15.3.07

Í morgun

mætti ég frekar úldin í vinnuna. Stjórnarfundur í gærkvöldi og kjaftæði og bjór allt of lengi frameftir eftir það. Vika í frumsýningu, en þá langar mig jafnan að hætta öllu f***ing brölti, fara á námskeið í verðbréfamiðlun og koma aldrei framar nálægt neinu sem endar á -list.

Síminn á skrifstofunni var byrjaður að hringja áður en ég komst inn. Ég furðaði mig. Síminn hætti að hringja áður en ég náði honum. Byrjaði næstum strax aftur. Ég furðaði mig meira. "Hvað í veröldinni getur mönnum legið á, klukkan fimmmínútur í níu?
Ég náði loxins símanum, heyrði erindið, og áttaði mig.

Ofan á alla aðra geðveiki er fyrsti skráningardagur á Skólann í dag!

13.3.07

Hux

Ég er farin að vera í mestu vandræðum með þá félaga Alltaf og Aldrei.
Mér finnst flest gerast stundum.

12.3.07

Rogastanz!

Það hringdi maður sem sagðist, orðrétt, "...langa svo mikið til að lesa Jóðlíf eftir Odd Björnsson."
Við smá leit og skoðun komst ég að því að Jóðlíf eftir Odd Björnsson er UNDIR 10 BLAÐSÍÐUM!

Þessar upplýsingar eru því aðeins merkilegar að maður hafi notið þeirrar vafasömu skemmtunar að vera við hátíðarkvöldverð á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga á Höfn í Hornafirði árið 2000.

Ríkið og tilveran

Þá er komið vorannríki, í vinnu og leikfélagi, sem jafnan hefst uppúr febrúari og lýkur ekki fyrr en eftir aðalfundi beggja. Venjulegast fjarskalega öflugur tími þar sem maður þarf að taka á honum stóra sínum, skipuleggja vel og mæta á marrrrga funnnndi. Síðasta ár var undantekning (ég var í fæðingarorlofi) en þetta ár verður það ekki.

En, ó,ó, þetta árið er eitthvað skrítið í gangi. Alveg flunkunýtt samvisku... ja kannski ekki beint "bit", en eitthvað nart. Mér finnst ég eitthvað þurfa/langa að vera meira heima hjá mér. Mér finnst agalegt ef ég kemst ekki heim í kvöldmat og sé kannski litlu skútuna mína ekkert vakandi frá seinniparti til morgunsins eftir, og þá bara í nokkrar mínútur áður en ég fer í vinnuna. Stundum finnst mér ég missa af allri fjölskyldunni dögum saman. Ekki svo að skilja að Rannsóknarskip kvarti. Enda þarf nú trúlega talsvert til. En ég veit að honum þykir gaman að hitta mig og hann væri sjálfsagt til í að fá meiri hjálp með heimilið.

Áttaði ég mig allt í einu á því að hingað til hafa heimilin mín bara mest lítið kallað á mig. Og menn sem ég hef áður reynt að vera í einhverjum tygjum við, voru því fegnari sem þeir sáu mig minna. Það voru helst vinir mínir á menntaskóla- og háskólaárunum sem söknuðu mín þegar ég hvarf í leikfélagið. En ég gat nú bætt þeim það upp inn á milli.

En nú togast ég og teygist í allar áttir. Mest heim til mín. Og hlakka heilmikið til þegar þessi hrina verður afstaðin og ég get snúið mér aftur á fullu að Aðalhlutverki lífs míns sem Eiginkona og Móðir. Það er nefnilega best.