24.7.08

Sveitamál

Við tengdafólk mitt ollum álfunum í Álfaborginni við Borgarfjörð hinn Eystri talsverðu ónæði um daginn. Svona þegar ég var búin að benda öllum viðstöddum á hvernig Dyrfjöllin litu út vitlausumegin (og fá alla viðstadda til að samþykkja að vissulega væru þau ljótari þaðan frá séð) fórum við að horfa á bónda sem var að lufsast um í heyinu sínu á túninu fyrir neðan. Ekki vorum við nú aldeilis á einu máli um hvað hann væri að gera. Mér fannst alveg greinilegt að maðurinn væri að "snúa í." En eiginmaður minn og systkini hans voru á einu máli um að hann væri að "snúa."

Í sveitaferðinni í fyrradag rak ég síðan augun í bóndasoninn af næsta bæ við sömu iðju og spurði frændfólk mitt hvað hann væri að gera. (Og þóttist viss um að fá máli mínu stuðning.) Þau komu með þriðju útgáfuna og sögðu manninn vera að tætla. Svo hittum við bóndann af næsta bæ og dóttur hans. Hann sagði drenginn vera að snúa í. Hún sagði hann vera að tætla. Bóndinn sagðist nú ekki par ánægður með það að ef hann segði krökkunum sínum að snúa í, þá færu þau bara að tætla! Svo það er kominn upp ágreiningur á þeim bænum.

En, hvað segja málmeðvitaðir? Ef þeir eru ekki allir úti að heyja?

Snúa?
Snúa í?
Tætla?
Fleira?

23.7.08

Sumarið er komið!

Egilsstaðablíðan loxins mætt. Eins og hún var ALLTAF þegar ég var lítil. Hitti tvo nágranna meðan ég var enn á náttfötunum í morgun. Og ritstýrði yfir limgerðið. Freigátan var á sama tíma búin að heimsækja þrjá, þar af tvo hunda.

Fórum í gær út í Hallfreðarstaði og hittum ættingja af öllum stærðum og gerðum. Hittum líka þrjá hunda og heilmargar kvígur, Freigátunni til mikillar hamingju. En henni þótti nú verra þegar hjörðin var stoppuð á leiðinni til hennar. Hún var búin að standa og kalla: Kussur! Komdu! Á meðan einar 20 hraðskreiðar ungbeljur nálguðust á ógnarhraða. Upprennandi kobboj.

En sökum verðurblíðu verður stoppið í kjallaranum stutt í dag. Þess í stað verða stunduð vettvangsritstjórn og heyskapur í garðinum í kringum leiguhúsið okkar.

22.7.08

Sveitin og Sálin

Það er helst í fréttum að bróðir minn bakaði Rannsóknarskip í golfi í gærkvöldi. Eina ferðina enn. Í gær átti að vera hlýtt en sólarlaust, svo litla fjölskyldan ákváðum að fara öll saman í sund. Sólarleysið gekk eftir, en hlýindin höfðu víst eitthvað verið orðum aukin. Freigátu og Hraðbáti fannst samt alveg gríðarlega gaman, eins og alltaf, þó þau væru blá af kulda og ekki væri þverfótandi í pottunum fyrir 50 manna túristahóp.
Samkvæmt Sigga stormi á svo að bresta á með 22 stiga hita seinnipartinn svo það er eins gott að reyna að vinna eitthvað. 

Í öllum þessum brakandi þurrki ætlum við Rannsóknarskip síðan að fá lánaða sláttuvélina hans pabba og heyja kringum leigða húsið okkar. Ekki af því að neinn hafi svosem beðið okkur um það. Heldur bara svona okkur til skemmtunar.

Ég get ekki að því gert, mér finnst heilmikill munur að komast svona "beint" út í garð. Þurfa ekki að fara í gegnum stigagang og bílastæðið, eins og er heima hjá okkur, til að komast þangað. Ef hann væri sæmilega girtur gæti Freigátan meira að segja fengið að leika lausum hala og skoppa inn og út eins og henni sýndist. En það er reyndar ekki alveg hægt. Hundurinn hinumegin við götuna er aðeins of freistandi. Og hún aðeins of lítil til að fara ein yfir götur.

Og svo er það menningarlífið. Ég ætla að reyna að drífa mig á danssýningu hjá Frú Normu í kvöld. Rannsóknarskip ætlar á tónleika á Seyðisfjörð á fimmtudagskvöldið. Og það er ball með Sálinni hans Jóns míns á laugardagskvöld. Ég veit ekki... ætli svoleiðis séu þá orðnar svona miðaldrasamkomur, eða ætli þetta séu alltaf sömu skrílslætin? Og ég veit ekki einu sinni hvort ég nenni að athuga það. Þetta byrjar svo seint... 

Ef ég sem var fyrir hálfri ævi minni síðan heyrði til mín núna liði sennilega yfir hana af hneyxlan og örvinglan.

21.7.08

Betublíðan

Það brast á með góðviðri um helgina, eins og jafnan þegar Elísabet mágkona lætur sjá sig á Austurlandi. En það var gestkvæmt hjá okkur, áðurnefnd Elísabet mætti á svæðið með yngri son sinn sem og Jón Rannsóknarskipsbróðir og Kathleen konan hans. Það þurfti að túristast nokkuð. Við skruppum á Borgarfjörð Eystri í glaða sólskini og röltum upp á Álfaborgina með börn og buru. Skoðuðum líka kirkjuna og komumst að því, við eftirgrennslan vegna gríðarlegs mannfjölda sem okkur sýnist vera í bænum, að í gangi væru þrjú ættarmót. Og ég sem hélt að það væru bara tvær ættir í Borgarfirði Eystri...

Í gær hélt síðan fólk heim til sín, en ekki þó fyrr en búið var að koma við á Skriðuklaustri og gúlla í sig af hádegisverðarhlaðborðinu. Helmingurinn af liðinu var síðan á jeppa og ætlaði yfir stíflu og niður í Jökuldal hinumeginfrá. Sem sagt, mikið ferðast um helgina.

En nú er runnin upp næstsíðasta vikan sem ég er hér á Egilsstöðum við ritstjórnarstörf! Jemundur minn og allur andsk. eftir.

Einntveirog vinna.