14.8.09

Paunk!

Ég fór á tónleika í gær og er enn í hálfgerðu hamingjulosti. Maður veit svosem ekki hverju maður má eiga von á þegar maður fer á endurkomutónleika hjá menntaskólaböndum (úr annarra manna menntaskólum og fyrir manns tíð) sem maður þekkti bara tvö lög með þegar maður var einhversstaðar mjög snemma á táningsaldri. En endurkomutónleikar Mosa frænda, Grámosinn gólar, komu gríðarlega skemmtilega á óvart og fóru satt að segja bara fram úr mínum björtustu vonum.

Auk smellanna tveggja, Kötlu köldu og Ástin sigrar, spilaði bandið nokkur frumsamin lög í léttpaunkaðri taktinum og paunkaði svo ábreiður á nokkur eldri lög. Innlend sem erlend. Það er erfitt að lýsa því hvað nákvæmlega var svona mikil snilld. Bandið var mjög þétt og flutningurinn flottur, ég þekki ekkert hvort þessir strákar eru eitthvað að spila tónlist að staðaldri núna, en þeir eru allavega búnir að æfa sig geðveikt, ef þeir hafa ekkert gert síðustu 20 ár. Og svo var það bara sviðsframkoma og... allt.

Sigurður H. Pálsson sýndi á sér paunktrýnið. Það er rooooosalegt. Sigurður H. Ofurpaunk verður látinn brúka þetta í Hugleiknum í náinni framtíð. (Hugmynd kom upp um að setja upp Sid and Nancy.)

Kringum hrun heyrði ég einhverjar smávægilegar deilur um hvort paunkið "kæmi aftur" í einhverri mynd. Þeir sem upplifðu á sínum tíma fitjuðu uppá trýnin og töldu ólíklegt...yrði aldei nema lélegar eftirlíkingar, og hvaðha, en nú 2007-uðu þeir í Mosanum aðeins inn í einhver lög sín... og það virkaði. Talaði virkilega til fáránleika ýmiss í ástandinu. Líklega heitir það eitthvað annað, en ég hugsa að íslensk tónlist eigi eftir að verða reiðari á næstu árum. (Þá er ég ekki að tala um Bubba Morthens. Heldur nýtt fólk.) Og það mætti segja mér að áferðarfegurð vannillu undanfarinna ára léti eitthvað undan síga. Jafnvel mikið.

Ætli tími Mosa frænda sé ekki bara kominn?
En þeir ætla víst ekki að spila aðra tónleika.
Sem þýðir að við sem eyddum þúsundkalli og kvöldstund í þessa upplifun erum þvílíkt forréttindapakk.

Takk fyrir mig, Mosi frændi.
Hvíl í friði.

13.8.09

Kisur og loðfílar

Þá er að ljúka síðsumarsskítmoxtri á heimilinu. En eftir sumarútlegðina er jafnan þörf á endurskipulagningu á ýmsu innan heimilis sem og almennum þrifum. Þetta árið hefur Rannsóknarskip verið geymdur niðri í geymslu hvar ég held að hann hafi farið í gegnum hvern einasta kassa, hent og hirt, og svo höfum við hérna uppi sett ennþá meira í kassa sem þurfa að komast í geymsluna hvað sem tautar. Svo hefur líklega svona hálftonni verið hent. Þetta ætlar að hafast á mörkunum. Smábátur kemur í kvöld og við fáum næturgest á morgun. Þá ætti allt að vera orðið spikk og span. Ja, allavega fært um alla íbúð.

Annars er helst í fréttum að Hraðbátur hefur tekið bíla- og boltadelluna og gengur svaka vel í aðlögun á leikskólanum. Hann svaf þar miðdegislúr í dag, og gekk það víst eins og í lygasögu. Þessa dagana eru öll dýr kisur hjá honum, nema hestar. Freigátan brúkar hins vegar ímyndunaraflið út um gluggann og íslensk húsdýr verða gjarnan loðfílar, hreindýr og risaeðlur í hennar frásögn.

Jæja! Skúra!

10.8.09

Það mætti halda að maður væri með ástandið á heilanum

miðað við undanfarnar færslur. Þá er kominn tími til að taka upp léttara hjal og segja fréttir af fjölskyldunni. Hún segir farir sínar misjafnlega sléttar. Fljótlega eftir heimkomu tók Móðurskipið pest sem vel má vera að hafi verið svínaflensan sem kennd er við Mexíkó. Sú var fljót í förum en skildi eftir sig andnauð nokkra sem við hefur verið brugðist af læknamafíunni með ávísun á tvenns konar meðöl, til gleypinga sem og innöndunar. Aðrir heimilismenn áttu svo í þessu um helgina, en voru sneggri að. Rannsóknarskip lá flatur í tvo daga og spilaði svo golfmót. Litlu ormarnir fengur smá hor og oggulítinn hita og voru ekkert sérlega ánægð með að vera höfð innandyra, föstudag til sunnudags.

Móðurskip hefur fengið ströng fyrirmæli um að fresta öllum hlaupum þar til astmi og bronkítis hefur látið undan síga og ku eiga að vera á sterum fram yfir maraþon. Vona bara að ekki verði gerð lyfjapróf. Hefi huxað mér rækilega út að hlaupa á morgun. Við þessari pásu í líkamsræktarátakinu hef ég brugðist með því að drekka Herbalife í tvo þriðju mála. Mér sýnist ég enn léttast, þrátt fyrir hreyfingafrí.

Freigátan er komin aftur í leikskólann og Hraðbáturinn er svakalega kátur í aðlögun á Sólgarði. Í dag var fjórði dagur aðlögunar og hann var ekkert endilega á því að koma með heim þegar ég sótti hann. Var bara búinn að borða vel, með fisk í hárinu og nennti ekkert að tala við mig þegar ég kom. Meðan hann var að aðlagast fór ég loksins og sótti formlega um doktorsnámið ógurlega. Þarf að redda smá meiri pappírum og undirskriftum á morgun en svo fer þetta fyrir deildarstjórn, einhverntíma seinna í mánuðinum. Stuð. Ég laumaðist líka til að skoða aðstöðu doktorsnema í Gimli. Hlakka óskaplega til að fá skrifborð og hillur þar. ("Skrifstofan" í horninu á dótaherberginu er einhvern veginn... orðin falin undir draslhaug fyrir löngu.)



Smábátinn endurheimtum við á fimmtudag og Rannsóknarskip fer að vinna á mánudag. Smábátur hefur nám í skóla Haganna viku síðar. En áður en nokkuð af þessu gerist þarfnast heimilið talsverðrar yfirhalningar, tiltektar, þrifs og endurskipulagningar. Planið er að henda ótrúlega miklu.

Svo var verið að hlaða inn myndum úr seinnihluta sumarleyfis. Þær eru nú svo ógurlega margar flottar að ég held ég verði að setja góðan slatta inná fésið. Og slatta hér.

Þessar flottu peysur prjónaði amman fyrir austan í sumarfríinu.

9.8.09

Lán eða ólán?

Svo við þurfum að taka himinhá lán til að eiga "sjóð" til að aðrar þjóðir haldi að óhætt sé að lána okkur enn meira, þrátt fyrir að við eigum ekki fyrir skuldunum sem við eigum nú þegar?

Þangað til hvað? Svín fljúga og allir í heiminum gleyma aftur að á Íslandi er peningum ævinlega haldið í sama fjölskyldu- og kunningjahópnum sem er með peningafíkn og klárar þá þessvegna alltaf um leið í vilteysu?

Er það ekki bjartsýni?

Væri ekki nær að reyna að sýna smá hyggindi frekar en að ætla að redda málunum með "klókindum" meiri lántökum og ævintýramennsku?

Éld við séum endanlega á leiðinni í skítinn með Alþjóðagjaldeyrissjóðsruglinu.