Það er helst í fréttum að bróðir minn bakaði Rannsóknarskip í golfi í gærkvöldi. Eina ferðina enn. Í gær átti að vera hlýtt en sólarlaust, svo litla fjölskyldan ákváðum að fara öll saman í sund. Sólarleysið gekk eftir, en hlýindin höfðu víst eitthvað verið orðum aukin. Freigátu og Hraðbáti fannst samt alveg gríðarlega gaman, eins og alltaf, þó þau væru blá af kulda og ekki væri þverfótandi í pottunum fyrir 50 manna túristahóp.
Samkvæmt Sigga stormi á svo að bresta á með 22 stiga hita seinnipartinn svo það er eins gott að reyna að vinna eitthvað.
Í öllum þessum brakandi þurrki ætlum við Rannsóknarskip síðan að fá lánaða sláttuvélina hans pabba og heyja kringum leigða húsið okkar. Ekki af því að neinn hafi svosem beðið okkur um það. Heldur bara svona okkur til skemmtunar.
Ég get ekki að því gert, mér finnst heilmikill munur að komast svona "beint" út í garð. Þurfa ekki að fara í gegnum stigagang og bílastæðið, eins og er heima hjá okkur, til að komast þangað. Ef hann væri sæmilega girtur gæti Freigátan meira að segja fengið að leika lausum hala og skoppa inn og út eins og henni sýndist. En það er reyndar ekki alveg hægt. Hundurinn hinumegin við götuna er aðeins of freistandi. Og hún aðeins of lítil til að fara ein yfir götur.
Og svo er það menningarlífið. Ég ætla að reyna að drífa mig á danssýningu hjá Frú Normu í kvöld. Rannsóknarskip ætlar á tónleika á Seyðisfjörð á fimmtudagskvöldið. Og það er ball með Sálinni hans Jóns míns á laugardagskvöld. Ég veit ekki... ætli svoleiðis séu þá orðnar svona miðaldrasamkomur, eða ætli þetta séu alltaf sömu skrílslætin? Og ég veit ekki einu sinni hvort ég nenni að athuga það. Þetta byrjar svo seint...
Ef ég sem var fyrir hálfri ævi minni síðan heyrði til mín núna liði sennilega yfir hana af hneyxlan og örvinglan.