14.9.07

Betri dagur

Freigáta var miklu hressari á leikskólanum í dag, og var víst bara svaka dugleg að leika sér. Rosalega fínt að fara í bumbusundið í þessu leikskóladrama, í mínum bekk eru allavega þrjár konur sem vinna, eða hafa unnið, á leikskólum. Þær segja allar að þetta lagist bráðum og að barnið muni ekki bíða nokkurt tjón á sálu sinni. Sem er nú léttir að vita. Enda var hún bara öskrandi kát þegar ég sótti hana í dag. Nýbúin að stofna til hópverkefnis þar sem börnin voru búin að raða bollastelli í langalanga röð á gólfið.

Sjálf var ég hins vegar alltof löt í dag. Lærði næstum ekkert, svaf bara og haugaðist í morgun, og er einmitt núna að skammast mín. Hins vegar er bót í máli að Rannsóknarskip er á fylleríi, Smábátur í láni og hin röðunarsjúka Freigáta sofnuð, svo nú gæti ég alveg farið að læra... Ef það væri ekki alveg að fara að byrja Law & Order.

Annars er Freigátan farin að sýna takta í þá átt að verða talsvert húslegar sinnuð en móðir hennar. Hún leggur á borð, setur í og tekur úr þvottavélinni og vill mjög gjarnan fá að hjálpa til í uppþvottavélinni líka. Verst að hún verður óstjórnlega sár þegar verkefninu er lokið.

Mér finnst alltaf jafnfyndin auglýsingin þar sem Indra er að tala um Ellur úti í bæ sem blogga um ekkert. Ég hef nefnilega grun um að hún lesi stundum mitt. Allavega minntist hún einhvern tíma á það. Og það er nú líklega vandfundið blogg sem fjallar um færra. Hins vegar finnst mér alveg hundskemmtilegt að lesa sjálfa mig aftur í tímann, stundum. Og stundum þarf ég að fletta uppá einhverju. Þannig að ég held ég sé ekkert að fara að blogga minna. Eða innihaldsríkara.

Erfiðir dagar

Auðvitað voru fyrstu dagar Freigátunnar svo lygilega skemmtilegir að einhverntíma hlaut að koma bakslag. Og það kom í þessari viku. Hún komst bara í leikskólann fyrst í gær og var ógurlega lítil í sér allan daginn og grét bæði þegar ég fór og kom aftur. Svo var hún alveg í syngjandi stuði í morgun, alveg til í að fara í leikskólann og inn á rólóinn, en um leið og við komum inn snerist allt á hvolf og aðskilnaðurinn varð ógurlega dramatískur.
Ég er nú samt að vona það besta. Sæki hana seinnipartinn og vona að þá verði þetta orðið eitthvað aðeins skemmtilegt.

En þetta er sem sagt annar dagurinn sem ég er bara heima að læra (og ganga frá öllum þvottinum) meðan allir hinir eru í skólunum sínum. Og í dag ætla ég sko í bumbusund! Búin að missa af því síðan einhvern tíma í ágúst, svo í dag skal bumbusynt, hvað sem það kostar. (Styttir líka kannski aðeins tímann sem ég þarf að bíða með hjartað í hálsinum eftir að geta farið að sækja Freigátuna.
Aukinheldur hef ég huxað mér að læra slatta (aldrei að vita nema önnur flensa verði komin eftir helgi) og húsverka smá. Og þvo þvott. Og urlast ef það kemur rigning.

Svo er ég einstæð móðir í dag. Ofvirka djammliðið á vinnustað Rannsóknarskips er að fara með hann í óvissuferð.
Enda er hann búinn að vera svo duglegur á alla kanta, í vinnunni og heima hjá sér, að hann á nú aldeilis inni fyrir því að lypta sér upp.

Bezt að fara í Moliere. Lesa Tartuffe. Það er svo nostalgískt.

12.9.07

Karma

Af ástæðu sem ég ætla ekki að nefna (til að forðast meiðyrðamál) get ég ekki sagt að ég hafi lært bókmenntasögu né bókmenntaritgerðir í BA náminu. Sem á þó að vera algjör skylda. (Hlustaði í staðinn á samhengislaust röfl um að þessi fög væri ekki hægt að kenna auk einhvers kjaftæðis um hesta og hófa og múrsteina og lím. En förum ekki nánar út í það.)
Fyrir skemmtilegheit örlaganna er ég síðan núna annars vegar að taka þátt í að setja saman safnrit sem á að verða kennslubók í Bókmenntasögu (sem engum á að verða skotaskuld úr að kenna) og svo er ég að taka námskeið sem heitir Ritstjórn og fræðileg skrif sem fjallar um, jú mikið rétt, samsetningu fræðilegra ritgerða um hvað sem vera vill. Núna, 10 árum síðar, er alveg að fara að verða að marka BA gráðuna sem ég er búin að vera að þykjast vera með.

Mér finnst ég ekki vera í sama háskóla og mér hálfleiddist í hérna áður fyrr. Það var óvart smá bil í hádeginu og ég skrapp í Odda og lærði smá á kaffistofunni. Það var fullt af fólki þar og svo komu tvö pör og sýndu búgívúgí, sem átti einmitt að hefjast námskeið í um kvöldið.
Ég varð þungt huxi.

Mikil djöfuls svakaleg gelgja hef ég nú verið þegar ég var í BA-náminu mínu. Í þá daga hefði ég umsvifalaust afgreitt þessi tvö indællega útlítandi pör sem dönsuðu á kaffistofunni sem "venjuleg" og líklega fitjað upp á allt andlitið. Sett undir mig hausinn og haldið áfram að tala ekki við neinn. (Núna myndi mig dauðlanga á þetta námskeið, með Rannsóknarskipi, ef ég væri ekki svona bandólétt.) Ég skoðaði strákana sérstaklega. Með mínum miðaldra og harðgiftu augum sem líta núna unga karlmenn frekar augum tilvonandi tengdamóður en nokkuð annað, virtust þetta eigulegustu menn. Sætir og skemmtilegir með fjölbreytt áhugamál.

Siggu Lárunni í BA náminu hefði þótt þeir vera öjlar. Þessi leðurklæddi og skítugi sem sat með fyrirlitningarsvip úti í horni og skalf af brennivínstremma hefði hins vegar líklegast virkað alvarlega spennandi.
Það er líklega kominn tími til að játa. Ég var fáviti þegar ég var yngri.

Líklega er ég það ennþá, sé það bara seinna. En ég vona að ég sé eins og viskíið og fara skánandi með aldrinum.

Ég skoðaði fólkið. "Venjulega" fólkið. Ég er löngu búin að fleygja þeirri skilgreiningu út í hafsauga að sumir séu eitthvað venjulegri en aðrir. Hvað þá að fólkið sem ég þekki sé merkilegra/óvenjulegra en annað fólk. Mér finnst maður alltaf komast að einhverju stórmerkilegu og skrítnu um leið og maður fer að tala við fólk. Og þeir sem eru venjulegastir í útliiti koma manni yfirleitt mest á óvart.

Ég held að á BA árunum hafi ég verið alveg stútfull af fordómum gegn næstum öllum. Enda talaði ég næstum ekki við neinn, í öll þau þrjú ár, og passaði mig að sjóndeildarhringurinn víkkaði nú sem minnst.

(Meirihlutann af MA náminu var ég á geðlyfjum. Ég man fáránlega lítið eftir þeim tíma. Þegar ég var að skoða hvaða kúrsa ég hefði tekið rak ég upp stór augu. Suma rámar mig ekki einu sinni í. Í framhaldinu fór ég að reyna að rifja upp annað frá þessum tíma. Hvaða leikrit voru í gangi í Hugleik, til dæmis. Það er í ótrúlega mikilli þoku. Það sama á við um lyfjaða tímann í fyrravor. Mér krossbrá við að átta mig á þessu. Geðlyf eru óminnisgambri andskotans.)

Núna finnst mér háskólinn vera morandi í spennandi fólki og allskyns áhugamálatengdu. Er m.a. búin að fá fjöldapóst frá Stúdentaleikhúsinu. Hefði mætt á upphafsfund á mánudaxkvöldið, hefði ég ekki verið á leikstjórnarnámskeiði,

En nú er komið babb. Þar sem ég vandi mig svona rækilega á að tala aldrei við neinn í gamla daga, þá kann ég ekki að tala við ókunnuga. Sit frekar á kaffistofunni, við borð hjá haug af fólki, sem allt er ókunnugt hver öðru og samt að tala saman, og blogga um hvað mig langar að tala við það.
Þetta kemur kannski.

Best að fara lengst niður í kjallara og fara að horfa á hana Ólínu Þorvarðar sem talar frá Ísafirði.

PS: Lagði mig fram um að tala við fólkið sem var með mér í öllum námskeiðum, í pásunum. Því ókunnugri því betra. Svo talaði ég líka slatta í tímum. Allt að koma.

Ég er með lausina á stafsmannamálum leikskóla!

Byrja þarf á að flensusprauta allt starfsfólkið.
Svo verða leikskólarnir bara að leyfa börnunum að koma til sín, allt í lagi þó þau séu allt of mörg. Þau eru hvort sem er aldrei á leikskólanum nema tvo til þrjá daga. Svo eru þau komin með hor og hita og þurfa að vera heima hjá sér það sem eftir er vetrar.
Og þá ætti starfsfólkið aldrei að vera of fátt fyrir þessa örfáu sem mæta.

Freigátan var orðin góð af síðustu pest í gær, en er í dag komin með nýja. Sem byrjaði í nótt.
Þetta fer nú að verða svolítið þreytandi.
En ynnnndislegu samkennararnir hans Rannsóknarskips ætla að kenna fyrir hann eitthvað, svo ég kemst allavega eitthvað í skólann. Sem er dásemdarsnilld. Ég get þó allavega verið þar, þó ég verði frekar sofandi og með slæman hárdag...

Spurning hvort Pingu getur passað á meðan ég þvæ mér aðeins um hausinn...?
Guð blessi sjónvarpið og DVD-ið.

11.9.07

Eitt og annað


Þáer lox farið að glytta í ljúfa skólalífið sem ég var búin að skipuleggja mér fram að áramótum. Eftir frekar svefnlitla nótt vaknaði Freigátan fyrir allar aldir, ljónhress og næstum hitalaus. En nú er komið að taugaáfallinu sem verður sennilega viðvarandi suma þriðjudaga, þegar allur skólinn er á miðvikudögum. Einhvern veginn þarf ég að klára að lesa heilan haug og mynda mér skoðanir á því hvað ég vil halda fyrirlestra um, gera útvarpsþætti um og skrifa innganga að, hægri og vinstri, fyrir morgundaginn. Með frekar pirraða Freigátu með innilokunarkennd klifrandi upp á haus á mér. Það mætti nú segja mér að þetta verði einfaldara ef hún verður einhverntíma óveik og í leikskólanum á þriðjudegi. Og það hjálpar líka til þegar ég verð orðin alla jafna horlaus í hausnum og hætt að þurfa að ganga með lítið og veikt grey um gólf á nóttunni og mestallan daginn.
Það er svona að vera orðinn illu vanur. Nú er ég farin að sjá framtíðina í algjörlega rósrauðum bjarma.


Örlítið um Ofurlitlu Dugguna. Rannsóknarskip var eitthvað að klappa mér á bumbuna um daginn og ég sagði:
- Er þetta strákur eða stelpa? Segðu það sem þér dettur fyrst í hug!
- Stelpa.
- Og hvað heitir hún?
- Gyða.

Og svo er hann líka alveg viss um að nýja barnið fæðist 28. janúar, eins og Freigátan. Ég held kannski að Rannsóknarskip haldi að hún endurfæðist bara og verði mjög hissa þegar það kemur eitthvað alveg nýtt og öðruvísi barn. Sjálf er ég að vonast eftir örsnöggri og þægilegri fæðingu með barni sem sefur óstjórnlega mikið og er eins og móðir Rannsóknarskips segir hann hafa verið, getur bara setið og spekúlerað í höndunum á sér, tímunum saman. (En ég geri mér svo sem engar vonir um annað en annað síhoppandi prílidýr. Enda er Freigátan nú frekar fullkomin eins og hún er.)

Nýjar myndir eru alltaf á leiðinni. En ég finn ekki myndavélasnúruna. Sem er hálfgerður dragbítur. Frakklandsmyndirnar eru líka alltaf á leiðinni í vefalbúm. Hér eru sýnishorn.

10.9.07

Bleh

Þetta ætlar ekkert að taka enda. Freigátan fékk aftur 40 stiga hita í gær og var voða lasin í nótt svo í dag er ég með augnlokin á hælunum. Hún er hins vegar orðin langleiðina hitalaus og virðist ætla að sofa á sitt græna í dag.

En mér sýnist ég nú alveg ná að klára heimavinnuna mína og allt lítur út fyrir að sú stutta verði orðin leikskólafær á miðvikudaginnm og þá sleppur þetta nú til án mikillar vinnuröskunar. (Mikið svakalega er Bandalagið heppið að ég er hætt að vinna á því. Ég væri ekki búin að vera starfsmaður mánaðarins...) Rannsóknarskip fór í vinnuna í dag og lætur vel af sér, bara. Og Smábátur er stálsleginn og þarf að mæta heim til sín í maraþonpíanóæfingar eftir skóla.

En mikið nenni ég ekki að vera að fara að greina greinar. Zzzzzz.

9.9.07

Te og treflar

Í gær var haldinn te og trefladagur hér á Ránargötunni. Við Rannsóknarskip ennþá úldin og Freigátan með hósta. Allir voru inni, skiptust á að sofa og hafa það ofurrólegt. Er ekki frá því að þetta hafi virkað ágætlega fyrir mig, en Rannsóknarskip er enn frekar druslulegur. Þykist samt ætla að kenna einhverjum eitthvað á morgun. Og þær fréttir bárust að norðan í gær að Smábáturinn væri kominn með hálsbólgu og sleppu. Svo sem ekki við því að búast að hann slyppi, greyið. Svo það verður líklega te og trefill á hann í vikunni.

Var að koma úr Hugleiki, var verið að lesa Heljarslóðarorrustu eftir Benedikt Gröndal, sem ég var búin að kötta soldið og peista. Gaman að því, en ég mátti ekki vera að því að hlusta á hin leikritin, þar sem ég þurfti að drífa mig heim, huxa um lasna fólkið og taka á móti gestum. Siffi bróðir minn og frú eru á leiðinni, en þau eru á leið úr landi á morgun. Þau ætla til London að mennta sig í einhverskonar fjármálum. Það er sumsé ekki bara litla fjölskyldan sem er í menntakerfinu, stórfjölskyldan er líka mikið í því.

Gott að fá svona gesti. Við Rannsóknarskip tókum meira að segja pínulítið til!
Bezt að hella uppá.