15.10.05

Rökheimskan og pedófílarnir

Ég man ekki hvort ég var einhvern tíma búin að tjá mig hér um rökheimskurnar tvær sem mér þykja verstar af öllu. Vegna þess að þær eru iðulega brúkaðar til að afsaka skítshátt. Önnur þeirra er:

Aðrir eru verri.


Þetta brúka menn gjarnan til að afsaka svik sín og pretti, ofneyslu hvers sem er og stundum upp í fáránlegasta skítshátt og lögbrot. Samkvæmt þessari eilífu afsökun er til dæmis allt í lagi þó ég roti og ræni eina gamla konu, einhver annar hefur örugglega rænt tvær.

Mér datt þetta í hug í sambandi við ofanafflettingu af hryllilega fjölskylduníðingnum í Hafnarfirðinum. Maður vonar jú og ímyndar sér að kannski sjái einhverjir pedófílar að sér í allri umfjölluninni, eða verði hræddir við að upp komist, og snúi af villu síns vegar. Einhvern veginn.

Ofboðslega er ég nú samt hrædd um að einhverjir huxi sem svo:
"Qua? Ég misnota þó allavega bara eitt barn, og bara á fimmtudögum. Ég er greinilega næstum ekki að gera neitt, miðað við hann þennan!"

Ég er öll fyrir betrun hvers konar og að gefa ótrúlegustu skítmennum alla sjensa í heiminum. En pedófílum finnst mér eigi að útrýma. Hvernig sem farið er að því. Ef hægt er að einangra pedófílagenið og bólusetja menn við því við fæðingu, þá er það fínt. Fram að þeim tíma þarf bara að...

14.10.05

Mér hefur vaknast skilningur

á gsm síma Rannsóknarskips. Þessa dagana eigum við nefnilega ýmislegt sameiginlegt. Þegar téður sími liggur einhversstaðar hreyfingarlaus og er ekki í notkun, líður honum vel og þykist vera með fullt battrí. En svo um leið og á að fara að brúka hann bípir kvikindið og slekkur á sér alveg undireins.

Svoleiðis er ég núna. Fín ef ég ligg einhversstaðar, helst sofandi, en orðin battríslaus um 5 mínútum eftir að ég rís. Sennilega var það alveg hárrétt sem frú Ringsteð sagði, snemma í ástandinu, mar er orðinn alltof gamall til að vera aððessu.

Og, þrátt fyrir allar yfirlýsingar um hollt mataræði, virðist mig farið að skorta flest. Aðallega blóð. Þarf að taka járn. Vantar líka kalk, en kalkríkan mat má ekki borða neitt nálægt járntökum. Heldur ekki brjóstsviðalyf. Og allir sem ég tala við eða les eru hver ósammála öðrum um ágæti mjólkurvara. Þannig að þetta er svolítið ruglandi. Og púsluspil.

Annars ég er að léttast, sem ég á örugglega ekki að vera að gera, en lítið við því að gera þar sem allt sem er járnríkt er einstaklega ófitandi. Og svo er heldur ekkert pláss fyrir sérstaklega mikinn mat innra með mér núna. Þar er allt undirlagt af öðru fólki sem stundar mikla líkamsrækt. Þessutan kann ég ekki að éta á meðan ég sef. Sem er næstum alltaf. Og svo þykjast menn geta étið á sig spik í þessu ástandi.
Svo ég vitni aftur í frú Ringsted: I don't get it.

13.10.05

Sögur úr vöðunni

Í Grindhvalasundi heyrir maður margt skrítið og misheimskulegt.

Eitt hef ég reyndar ekki bara heyrt þar. Heldur annað slagið og út um allt. Og mér finnst þetta alltaf jafnfurðulegt. Það er bábiljan:

Þegar maður er óléttur má maður borða eins og maður vill.

Ehemm. Það er svo margt undarlegt, rangt og heimskulegt við þessa setningu að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.

Í fyrsta lagi man ég ekki til annars en að ég hafi mátt borða eins og ég vil frá því einhvern tíma síðla barnsaldurs og þangað til, einmitt, ég varð ólétt. Þá þóttu mér nú koma hömlur á flest. Allavega á ég erfitt með að borða allt sem ég vil ef ég á að sneiða hjá salti og sykri. Þá er nú flest gott horfið af matseðlinum. Þó maður megi vissulega troða í sig eins og maður hefur lyst til af hráu spínati... sé bara ekki sérstaka ástæðu til að fagna því.

Það sem ég þykist vita að verðandi mæður sem tala svona séu að meina, sé hins vegar að þær fitni hvort sem er og þess vegna "megi" þær éta eins og þær geta í sig troðið af súkkulaði... að eigin áliti. Og láta löngun um að kýla eigin vömb verða tilmælum um æskilegt mataræði yfirsterkara. En ég verð nú bara að viðurkenna að ég get alveg étið skynsamlega í nokkra mánuði til þess að afkomandinn þrói með sér hluti eins og miðtaugakerfi. Og finnst það ekki einu sinni til neitt sérstaklega mikils mælst.

Undanfarið hef ég líka tekið einstaklega mikið eftir því hverjar í vöðunni eru með hringi og hverjar ekki. Komst reyndar svo að því að það er ekkert að marka það, þar sem margar eru þær með ólétta og feita putta og hafa þurft að taka þá af sér. Eins og ég þarf örugglega bráðum. Og svo heyrir maður líka tragedíur.

Ein hringlaus, sem leit út fyrir að geta verið dóttir mín, fór um daginn að tala um hvað væri gott að koma í sundið, hún hefði nefnilega eiginlega ekki hitt neinn dögum saman. (Ég var einmitt byrjuð að þróa með mér fordóma og fuss gagnvart kjeeellingum sem gætu ekki einu sinni þagað í leikfimitíma, en fattaði svo að fullt af þessum stelpum eru löngu kyrrsettar og hitta aldrei neitt annað fólk. Og skammaðist mín.) Allavega, einhverjar stúlkur voru að spjalla við þessa áðurnefndu og upp úr dúrnum kom að hún hafði verið ein eiginlega alla helgina, þar sem... "æi... kærastinn hennar (whatshisname) hafði aðeins skroppið að hitta vini sína á föstudegi og komið aftur á sunnudegi". Einhverjar vanþóknunarraddir risu nú upp í kringum stúlkuna en hún sagði, manni sínum til varnar: "Æi, honum finnst bara svo leiðinlegt að vera heima þegar ég þarf alltaf að vera að biðja hann að gera eitthvað..."

Það sló eiginlega þögn á pottinn. Mig langaði mest til að taka stelpugreyið með mér heim, þvo framan úr henni maskaraleifarnar, ættleiða hana og handrota svo vesalinginn sem barnaði hana.

Það er margt í mörgu.

12.10.05

OJ!

Í gærkvöldi var ég í fyrsta skipti með geðveikt feita ökkla af bjúg.
Ég sé líka í botninn á naflann á mér og finnst næstum meiri viðbjóður.

Eins gott að það er búið að trúlofast mér...

11.10.05

Í gærkvöldi

spurði Árni mig hvort ég vildi giftast sér.
Og ég sagði já.
Og fór næstum að grenja úr rómantík.

En segið mér nú, fólk sem hefur verið trúlofað, ég veit að giftingahring hefur maður á vinstri baugfingri, en trúlofunar? Er það eins? Eða er hann kannski á hægri til aðgreiningar?

10.10.05

Árið


Nú er liðið akkúrat 1 ár frá því að við Rannsóknarskip hófum samvistir. (Tæknilega séð var það reyndar einhvern tíma síðastliðna nótt sem einmitt ár var frá fyrstu samdráttum, á fylleríinu á Papaballinu.) Reyndar höfum við meirihluta þessa tíma átt í fjarskiptasambandi, að miklu leyti, en það kom nú ekki í veg fyrir að við leggðum í afkomanda. Geri aðrir betur.

Mánuðum saman höfum við spurt hvort annað: Hvað ættum við að gera þegar við eigum ammæli? En ekki höfum við nennt neitt að skipuleggja það. Þannig að sennilega verðum við bara venju fremur væmin og ástúðleg hvort við annað. Svo þarf ég nú bara að fara á stjórnarfund.

En það var sem sagt fyrir ári sem ég sat alveg skelþunn á haustfundi Bandalagsins á Hótel KEA á Akureyri og var að reyna að rita fundargerð. Eigandi kannski kærasta. Vitandi eiginlega ekki hvað sneri upp eða niður á neinu.

Og svo getur verið gaman að skyggnast enn lengra aftur í tímann. Einu sinni vorum við Árni nefnilega næstum búin að leika hjón. Það var í Páskahreti árið 1996, þegar við litum út eins og myndskreytingar sýna. Svo flutti Adda Steina allt í einu til Kazakstan og ég tók við hennar hlutverki sem ástmey ofbeldismannsins Varríusar og Fríða B. Andersen við mínu hlutverki sem eiginkona Rannsóknarskips. Það er kannski þess vegna sem Smábátur er svona líkur henni? Allavega, ári síðar þurfti Árni síðan að þykjast vera skotinn í mér í heilt leikrit. Það fannst honum svo leiðinlegt að hann lék ekki meira með Hugleik. Fyrr en núna. (Eða kannski leiddist honum bara svona mikið að ég skyldi í því leikriti ekki veita honum nokkra athygli heldur vera síslefandi utan í óberminu honum Sævari?)

Þetta tripp niður minningastræti var í boði gagnagrunns Hugleix.

9.10.05

Mánaðarlegt

í Þjóðleikhúskjallaranum sýndist mér fara ljómandi fram. Við Smábátur brugðum okkur í gær og þótti hin besta skemmtan. Og komin er umfjöllun á Leiklistarvefinn, fyrir þá sem af misstu. Í dag er ég eiginlega óvíg eftir, en það er nú í góðu lagi, á hvort sem er ekkert erindi frammúr, get sem best verið kjur hér á meðan ég skrifa graðan prest. Og Rannsóknarskipið hefur verið sent út af örkinni, í rannsóknarleiðangur, til að gá hvort til eru hitapokar í voru samfélagi.

Fór þó örlítið í samfélag mennskra til að taka á móti hálfu höfundagengi Jólaævintýris sem kom við í eldhúsi voru, raulaði fyrir mig nýsaminn upphafssöng og lofsöng skemmtilegheit og hæfileikaríkni leikhópsins, sem eru með eindæmum.

Mikið lifandi skelfingar ósköp og ofboðslega verður þetta nú gott leikrit.

Og þá er ekki eftir neinu að bíða með að skrifa síðasta atriðið sem liggur á mínu teikniborði!