28.10.10

Ræræræ!

Er búin að vera að skrifa fyrirlestur í dag. Eða ekki. Sem verður fluttur eftir hádegið á morgun. Og ég veit eeeekkert mikið hvað ég ætla að segja. En þar sem það er yfirleitt auðveldara fyrir mig að tala en ekki þá reikna ég alveg með að segja eitthvað.

Svo fór ég í hjartaómun í morgun. Og hjartað í mér er alveg eins og í kornungu fjallalambi. Slær hægt og rólega og er í fínu standi. Fékk alveg fína skoðun á það. Þá á ég bara eftir að hitta hjartalækninn minn einu sinni og verð síðan útskrifuð með stakyfirlit vegna ofurheilsu í hjarta og æðakerfi. Reikna með að verða minnst 150 ára í framhaldinu, ef ekkert kemur uppá. Þá er nú líklega að fara að lengja hlaupahringinn eitthvað.

Annars er október að verða búinn. Ég finn alveg fyrir því. Ýmsir gálgafrestir virðast líka alltaf hrúgast í kringum mánaðamót þessi misseri, alveg óháð öllum launakerfum eða þannig. Þegar morgundagurinn verður búinn (sem hann verður reyndar líklegast seint) er þetta nú frekar lygn sjór, í nokkrar vikur. Aldrei að vita nema rannsóknin mjakist eitthvað.

Var hins vegar alveg andvaka í nótt af einhverju stressi. Asnalegt. Eins og mér verði skotaskuld úr því að tala í kortér um eitthvað sem ég er búin að hugsa um í eittoghálft ár?
Þá bæri nú nýrra við.

27.10.10

Bangsadagur!

Það var bangsadagur hjá börnunum mínum í leikskólanum í dag. Freigátan fór með birnuna Dísu. Hún er nefnilega bara eins árs. (Samkvæmt Freigátunni. Í raun og veru er hún nú komin yfir tvítugt.)

Og vetrarfríið er búið hjá Hagaskólafeðgum. Rannsóknarskip hóf fyrsta vinnudaginn á því að stilla vekjaraklukkuna klukkutíma of seint. Sem betur fer á hann nú árrisul börn og hljóp af stað, úldinn og úfinn, ekkert svo mikið of seint.

Sjálf er ég allt of róleg yfir tvöföldu deddlæni í vikunni. Nenni ekkert að pæla í hvað ég ætla að segja eftir tvo sólarhringa. Svo þarf ég líka að senda inn á eina ráðstefnu fyrir laugardaginn. Já, í millitíðinni er ég að fara í hjartaómun.

En allt kemur fyrir ekki, stressið heldur sig fjarri.

Hei! Enda er ekkert af þessu neitt mál og ég hef allan heimsins tíma!
Best að drífa þetta bara alltsaman af fyrir hádegi og fara svo að hugsa um eitthvað annað.

26.10.10

Ófríð og illileg...

Ég þekki Grýlu og ég hef hana séð
Hún er sig svo ófríð og illileg með

Það sem eftir lifir lags fjallar síðan um hvað Grýla er ljót. Af sjálfu leiðir að hún er líka vond.
Er það ekki?
Ég hef heyrt það notað sem rök gegn því að Jóhanna Sigurðardóttir sé vanhæfur forsætisráðherra að hún sé gömul og ljót. Ég hef heyrt að Björk sé of ljót til að vera tónlistarmaður. Og svo ekki sé nú minnst á allar þær sem eru of feitar til að vera í sjónvarpinu. Og líti konur sæmilega út eftir ákveðinn aldur? Þá hafa þær alveg örugglega farið í STREKKINGU! Og ekki er það nú betra.

En er þetta nokkurn tíma notað gegn köllum? Í pólitík eða annarsstaðar? Eru ráðherrarnir okkar einhver augnayndi? Hvað með tanorexarann sem situr í viðskipta- og efnahagsráðuneyti?

Misréttið felst, meðal svoooo annars, í útlitskröfum.

Mikið ofboðslega var gaman á Arnarhólnum í gær. Rífandi stemming. Æðislegar ræður og önnur atriði... ég hlustaði á lagið Áfram stelpur í þremur útgáfum í tilefni dagsins. Frábært að heyra alla þessa baráttusöngva, og svo félagarnir Hannes og Smári (æðislegar leikkonur í kallagervi) fóru æðislega með ranghugmyndirnar um að jafnrétti væri í höfn.
(„Muniði svo bara að mála ykkur, stelpur!“ Alveg æðislegir.)

Það var eiginlega alveg frábært að hafa í huga hvernig umræðan var fyrir 30 árum, sérstaklega þegar maður las alla karlrembuvitleysuna sem fólk lét út úr sér á fésinu í gær. Eftir 30 ár verður sjálfsagt hægt að grenja úr hlátri yfir því líka. En ég held að fólk af öllum kynjum hafi oft tekið sér tveggja tíma frí í vinnunni af heimskulegra tilefni. Ég hef til dæmis unnið á alveg slatta af vinnustöðum þar sem konurnar vinna í opnu rými í miðjunni, langflestir kallar eru með skrifstofur, og þeir eru meira og minna ekki við eftir hádegi á föstudögum.

En ræðurnar voru magnaðar. Opið bréf til geranda var gott að fá í púkkið. Það er nefnilega sjaldan talað við geranda kynferðisglæpamála. Það er eins og nauðganir og misnotkun á börnum séu náttúruhamfarir sem enginn ber ábyrgð á.

Nóg komið.

Best að halda áfram að ströggla við doktorsnáminu, og hugsa með auðmjúku þakklæti um allt það sem okkur konum leyfist í dag.
Er það ekki?

25.10.10

Kvennafrí!

Brjálæðislega er kalt! En eins og einn leikskólakennari barnanna sagði í morgun: „Já, það hefur alltaf andað köldu á konur í þessu landi.“ (Hún var nú reyndar að djóka... en samt.)

Reyndar var alveg magnað að sjá mótframbjóðendur Vigdísar í heimildarmyndinni um hana í sjónvarpinu í gær. Alveg kostulega forpokaðir kallar. Og það sem var ekki notað á hana í framboðinu! Hún mátti svo sem alveg vera kona. (Allavega þorði enginn að segja annað.) En það var verra að hún skildi vera einhleyp (hvað þá fráskilin!) einstæð móðir, hafa fengið krabbamein, hafa bara eitt brjóst... flest var tínt til. Og hún stóð þetta bara af sér, reif kjaft og var síðan þessi fíni forseti.

Hún er ekkert fullkomin. Ég er ekkert sammála henni þegar kemur að þjóðrembunni... að það eina sem við eigum eftir núna sé "íslenska stoltið" og hvað-ha. Ef sjálfsvirðing manns á að hanga á því í hvaða útnáraboru maður fæddist er það nú frekar random. Og ég er alveg farin að fá grænar þegar menn fara að fabjúlera um að við Íslendingar séu nú svona eða hinsegin. Svo ekki sé nú talað um að Íslendingar eigi einir að hafa aðgang að sínum náttúruauðlindum á sama tíma og allir fara að grenja þegar olíuverð hækkar, olían komandi beint úr náttúruauðlindum annarra þjóða, sem við viljum þá fá ókeypis aðgang að eins og okkur sýnist, eða hvað?

Ekkert af þessu á að vera í einkaeigu, Íslendinga eða útlendinga. Öngvir gullrassar græði á neinu sem allir þurfa til að lifa. (Þessi setning mætti fara í stjórnarskrána.)

Fór út af sporinu. Ég var í Vigdísi. Það sem hún gerði var að þora að svara kallaveldinu fullum hálsi og kynna til sögunnar alveg nýja tegund af forseta. Ferlega menningartengd, talaði haug af tungumálum og gat haldið ræður á þeim öllum. Bara svona oftast alveg ferlega skynsamlega þenkjandi.

Annars væri vissulega maklegt að fara út í langt kvenréttindarant í tilefni dagsins. Ég veit ekki hvort það er nágrennið við kynjafræðiskrifstofurnar, en ég er alltaf að sjá fleiri og fleiri fleti á því máli. Sennilega spila orðræðupælingarnar inní þetta líka. Og svo erum við búin að flækja okkur alveg helling.

Ég held það séu allar þessari skoðanir. Við höfum tilhneigingu til að mynda okkur skoðun. Hún er Svona. Þessi stjórmálamaður er ALFULLKOMINN og hinn er GLATAÐUR. ÞESSI gerði ÞETTA og er þess vegna FÁBJÁNI, og þá núllast öll góð verk og skynsamlegar afurðir. Við EIGUM (eða EKKI) að ganga í ESB. ALLT er annað hvort SVART eða HVÍTT og jörðin er FLÖT.

Páll Skúlason sagði að stjórnmálin, eins og þau væru stunduð á Íslandi í dag, hömluðu allri þróun og framförum.
Ég held að við séum stödd á hnignunarskeiði heimsveldis. Mannleg hugsun, eins og hún er stundið í dag, stendur allri vitsmunalegri þróun fyrir þrifum. Alveg eins og þegar kirkjan stóð í veginum fyrir vísindauppgötvunum á hnignunarskeiði alveldis síns í lok miðalda.

Þetta er nú bara tíser.
Verður betur útlistað í Stóru bókinni um heimsveldin sem ég ætla að skrifa þegar ég verð búin með doktorsritgerðina.

Þetta rant endaði með því að fjalla afar lítið um konur.

Til hamingju með afmælið, Ármann.