14.5.04

Hún Þórunn Gréta var að auglýsa eftir pistli sem ég skrifaði í janúar í tilefni af bruðli á Egilsstöðum. Nú er víst komin fram niðurstaða í þessari undarlegu keppni, og af því tilefni birti ég hér aftur pistilinn:

19.1.04

Argaþras dagsins

Minn gamli heimabær (Egilsstaðir, Austur-Héraði) hefur verið pínulitið í fréttum undanfarið, mér finnst gaman að sjá myndir þaðan, það dregur úr fráhvörfunum. Tilefnið gerir mig hins vegar pöddubrjálaða í hverst skipti sem ég heyri minnst á þetta nýja fréttamál.

Það er nefnilega verið að fara af stað með samkeppni um miðbæjarskipulag í því ágæta plássi og í það á að spandera einhverjum 8 milljónum, þ.e.a.s., bara í verðlaunafé. Þess má geta að Minjasafn Austurlands sem býr í hálfkláruðu húsi við húsnæðis- og starfsmannaeklu var látið skera niður hjá sér kostnað á þessu ári, hluta af grunnskólanum er kennt í skúrum úti á skólalóð og leikfélagið verður að gera sér að góðu heilar 250.000 krónur á ári í styrk, engin aðstoð með húsnæði.

Aukinheldur. Þennan bæ má ganga horn í horn á fimmtán mínútum. Þarf miðbæ?
Aukin-aukinheldur. Ef endilega á að vera "miðbær" er þá alveg nauðsynlegt að hann sé á bílastæðunum við Kaupfélagið, í neðra horni bæjarins, fast við þjóðveg 1?
Svo veit ég ekki betur en að téður "miðbær" sé fullur af húsum og allskyns. Ef einhverjum dettur í hug að græða sér nokkrar milljónir til að hanna eitthvað á þessu svæði, þá þarf væntanlega að eyða nokkrum grilljónum í viðbót til að framfylgja því. Ekki satt?

Einhversstaðar heyrði ég þá fásinnu og firru að "flottur miðbær" myndi "koma Egilsstöðum á kortið".
Eftir því sem ég best veit eru Egilsstaðir á öllum kortum, allavega þeim sem gefin hafa verið út síðan 1950.

Hvaða dauðans kjaftæði er þetta? Það er ekki undarlegt að illa gangi að reka bæjarfélög í landinu þegar verið er að eyða peningum í að hanna gosbrunna á meðan mennta- menningar og væntanlega öll önnur starfsemi sveltu heilu fjárhungri. Allir skólar á svæðinu búnir að sprengja utan af sér og allar stofnanir kveinandi yfir blankheitum hvert sem litið er.

Hvað halda menn líka eiginlega að "nýr miðbær" geri?
"Já, förum í sumarfrí til Egilsstaða og eyðum öllum peningunum okkar þar. Eða flytjum bara þangað! Það er nefnilega svo gasalega lekker miðbær..."
Nei, ég held ekki.

Þetta er náttúrulega íslenska leiðin í hnotskurn, Eyða peningum sem eru ekki til í ekki nokkurn skapaðan andskotans hlut með viti. Ég vorkenni þessu bæjarfélagi alltént blankeheitin ekki rassgat þessa dagana. Heimska markaðsvæðingarinnar sýnist mér þarna vera að fara út í öfgar dauðans. Það er hálfvitalegt að eyða peningum í umbúðirnar á meðan innviðirnir svelta.
Og hananú!

# Virðingarfyllst, Siggalára @ 19.1.04

Og ég er ennþá alveg sammála sjálfri mér. Er skapi næst að flytja lögheimilið mitt suður áður en ég verð fræg. Þetta bæjarfélag á varla skilið að fá útsvarið mitt þegar ég fer að græða grilljónirnar.

13.5.04

Úti er ýðilfagurt og sólríkt vorkvöld á besta landi í heimi.

Inni er undirrituð með taugadrullu að reyna að fara yfir þýðingar í viðauka í ritgerð sem ég get ekki ímyndað mér hvernig í andsk. ég á að klára fyrir 25. maí (sem er nýjasta dedlæn) á milli þess sem ég æði um húsið og reyni að lita allt of mikið efni með allt of litlum lit, án þess að lita líka eldhúsið hjá Mínum, í öjmingjalegri tilraun til þess að gera nógu hálfvitalega búninga til þess að einhver hlæji kannski að einþáttungi sem ég skrifaði, og finnst ekkert fyndinn lengur og á að sýnast eftir allt of stuttan tíma, miðað við hvað ég er stutt komin með fokkíngs búningana.

Er komin á það stig að ég man ekki lengur hvenær var síðast gaman, er orðin almennt og krónískt pirruð og get ekki hætt því. Pirr leiðir af sér meira pirr sem síðan þarf að næra með aukaskammti af pirri. Er farin að þrífast á eigin pirri og verð ennþá meira pirruð þegar fólk reynir að segja mér að ég þurfi að fara að hætti pirrinu og endurheimta hamingjuna, sem ég týndi náttúrulega, einhvers staðar í pirrinu.

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað? Ef ég fyndi hann nú, og hann reyndist vera bleikur og blár, þá gæti ég kannski notað þann lit til að klára að lita allt helv... efnið.

Grrrr.

12.5.04

Júró

Er að horfa á undankeppni Júrívision. Skildi ekki hrifningu manna á Finnska laginu til að byrja með... en nú rekur hver hroðinn annan og ég er aðeins að byrja að fatta þetta. Illskást er þó það besta sem ég get sagt. Og mikið fannst mér fyndið þegar glaði auminginn frá Sviss rak míkrófóninn í tennurnar á sér. Þegar fólk reynir að fremja tónlist með þeim boðskap að maður eigi að klappa saman höndum og fagna, algjörlega út í bláinn, þá má það nú bara mín vegna gleypa hljóðbúnaðinn eins og hann leggur sig.

Svo eru herlegheitin í Tyrklandi.

Þá rifjuðust upp fyrir mér fordómar gagnvart Tyrkjum sem innprentuðust í mig úr öllum áttum úti í Þýskalandi. Í fyrsta lagi voru með mér á námskeiðinu strákur frá Grikklandi og annar frá Kýpur, grískumegin (eða einu megin, eins og hann vildi meina). Þrátt fyrir að á námskeiðinu væri fólk frá ýmsum löndum fyrrverandi Júgó og Sovét, sem voru þvílíkt að brytja hver annan niður örfáum árum áður, þá var þetta eini milliþjóða rígurinn sem ég varð vör við.
Svo voru greyis Tyrkirnir svo óheppnir að vera með alveg svakalega leiðinlega sýningu á hátíðinni. Hversu áhugavert getur mögulega verið að horfa á frekar statíska "samræðu" mynd á tjaldi og tvo leikara standa á sviðinu og tala inná og drekka kaffi og gera EKKERT annað. Þar að auki var þessi sýning í litlum sal og við námskeiðsplebbar sátum í tröppunum. Eini kosturinn við þessa sýningu var sá að á tjaldmyndinni var teljari þannig að maður gat séð hvað var mikið eftir.
Tyrkir bitu svo endanlega höfuðið af skömminni á lokadegi námskeiðsins þegar lokalesturinn okkar fór fram í hátíðartjaldi. Um 3 mínútur inn í lesturinn komust þeir í undanúrslit í HM og upphófst þá svo gífurlegt bílflaut út um allt Þýskaland að varla heyrðist mannsins mál það sem eftir var.

Nei, Tyrkir eru ekki uppáhaldsfólkið mitt. Enda fannst mér lagið sem vann í fyrra glatað.

Og ég gæti ekki þekkt þessi lög núna hvert frá öðru þó ég ætti að bjarga lífi mínu. Hvað er þetta með Júró? Af hverju eru allir að reyna að búa til einhverja undarlega stíliseraða flatneskju sem ekki þykir in eða skemmtileg í neinum menningarkima í heimi? Hvað er að því að senda bara tónlist? Bara skemmtilega tónlist? Og láta flytja hana svona sosum eins og tónlist er almennt flutt? Ég er ekki frá því að dansarnir í Júró séu nefnilega líka alveg einstakt listform útaf fyrir sig. Svo er líka eitthvað svo krípí við þessi tilgerðarlegu bros á hverju fési. Og hvað er þetta með að láta Gísla Martein kynna ár eftir ár? Hann er sosum allt í lagi í þessu, ekki samt það bestur að hann eigi að vera æviráðinn í starfið.

Hmmm. Lagið frá Möltu hefði kannski getað verið ókei, ef konan hefði kunnað að syngja jafn vel og kallinn og ef ekki hefði verið fyrir þessi ógurlegu gerfibros. Það var eins og þau væru að segja "Við ætlum að þykjast vera ógurlega kátt og almennilegt fólk, en við höfum drepið og munum drepa aftur..."

Já, óhamingju Júró verður allt að vopni. Ekki þar með sagt að ég ætli ekki að fylgjast með á laugardaginn. Það geri ég sko, með gífurlegum áhuga. En nöldrið yfir því hvað þetta er alltsaman vont og leiðinlegt og að Júróheimurinn versnandi fari er náttlega hin besta skemmtan. (Æ,æ. Grikkir ekki alveg að halda lagi... enda í Tyrklandi og örugglega alveg ógurlega hræddir.)

Best að fara að reyna að beina ritræpunni í réttan farveg...

Hahaha! Ruslana frá Úkraínu! Nýtt nafn sem verður að nota næst þegar eitthvað vantar sem á að hljóma Rússneskulega.

Ókei. Nú fer ég að ritgerða.
Ég hef ekki tjáð mig um eitt. Það kemur til af leti og ómennsku. Ef ég ætla að fara að segja um það mál þarf ég nebblega að setja heilan haug af linkum í viðbót og ég nenni því ekki. Svo fór ég í smá bloggflakk og komst að því að aðrir eru búnir að ræða þetta slatta, þannig að, best að tjá sig.

Linkar á alla sem koma við sögu í eftirfarandi eru komnir hér til hliðar í einn flokk og verða þar á meðan eftirfarandi dæmi stendur yfir.
Þannig er að Sigríður Pétursdóttir, starfsmaður hjá RUV með meiru, hafði samband við mig og nokkra aðra bloggara sem hún valdi um að gera útvarpsþætti fyrir rás 1 í sumar. Vinnuheitið held ég að sé annað hvort "Bloggað upphátt" eða "Sögumenn samtímans" og verður á dagskrá á laugardögum eftir kvöldfréttir, kl. 18.35, ca. Þar fáum við að tjá okkur, eins vitrænt eða ekki og okkur sýnist og spila tónlist.

Við erum búin að hittast einu sinni, fólkið sem er í þessu dæmi, og það var skemmtilegt. Þar fékk ég til dæmis staðfestingu á því sem ég reyndar vissi, að "bloggarar" eru ekki ein tegund af fólki. Þarna ægði saman kynjum, öldrum og "týpum". (Mér finnst ég nefnilega hafa heyrt örla á misskilningi um annað.) Svo frétti ég líka að til væri eitthvað sem heitir "bloggelíta" og jafnframt að einhverjir sem telja sig tilheyra slíkri séu jafnvel dáldið súrir yfir að fá ekki að vera með. Ég hef reyndar aldrei heyrt minnst á neitt að því fólki og man ekki lengur hvað það heitir (þetta er altént ekki "mín" elíta) en skil vel að menn öfundi. Það liggur við að ég öfundi sjálfa mig af þessu fína tækifæri til að dæla óhroða út í samfélagið. Mínir þættir eru reyndar seint þannig að ég er lítið farin að spá í hvað ég ætla að segja, en sá seinni er 11. september. Það finnst mér gaman. Ójá, það verða hryðjuverk.

Fyrsti þátturinn er 5. júní, minnir mig. Og í sumar verður sumsé hérna inni nýr linkaflokkur, vilji menn skoða hverjir aðrir eru í þessu dæmi.

Til að svara spurningum sem einhverjir sem þekkja mig og mína kunna að hafa,
a) Eva er sú hin sama og einnig ritar Sápuna sem er í hinum tenglunum.
b) Þessi Hugrún er ekki Hugrún systir mín.
Lenti á spjalli um linkamenningu um daginn, og ákvað af því tilefni að bæta nokkrum við sem ég les oft.
Mér finnst mjög gaman þegar fólk býr við undarlegar aðstæður (frá mér séð) og nennir að segja frá því. Það gerir t.d. hún Ylfa sem er þriggja barna móðir á Bolungarvík. Og þau Agnes og Einar Vogler sem búa í Ástralíu. Þetta fólk býr hérmeð í linkasafninu. Svo var hann Hugleikur náttrulega að opna þennan líka svakalega efnismikla og ýtarlega upplýsingavef um daginn, en þar er hægt að fletta upp öllu og öllum sem nokkurn tíma hafa komið nálægt þeim félagsskap.

Annars er ég nýbúin að læra að maður eigi aðallega að hafa linka á þá sem eru með linka á mann, tilbaka, en ég er ekki búin að nenna að fá mér neinn teljara eða rakningargræjur þannig að ég veit ekkert hverjir eru með linka á mig (eða hvort einhver les bloggið mitt svona yfirhöfuð) Enda finnst mér það eiginlega ekkert vera málið. Verð bara að hafa einhvern tjáningarmáta sem kemur í veg fyrir að ég kjafti alla sem í kringum mig eru endanlega í kaf ;-)

Það eru komnir nýjir símar á skrifstofuna! Enda voru hinir eldeldgamlir og ég var búin að henda mínum mjööööög oft í gólfið. Núna er sumsé orðið þráðlaust svo við þurfum aldrei aftur að segja "bíddu aðeins" við neinn þegar við þurfum að gá að einhverju. Við það færist þjónustumiðstöð Bandalaxins upp um nokkur stig. Þá vantar bara kaffikönnu sem er búin að hella uppá þegar maður mætir og sjálfhreinsandi geymslu.

Vegabréfið mitt er loxins á leiðinni í endurnýjun lífdaga. Það kemur sumsé til með að vera útrunnið í rúmt ár. Minnir að ég hafi haldið upp á úreldingu þess um 15. maí í fyrra. En nú er friðurinn úti. Írar skulu sóttir heim innan mánaðar. Ferðafýlan er alveg að komast í hámark, finnst miklu meira gaman að vera að fara norður í Svarfaðardal um næstu helgi. Hef reyndar aldrei komið til Írlands áður og hef huxað mér að pikka upp nokkur vel valin blótsyrði á gelísku. Finnst líka mjög fyndið að fara þangað og sneiða algjörlega hjá Dublin. Svo hef ég líka fulla trú á námskeiðinu sem ég er að fara á þannig að fátt er svo með öllu illt... Það er bara helv... ferðalagið.

Til að byrja með þoli ég ekki Reykjanesbrautina og er meinilla við að láta fólk keyra hana. Þess vegna tek ég rútuna ef ég mögulega nenni. Svo er ég náttrulega að fara á einhvern fáránlegan stað, lengst út úr alfaraleið þannig að eftir tvö flug (og nokkra heilaskemmandi klukkutíma á Stansted flugvelli) tekur við strætó, svo rúta og svo... bíll eða eitthvað. Þetta tekur heilan dag hvora leið. Þannig að það er eins gott að þetta verði gaman! Dreymdi annars í nótt að ég var komin þangað og hundleiddist.

Reyndar gerðist ein fyndnasta ferð sem ég hef farið í síðast þegar ég var að koma af viðlíka námskeiði. Ég þurfti að leggja af stað frá Bonn til Montpellier um miðja nótt, beint úr lokapartýinu, alveg blindfull með risastóra tösku í eftirdragi. Ferðaplanið var leigubíll-lest-rúta-flug-leigubíll. Á leiðinni í fyrri leigubílinn datt handfangið til að draga með af. Þegar ég var að drösla ferlíkinu upp í lestina datt síðan hitt af líka. Eftir það var ég blidfull og ein að reyna að burðast með tösku sem var næstum jafn stór og ég og örugglega miklu þyngri, og var ekki lengur með nein handföng til að halda á, blindfull og þar að auki með takmarkað jafnvægisskyn um miðja nótt að þvælast um hálfa Evrópu. Þetta var eins og Mr. Bean þáttur. Mér fannst þetta ekkert fyndið á meðan á því stóð, en þegar ég var búin að losna við ferlíkið á flugvellinum og sest einhvers staðar út í horn setti að mér alveg óstjórnlega mikið fliss. Varð fyrir vikið enn meira eins og geðsjúklingur. Hefði samt sennilega ekkert hlegið hefði ég vitað þá, það sem ég komst að stuttu síðar, að í fumblinu var ég búin að berja tölvunni minni svo rækilega utan í að skjárinn í henni var ónýtur. Og er enn. Og ég veit ekki hvaða tölvu ég á eiginlega að fara með á næsta námskeið. Kann eiginlega ekki við að fá lánaða eftir hvernig fór fyrir þeirri síðustu.

Allavega, er búin að læra soldið af reynslunni með þetta og í þessa ferð skal farið með töskur með einstaklega traustvekjandi hanföngum í hvívetna.

11.5.04

Hmmm. Er búin að vera að ritgerða með þátt sem heitir Paradize Hotel á Popptíví í öðru eyranu. Mjööög skrítið. Þetta er sumsé veruleikasjónvarp sem virðist snúast um það að haugur af fólki hangir á einhverju hóteli í fleiri vikur og er vont hvert við annað. Síðan einhverntíma verða einhverjir tveir eftir og þeir vinna verðlaunin... Það hefur hins vegar ekkert komið fram hvað er í verðlaun. Og í lok þáttarins komst ég að því að þau vita það ekkert heldur!!!

Er ekki alveg allt í lagi með fólk? Að hanga á einhverju hóteli í einhverju sem virðist vera einn alsherjar kattarslagur í marga mánuðu og vita ekki einu sinni hvað þau fá fyrir? Pfff. Asnar.

Annars er allt sjónvarp í heiminum að verða búið. Friends búið. Sex and the city búið. Buffy búið og Angel að verða búið. Veruleikasjónvörpin sem ég var farin að hafa smá auga fyrir að verða þreytandi. Sennilega algjör óþarfi að fá sér sjónvarp...

...úúúú. Law and Order...

Verðaðfara.
(Já ég veit, þetta er fíkn. Hvenær verður fundið upp á meðferð fyrir sjónvarpsfíkla?)

10.5.04

Haha. Hahaha.

sweetums jpeg
You are Sweetums.
A hard exterior covers up the soft sweet center of
your soul. And you love to eat humans.

SPECIAL TALENTS:
Really big dance steps.
FAVORITE MOVIE:
"Big"

QUOTE:
"Wait for me!"

LAST BOOK READ:
"Taming Your Outer Beast"

NEVER LEAVES HOME WITHOUT:
Robin the Frog


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

9.5.04

Gerast nú hin stóru skærin.
Bloggleysi hefur komið til af einhverju óumbeðnu annríki og svo almennu verkfalli skrifstofubúnaðar í vinnunni síðasta föstudag. Það lýsti sér m.a. í því að internetið fór í verkfall og lét eins og það væri ekki búið að finna það upp. Sama hvað hver gerði. Á sama tíma flippaði vítisvélin yfir og heimtaði viðgerðarmann. Við vorum í hálfgerðu taugaáfalli allan daginn og vissum ekkert hvað við áttum við okkur að gera. Ég þurfti m.a. að rifja upp færni mína á símaskrá úr pappír, og komst að því að hún er illa úrelt. Hryllilegt þegar tæknin fer að stríða manni og upp kemst hversu algjörlega hjálparvana maður er án hennar. Sé fram á að drepast beina leið ofan í klofið á mér þegar siðmenningin líður undir lok. (Og það er nú bara tímaspursmál! Hvernig fór ekki fyrir Rómverjum?)

Fór á "Kleinur" (eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar) í Kaffileikhúsinu gær. Gjörningur þessi eru 5 leikþættir sem allir fjalla um sömu persónuna og hans tengsl við kleinur. Þeir segja líka ævisögu hans afturábak. Algjör gargandi snilld að öllu leyti, enda öngvir öjmingjar að verki. Sýningar verða í kvöld og næsta sunnudagskvöld kl. 20.00.

Annars, búin að eyða talsverðum tíma í að mála og vesenast í húsi Leikfélags Hafnarfjarðar og brúka það sem afsökun fyrir því að vera ekki að skrifa helv... ritgerðina. (Var að komast að því við að lesa bloggið aftur í tímann að ritgerðin er búin að vera aðalumfjöllunarefni frá upphafi. Spurning hvort það verður ástæða til að halda þessari síðu við lengur þegar henni lýkur. Verður altént minna um nöldur, hverskonar.)

Svo braut ég blað í leikritunarsögu minni í gær. Áðurnefndur Þorgeir Tryggvason er að leikstýra einþáttungi eftir mig þessa dagana, en hringdi í mig í gær og pantaði nýjan endi. Ég var ekki neitt nálægt tölvu, svo skrifaði hann á símann minn og sendi æruverðugum leikstjóra á sms formi á meðan ég var að horfa á Liverpool taka Birmingham City í nefið. Já, framtíðin er komin. Svo var ég náttlega að vitleysast til að taka að mér að sjá um einhver búningamál fyrir það stykki þannig að nú fer að vanta meiri tíma í sólarhringinn. Sjitt.

Það er fyrsti samlestur á hinu ógurlega skemmtilega leikriti "Beisk tár Petru von Kant" eftir Fassbinder, sem Leikfélag Hafnarfjarðar ætlar að setja upp í sumar. Nú á að fara að kasta, og ég mundi næstum sofa hjá leikstjóranum til að landa ákveðnu hlutverki í þeirri sýningu. Næstum. Ætla allavega að mæta og lesa alveg hryllilega vel og reyna að þykjast vera alveg gífurlega efnileg leikkona. (Hlýt að geta leikið það...?)

Allavega, ætti að vera að... júnóvott. Best að fara að grípa réttri hendi í rassgatið á sér og klára helvítið!