16.5.08

Sagan af því hvernig ég varð næstum innfæddur Hugleikari... en samt ekki

Förum aftur í tímann.

Árið er um það bil 1960.
Afi minn og amma búa á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu en hafa ákveðið að bregða búi og flytja í þéttbýli. Vinur afa vill endilega fá hann til Reykjavíkur. Afi minn var mikill skapmaður og kommúnisti og blótaði meira en flestir aðrir til samans. Amma var hins vegar, og er, mesta skapgæðakona sem aldrei mælti styggðaryrði við eða um nokkurn mann. En þegar hún var þversum fór nú enginn langt með hana. Og nú sneri hún þvert og alveg þverneitaði að flytja til Reykjavíkur. Hún vildi ekki fara hænufeti lengra en í Egilsstaði, og hananú.

Svo var nú ástatt um Egilsstaðakauptún á þessum tíma að þar stóðu ekki nema kannski um tuttugu hús, en þau hýstu starfsfólk mjólkurstöðvarinnar og heilsugæslustöðvarinnar. Afi var búinn að leita af sér allan grun. Og fann ekki út að það væri svo mikið sem fermetri aflögu til búsetur í Egilsstaðakauptúni. Svo hann lagði af stað út á flugvöll, en þar var almenningssími. Hann ætlaði að hringja í vin sinn fyrir sunnan og segja honum að þau myndu koma, en sá var sterkefnaður og hefði líklega getað greitt götu þeirra bæði varðandi húsnæði og atvinnu í höfuðstaðnum.

Þegar afi var á Nesinu, eins og vegurinn út á flugvöll er kallaður enn í dag, kom á eftir honum bíll með miklum fyrirgangi, ljósablikki og flautuþeytingum. Var þar kominn maður sem vildi endilega leigja afa hálfa hæð. Sem afi og amma urðu seinna eigendur að. Og enn seinna meira að segja allri hæðinni. Svo það varð úr að þau fluttu til Egilsstaða með kjördóttur sína á unglingsaldri. Afi fór að vinna í mjólkurstöðinni og amma á heilsugæslustöðinni.

Förum enn aftar í tímann.

Það er sirkabát fjórði áratugur tuttugusta aldar.
Á Kirkjubæ í Hróarstungu situr hann séra Sigurjón. Konan hans heitir Anna. Hún setur upp leikrit á hverju vori. Fólk situr í kringum borð og skrifar niður rullurnar sínar, þar sem þetta er lönnnngu fyrir tíma ljósritunarvéla. Þar er hún Sigga, amma mín, á unglingsaldri. Einhvern tíma leikur þar líka hann Nonni Geiri, svonefndur þar sem hann heitir Jón og er frá Geirastöðum. Prestsonurinn, hann Sindri, er stundum brúkaður í að skrifa upp rullur, en tekur annars lítinn þátt í leiklistarbröltinu.

Á sama tíma er afi minn nemandi í Alþýðuskólanum á Eiðum og tekur þátt í leiksýningum þar.

Sigga amma á samnefnda frænku niðri á Borgarfirði (minnir mig). Sú er Helgadóttir. En þær heita eftir sömu Siggunni. Helgadóttur verður sífellt tíðari gestur uppi á Héraði, enda endar með því að hún verður kona prestsonarins á Kirkjubæ. Þau flytja síðan til Reykjavíkur. Það gerir líka hann Nonni Geiri. Sigga og Sindri héldu samt alltaf góðu sambandi við afa og ömmu og voru tíðir gestir á Austurlandinu á sumrin.

Enn skulum við stökkva til í tíma.

Árið er 1984.
Þau Sigga, Sindri og Jón eru orðin hluti af stórum og fjölmennum kunningjahópi í Reykjavík. Hópur sá ákveður að stofna félag. Ingibjörgu Hjartar dettur í hug að gaman væri að hafa það leikfélag. Hugleikur er orðinn til og hann Nonni Geiri er í þeim kreðsum þekktur sem Jón Fö.

Svo, ef.
Hann Sveinn Guðmundsson hefði ekki náð í skottið á afa á Nesinu þarna um 1960 og afi og amma flutt suður, þá er eiginlega alveg víst að þau hefðu verið í þessum sama kunningjahópi. Eins þykir mér alveg eins líklegt að þau hefðu tekið þátt í leiklistarbröltinu með Hugleik á fyrstu árunum. Svo þannig munaði það bara Sveini Guðmundssyni að ég yrði innfæddur Hugleikari.

En samt ekki.

Ef afi og amma hefði flutt með hálfgjafvaxta kjördóttur sína til Reykjavíkur hún líklega bara alveg misst af því að rekast á föður minn sem flutti í Egilsstaði, beina leið vestan af fjörðum með smástoppi á Bifröst, nokkrum árum seinna.
Svo líklega hefði hann Hugleikur þá alveg misst af mér og ég af honum.

Það tók mig mörg ár að átta mig á þessum tengslum mínum við hugleikska fortíð. Ég var búin að vera mörg ár í félaginu þegar ég tengdi Siggu stofnfélaga Hugleiks við Siggu frænku ömmu minnar. Og ég vissi ekki að Jón fö væri að austan fyrr en að honum látnum þegar ég raxt á minningagrein um hann heima hjá ömmu. Í heimildavinnunni fyrir ritgerðina las ég síðan viðtal við þau þrjú, Siggu, Sindra og Jón, þar sem þau eru að segja frá leiksýningum á Kirkjubæ, þeim sömu og amma mín var áður oft búin að segja mér frá. Þá sá ég að við Hugleikur eigum að hluta, óbeint, sama leiklistaruppruna. Mér fannst það mjöööög kúl. Og varð þessvegna að skrifa um það langa sögu. Þessi hefði nú sómt sér vel á Einu sinni var... námskeiðinu hjá Benna og Charlotte, um árið. Í Hugleik.

Ynnnndislegt

Fyrsti morguninn síðan ég man eftir mér sem ég þarf bara ekki að vera að gera neitt... ja, nema huxa um ungabarnið og heimilið. En Hraðbáturinn sá sér óvenjulítið fært að vera vakandi í morgun og er sofnaður aftur, og Bára syss er líka sofandi í skrifstofuherberginu sem ég þarf að klára að tæma þannig að ég er búin að hafa frábæra afsökun til að sitja með kaffið mitt, lesa moggann spjaldanna á milli, og lesa síðan slatta af sjálfri mér. Var að fatta að fyrir ári síðan var ég alveg heilmikið fræg. Og með hálfgert vorþunglyndi. Svo ég er greinilega öll á uppleið. Vorlyndið hefur bara ekkert látið á sér kræla, þetta vorið.

Svo er Óskastundin hennar Gerðar G. í útvarpinu. Í þeim þætti eru jafnan spiluð mörg, skemmtileg lög, og eiginlega alltaf eitthvað sem minnir mann á Leiklistarskólann í Svarfaðardalnum. Í dag er ég búin að heyra lag sem ég heyrði fyrrverandi skólastýrur stundum syngja, eitthvað, Vorið kemur, heimur hlýnar... og þannig. Í þessum þætti heyrir maður líka reglulega Svarfaðardal, stundum Vel er mætt, Næturljóð úr Fjörðum og fleira og fleira bandalískt. Alltaf arfagóð byrjun á föstudeginum þegar ég man eftir að hlusta á þennan þátt.

Og nú ætla ég loxins að byrja að skrifa söguna af því hvernig ég varð næstum innfæddur Hugleikari, en samt ekki.

15.5.08

Búin að skila ritgerðinni

og finnst ég hálftilgangslaus...
Það er alveg gríðarlega langt síðan ég hef ekki verið á deddlæni með eitthvað.
Merkileg tilfinning.

Ekki að það sé ekki nóg að gerast. Búferlaflutningar innan heimilis planaðir um helgina. Smábátur flytur í verelsið sem áður hét "skrifstofugestaherbergið" og það flytur aftur í gamla herbergið hans. Reyndar eru merkilega litlir húsgagnaflutningar í þessu, Smábátur fær ofurmublu sem er allt í einu, rúm, skrifborð, skápur og ótal skúffur. Gömlu húsgögnin hans skipta um hlutverk og verða skrifstofugestaherbergishúsgögn. Með bjartsýnisstærðfræði ætla ég síðan að koma öðru fyrir annarsstaðar í íbúðinni. Huxanlega þarf samt að láta nokkra hluti minnka. Eða hverfa. Og ég þarf líka að flytja Báru systur með skrifstofugestaherberginu, hún verður á svæðinu, reyndar stödd í Eyjum.

Og, best að plögga meira af sköpunarverkum fjölskyldunnar. Það á að flytja lag eftir hana í Norræna húsinu á sunnudag. Sjálf kemst hún ekki á tónleikana því hún verður í Herjólfi. Ég ætla kannski að reyna að fara ef ég man eftir þeim fyrir flutningum og heimilislegum.

Freigátan minnkar um eina nefkirtla og vonandi talsvert horflæði á fimmtudag í næstu viku.

Og svo langar mig líka ógurlega að endurskipuleggja allar hillur og alla skápa í íbúðinni. Áður en við förum í burtu í tvo mánuði. Mér finnst það alveg rökrétt. Það ruslar enginn til í allt sumar, svo það borgar sig að laga til áður. Þá verður mjöööög lengi fínt.

En eitthvað þarf nú samt að nýta tímann vel, ég er að fara í Þjóðleikhúskjallarann annað kvöld, öll fjölskyldan stormar á vorhátíð í skóla Smábátsins á laugardaginn og á laugardaxkvöldið held ég að Rannsóknarskip fái huxanlega útfararleyfi, ef hann lofar að drekka sig ekki jafnfatlaðan og síðast.

En, með aðstoð ofurforritsins sem Tóró benti mér á er ég þó búin að gera tölvu Rannsóknarskips miklu velvirkari, auk þess sem ég henti heilum haug af úreltum forritum einhverju drasli sem enginn hefur notað síðan 2005. Svo rístartaði ég og krossaði putta að ég hefði ekki hent stýrikerfinu, eins og Svandís gerði um árið. 
Það slapp til.


14.5.08

Sumarið í ár

er séns að hafi verið í dag. Það var allavega besta veður í heimi.

Við Hraðbátur hófum daginn á því að sofa yfir okkur og þurfa að hlaupa í jóga. Svo ráfuðum við heim aftur og fengum fullt af sætum stelpum í heimsókn. Ég ætla að birta myndir af því um leið og ég nenni að setja þær inn í tölvuna. En núna eru harðsperrurnar eftir morgunskokkið með barnavagninn upp í Borgartún að byrja að gera vart við sig, svo ég nenni alllllls ekki  að leita að snúrunni. Takk fyrir komuna, stelpur, þetta var algjört æði hjá okkur!

Á morgun á ég að skila ritgerðinni minni. Rannsóknarskip er að lesa hana yfir. Ég er skíthrædd við hvað hann virðist vera að gera það vel. Hann er bara búinn að segja að hún sé löng... það lofar nú ekki góðu. Ég hef áhyggjur af að ég þurfi að setja meira "fræð" í hana. Og því nenni ég síst. Er samt búin að taka til einhverja tíu doðranta til að plægja í gegnum í fyrramálið, og gá hvort ég finn eitthvað sem ég get tengt Hugleikrænni leikritun. Einhverjar hugmyndir? (Er búin að blóðmjólka póstmódernismann, held ég.)

Svo að, eftir morgundaginn verð ég komin í sumarfrí... og þá fyrst fer nú að verða mikið að gera!


13.5.08

Kvissbammbúmm...

Held að ritgerðin mín fari alveg að klárast... verð þó að segja að þetta er nú enginn akademískur stórsigur í þetta skiptið. Eiginlega bara alveg beint út úr félaxheimilinu á mér. Sem er ekki annað en viðeigandi þar sem viðfangsefnið er últra-amatöristafélagið Hugleikur. Já, sem er, bæðevei, að fara að frumsýna nokkur leikrit í kvöld, m.a. eitt eftir Rannsóknarskip og annað eftir sjálfa mig!

Sem sagt:
Sýningar verða í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld þriðjudaginn 13. og á föstudagskvöld, 16. klukkan 21.00, húsið opnar 20.30, barinn opinn og skitinn 1000 kall inn, fyrir óinnvígða.

Auðvitað hefði ég nú átt að vera búin að plögga þetta eitthvað fyrr, en ég bara hef alltaf verið að gleyma að þetta er í gangi. Enda er verið að setja upp eintal eftir mig sem ég skrifaði eitthvað um 2001 og var búin að gleyma að væri til. Ég ætla að sjá þetta á föstudaxkvöld, og það verður nú spennandi.

Annars, Rannsóknarskip fékk eina hálsbólguna enn um helgina, fór á læknavaktina og fékk fyrirmæli um að láta rífa úr sér hálskirtlana ekki síðar en strax. Freigátan er líklega á leið í nefkirtlatöku í næstu viku. Ætli sé hægt að fá hópafslátt? Eins og Hraðbátur horar og hóstar þessa dagana yrði ég ekki hissa þó hann yrði kandídat í eitthvað svipað í framtíðinni.

Jæjah. Bezt að halda áfram að reyna að hnýta einhvern endahnút á þessa ritgerð, þó ekki væri vegna annars en þess að tölva Rannsóknarskips er svo gjörsamlega í dauðateygjunum að ég veit aldrei hvort hún endist eina setningu í viðbót. Farin að gefa mér allskonar villumeldingar og dót við hvert fótmál. Og hún er eina tölvan á heimilinu sem á Word. Sem er eina forritið sem ég kann að gera ritgerðir í. Einhver var nú reyndar búinn að segjast eiga Microsoft pakka í makka fyrir mig... en ég get ekki munað hver það var. Og líklega þarf ég að kaupa sollis í PC-lappann minn þegar hann kemur úr viðgerðinni. Nema einhver eigi sollis skrímslaverk handa mér líka?

11.5.08

Djísuss og dásemdir

Hvítasunnuhelgin verður sú rólegasta á þessum bæ. Reyndar var tekið svolítið til hendinni í gær, Rannsóknarskip sendur í ferðalag, í Sorpu, og skítahaugarnir spúlaðir af svölunum. Þá þarf ég bara að taka utanaf gamla vagninum og þvo það, þá nenni ég kannski að fara að láta Hraðbátinn sofa þar af einhverju viti. Þ.e.a.s. þegar honum verður batnað af horinu. Það sem eftir er helgar er planið að halda sig heima og inni. Báðir litlukrakkarnir eru með hor. Hraðbáturinn gubbaði líka tvöfaldri líkamsþyngd sinni á forstofugólfið áðan og systur hans lá við vitstoli af hryllingi.

Freigátan er annars á þeim aldrinum að hún segir eitthvað fyndið oft á dag. Um daginn sagði ég henni að taka til eftir sig og þá heyrðist: Dísuss Kræst!
Í tón sem gaf unglingnum á heimilinu ekkert eftir. Í dag var ég síðan að hrósa hvítasunnumatseld Rannsóknarskipsins og þá lærði hún orðið "Dásamlegt" og það hefur verið notað um alla hluti síðan.

Annars runnu nú á mig tvær grímur, eða fleiri, þegar ég ætlaði að fara að taka til eftir matseldina. Á miðjum eldhúsbekk, innan um önnur ummerki, stóð nefnilega brúsi af Þrifi. Kannske Rannsóknarskip hafi ekki deilt með mér alveg öllum leyndarmálunum á bakvið dásemdartilÞrif sín í eldhúsinu?