4.8.06

Í Færeyjum

Hugleikur og Leikfélag Kópavox eru í einni sæng á NEATA-leiklistarhátíð í Færeyjum. Hér má sjá hvað þau eru að bralla.

Annars fór ég í vinnuna í dag. Það gekk nú alveg sæmilega. (Fyrir utan að ég fan ekki lyklana mína, mætti of seint og vissi eiginlega ekkert hvað sneri upp eða niður á mér.) Er með kaffi- og útivinnusjokk.

3.8.06

Allskonar pirr

Þar sem Rannsóknarskip er einhvers staðar að leika í einhverju, Smábátur enn á Norðurlandinu og Freigátan sofandi, er best að pirrast.

Hverfavæðing dauðans
Byrjaði pirrið á að meinast niður í Vesturgarð til að til að reyna að sannfæra úthlutunaraðila húaleigubóta um að hvorki ég né Rannsóknarskip ættum eitt eða neitt húsnæðistengt, með ýmsa pappíra að vopni. Mér var þessi ferð einstaklega mjög á móti skapi, þar sem mér þótti líklegt að sömu skattayfirvöld og kjöftuðu frá síðustu vaxtabótunum okkar lægju einnig á upplýsingum um húseignaleysi. Ráfaði því þvert gegnum vesturbæinn, einstaklega pirruð og tuldrandi geðvonskulega við sjálfa mig, með barnavagn og grindverk. Huxaði til herferðar systur minnar hinnar kjaftforri gegn fjárans hverfavæðingunni þegar hún var í ritdeilum við Dag Kára. Hélt því fram að þessar hverfaþjónustumiðstöðvar yrðu fullar af fávitum, betra væri að hafa sérþekkingu hvers málaflokks á einum stað í Reykjavík. Var, í smástund, sammála systur minni. Reyndist, í Vesturgarð kom, hafa tekið ranga pappíra. (Pappírar vörðuðu mig, grunsemdir um eignir beindust víst aðallega að Rannsóknarskipi. Var að því komin að taka frekjukast, fleygja mér í gólfið og grenja. Þegar konan (sem á því augnabliki breyttist úr heimsku konunni í góðu konuna) tjáði mér að nóg væri að láta fasteignasöluna hans faxa afsalið af íbúðinni hans til hennar. Þá fáum við töttögogfemmþúsund kall á mánuði. Það er nú ljómandi.

Smíðfíkn nágrannanna
er hins vegar enn í gangi, og full ástæða til að pirra sig yfir. Þar sem hún virðist ætla að sjá til þess að Freigátan vakni fyrr en hún þarf, vegna hamarshögga. Nú er hún orðin afvön þessum framkvæmdalátum og svaf þar að auki alltaf betur við höggbor. Reyndar finnst mér ólíklegt að hún eigi eftir að sofa mikið lengur utandyra, þar sem hún hefur tekið upp á ýmsum leikfimiæfingum í svefni, sem óhægt er um vik að stunda í vagninum.

Að lokum, Magni
er greinilega rokkari Íslands... sem ruglar mig, þar sem ég hélt að margir væru meiri rokkarar en hann. Hins vegar veit maður ekki hvort óska skal sigurvegara keppninnar til hamingju eða samhryggjast. Hann fær að vera í hljómsveit með þremur afdönkuðum hesbíns sem allir hafa, t.d. verið reknir úr hljómsveitunum sínum. Og einn þeirra er Tommy Lee! Sem ég myndi ekki koma nálægt með töng, nema ég ætlaði að lemja hann með henni. Óttalegt skítmenni. Fuss.

Þá held ég að pirrið sé búið í bili. Best að reyna að halda áfram að grafa sig í gegnum haugana í húsinu. Á von á tveimur mágum í kvöld, svo líklega er best að reyna að gera gestaherbergið ísjáanlegt. Rannsóknarskip var líka að detta inn úr dyrunum, allur málaður. Hihi.

1.8.06

Komin heim!

Erum komin heim. Komum að heimilinu hreinna en þegar við skildum við það þar sem leigjandinn okkar hann Aðalbjörnsfrændi er ljóslega mikill snyrtipinni. En að sjálfsögðu erum við búin að gera heimilið okkar aftur með því að dreifa tösum og drasli um alla íbúð. Og svo er bara brjáluð blíða og ég nenni eiginlega bara ekkert að pakka upp í dag. Langar bara í labbitúr niðrí bæ, á Bandalagið, Nornabúðina og svona.

Við vorum öll rugluð í nótt. Freigáta vaknaði eitthvað og var alveg rugluð og vissi ekkert hvar hún var. Og í dag þurfum við líkleg að fjárfesta í hókuspókusstól, einntveirogmilljón.

Já, ætli töskurnar fái ekki bara að eiga sig fram undir jól.