaðaferð með afa sínum og ömmu um helgina.

Svo það er bévað span og rugl á okkur ennþá, en nú fer þetta allt að komast í föstu skorðurnar. Og þá vonandi bloggið með. Sá einmitt treiler út mynd um daginn sem fjallaði um stúlku sem skrifaði blogg, sem síðan var unnin uppúr bók, sem síðan er greinilega búið að gera úr mynd.

Segiði svo að þetta sé pointlaust!

PS: Myndin sem ég sá síðan á eftir þessum treiler er Karlar sem hata konur og var ég mjög hrifin af henni. Sem er sjaldgæft þegar ég sé myndir sem ég er búin að lesa bókina fyrst. En ég var mjög skotin í þessari. Jám.