22.10.05

Akkurru...

Geta helgar aldrei farið í tóma tímasóun, eins og mig minnir að þær hafi einhverntíma gert? Um helgi sér maður ævinlega fram á að þurfa að eyða hálfum degi í stórmörkuðum, sökum tómleika ísskáps, svo er alltaf eitthvað allskonar í gangi og þessa helgina er heimilið t.d. undirlagt af...

Ja, með orðum Rannsóknarskips:
"Veistu hvað er leiðinlegt við Joss Whedon? Hann talar alveg ógeðslega mikið."

Jú, það er commentary og aukaefni við Serenity, eina helgina enn. Aukaefni þessarar DVD útgáfu hlýtur að ná út yfir alla þjófabálka í heiminum. Allavega finnst mér ég vera búin að þýða svona fimmhundruðþúsundmilljón "featurettes". En hef samt sjálf ekkert fengið að sjá myndina. Rannsóknarskip er hins vegar búinn að þýða myndina og er núna að þýða commentary Whedons, sem er mikkkklu lengra og erfiðara verkefni. Enda tala Joss Whedon óstjórnlega mikið.

Síðustu málsgrein skildu aðeins Buffy- og DVD-nördar.

Annars, Lilja, Rannsóknarskip er ekki austanmaður, hann er alfarið af Eyfirskum uppruna, lengst aftur. Annars, ef menn vilja lesa sér til um okkar sögu, fram til samdráttar, þá er hún neðst á þessari síðu í arkhævinu.

21.10.05

Feimnismál

Í vikunni lenti Rannsóknarskipið mitt í sálrænni krísu. Þannig var að það var leikur í Meistaradeildinni á miðvikudaxkvöldi. Og Skipið þurfti af bæ til að horfa á hann. Sem aftur þýddi að hann missti af einbeittustu fjölskyldustundum vikunnar, þegar flotinn safnast saman og horfir á Americas Next Top Model. Ég bauðst til að taka það bara upp fyrir hann, taldi hreint engin vandkvæði á því.

Eitthvað varð minn maður nú vandræðalegur og tvístígandi og hafnaði síðan góðu boði, þar sem hann sagðist eiginlega ekki geta látið fréttast af sér, einhvern daginn, heima að horfa á UPPTÖKUR af Americas Next Top Model.

Og þetta þótti mér svo fyndið að... ég varð að láta það fréttast.

Annars, nei við erum hreint ekki búin að ákveða hvenær eða hvernig eða hvar eða neitt við ætlum að gifta okkur. Mér finnst ennþá svo merkilegt að það skuli hafa verið trúlofast mér að ég kemst eiginlega ekki lengra í ferlinu í bili.

En systir mín hin kjaftforri er búin að panta að fá að vera brúðarmær og mikið væri nú skemmtilegt að setja hana í bleikan púffkjól...

20.10.05

Sniðugt...

Þarf að leggja mig í allan dag og leiðist. Eins gott að tölvan mín passar í rúmið mitt. Þá skemmtir maður sér við að taka gagnslaus próf. Og þetta fannst mér fyndin útkoma:

You Should Get a PhD in Liberal Arts (like political science, literature, or philosophy)

You're a great thinker and a true philosopher.
You'd make a talented professor or writer.


Skenntilegt!

Allur er fyrirvarinn góður

Systir mín hin norskari er búin að komast að ágæti þess að kynna áætlanir með góðum fyrirvara. Best ég fylgi góðu fordæmi og plöggi og augýsi slatta af trúlega fyrirsjáanlegu.

11. og 12. nóvember verður Hugleikur með Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar verður, meðal ýmiss annars, einþáttungur leikstýrður af sjálfri mér, huxanlega annar í leikstjórn Rannsóknarskips og einhver atriði úr Jólaævintýrinu, svo eitthvað sé nefnt.

19. nóvember er síðan stefnt að frumsýningu á áðurnefndu Jólaævintýri og eiga sýningar þess að fara fram í Tjarnarbíó og ná fram í miðjan desember eða þarumbil.

24. desember er síðan ætlunin að hefja jólahald í landi voru, víðast hvar kl. 18.00 að staðartíma. Kynning á þessum viðburði er löngu farin í gang. Það fer ekki jafnmikið í pirrurnar á mér þetta ár eins og venjulega, enda byrjaði ég að skrifa jólaleikrit í júlí þannig að mér þykir IKEA bara vera aftarlega á merinni.

13. janúar er áætlað að fjölga mannkyninu, á afmælisdegi Stefaníu móðursystur, Gróu föðursystur og Siggu Birnu Hullara. Þó má vel vera að afkomandanum gremjist að þurfa að deila afmælisdegi sínum með öllu þessu fólki og fæðist einhvern allt annan dag. Enda erfitt að plana frumsýningar af neinni nákvæmni með þriggja mánaða fyrirvara.

Og fleira hefur ekki verið skipulagt í þessu lífi.

19.10.05

Hún París Hilton hin íslenskari

Ég gleymdi alltaf að tjá mig um litlu stúlkukindina sem keypti af mér íbúðina. Hún var nefnilega alveg framhaldssaga út af fyrir sig.

Þegar ég mætti á sölufundinn hitti ég hana fyrst. Stelpa um tvítugt, soldið þybbin, í einhverju voða bleiku. Ég talaði nú samt minnst við hana. Mamma hennar var nefnilega með. Kaupandi sat sumsé meirhluta fundarinn með fýlusvip og sagði fátt nema annað slagið, í tón sem krakkar nota gjarnan í vondu skapi:
- Ég skil ekkert í þessu.
Og þá sagði mamman:
- Neinei, svona svona.
Á einhverjum tímapunkti ákvað Frú Fasteignasalinn að pabbi hennar þyrfti að koma líka. (En hætti svo við það... hún var nefnilega eiginlega önnur framhaldssaga.)
Kaupandi reif upp símann, hringdi og sagði:
- Pabbi, þú átt að koma líka... Æi, bara.... Æi, mamma talaðu við hann.
Og henti símanum í móður sína.

Allavega, í gegnum þennan sölufund komumst við nú, föðurlaust, og án þess að ég missti andlitið mjög mikið í forundran. Sem oft lá þó nærri, með þetta undarlega tvíeyki fyrir kaupendur og fasteignasala sem hafði búið til vitlausa pappíra um næstum allt og þurfti að gera allt aftur á meðan við vorum þarna. Og, eins undarlegt og það nú var, þá hafði ég á tilfinningunni að hún væri bara að því til að sýna að hún kynni það.

Næst hitti ég þær mæðgur við afhendingu. Hitti þær í íbúðinni, sýndi þeim hvar rafmagnstaflan var og svoleiðis. Kaupandi hafði meðferðis móður sína, sem þjónaði öllum duttulungum eftir bestu getu, og svona lítinn töskuhund, eins og ofdekraðar stelpur í Hollívúdd eiga! Ég átti aftur ógurlega bágt með mig og hálfsá eftir því að hafa ekki skilið eftir nokkrar faldar myndavélar í íbúðinni. Þetta var að verða athygliverðara með hverjum hittingi.

Síðustu fundir mínir við nýjan eiganda voru við afsal. Þá voru báðir foreldrarnir með í för. Faðirinn var alveg jafn auðmjúkur þjónn og móðirin, og kaupandi hálfu gelgjulegri og geðverri. Einu sinni var ég næstum búin að missa stjórn á andlitinu á mér í eitthvað á milli hláturskasts og forhneykslunar. Það var þegar kaupandi sagði, einu sinni sem oftar:
- Æi, ég skil ekkert í þessu!
Og móðirin sagði, yfirgengilega róandi röddu, svona eins og hún væri að tala við um 5 ára barn:
- Neinei, elskan mín, ég skal bara útskýra þetta fyrir þér þegar við komum heim.

Þetta er trúlega eitt besta sýnidæmi sem ég hef séð um afleiðingar ofdekrunar.

17.10.05

Lannngt síðan

ég hef tekið einhvers konar svona próf og sett hér inn. Raxt hins vegar á þetta og þótti passa í ljósi Biflíurannsókna þeirra sem Varríus er að smita vefheima af.

You are Proverbs
You are Proverbs.


Which book of the Bible are you?
brought to you by Quizilla

Og nú verð ég að spyrja eins og fávís kona, þar sem ég er alls ólæs á Biflíuna á útlensku, hvaða kafli er Proverbs?

16.10.05

Hin

Einhver spurði um hina rökheimskuna sem fer mest í pirrurnar á mér. Hana má einmitt líka nota til afsökunar næstum hverju sem er. Hún hjóðar uppá:

Ég sagðist aldrei ekki ætla að...

Og virkar einhvern veginn þannig að menn geti komið fram og gert það sem þeim sýnist, hafi þeir ekki, í svo mörgum orðum, ekki sagst ekki ætla að gera það. Þar með eru menn alveg komir með sitt eigið lagaumhverfi og siðalögmál. (Tæknilega séð, samkvæmt þessari hyggð, má ég sem sagt alveg drepa mann, ef ég var aldrei búin að taka fram í orði eða riti, með beinum hætti, að ég ætlaði ekki að gera það.)

Þetta er við hliðina á því þegar fólk segir. "Ég var ekki búin að LOFA..." þegar það svíkur eitthvað. Gjarnan notað af einstaklingum sem hrósa sér af að svíkja aldrei loforð. Sem gera það yfirleitt alveg jafnmikið og aðrir, eru bara iðnari við að vinna útskýringar og afsakanir framhjá því.

Þetta var sem sagt hin.