26.11.10

Aldurinn

Hroðaleg ellimerkin eru farin að láta á sér kræla úti um allt. Eftir nokkra daga við lestur og skriftir á daginn, börn og bú seinnipartinn og leikæfingar á kvöldin er maður bara alveg gjörsamlega kappútt. Tala nú ekki um þegar maður þarf svo að vinna kannski eitthvað aðeins fram yfir miðnætti. Alveg allt ónýtt. Ég man nú þá tíð að svona gátu annir og ár liðið án þess að högg sæi á vatni.

Og hversu gamall er maður orðinn þegar maður nennir eiginlega ekki til Japan? Bara hálfvonast til að öngvir styrkir skili sér svo aðra vikuna í ágúst verði maður bara heima hjá sér í vellystingum sem endranær?
Algjört gamalmenni, ævintýraþrársneytt.
Það er bara alveg ferlega langt til Japan. Og þar snýr líka sólarhringurinn öfugt. Ruglland.

Er samt alveg að verða búin með umsókn um fjármögnun. Ef ég man einhverntíma eftir að leita að númerinu á vegabréfinu mínu.

En ég er Ör Magna. Og þyrfti að vera að gera svo dæmalaust margt. Eftir að föndra aðventukransinn. Veit ekki hver er helst að fara til að kaupa grein. Búin að fara allt of seint að sofa allt of mörg kvöld í röð. Úgh.

Vantar aðstöðu til að leggja sig í vinnunni.

24.11.10

Það sem er óhugsandi

Ég er með alveg mergjaðar harðsperrur eftir fyrstu hreyfinguna í langan tíma sem fór fram síðastliðinn mánudag. En ég held að heilinn í mér sé að verða mjög vel teygður. Einhvern tíma verðum við búin að finna upp heilaleikfimi. Hún felst til dæmis í því að hugsa það sem er óhugsandi.

Það sem er óhugsandi er óhugsandi vegna þess að það hefur aldrei átt sér stað. Mögulega af því að engum hefur nokkurn tíma dottið það í hug. Vegna þess að það er óhugsandi. Margt sem einu sinni var alveg óhugsandi hefur síðan gerst og jafnvel orðið daglegt brauð.

Þess vegna er ekkert óhugsandi.

Ókei?

Nú ætla ég að lesa allskonar sem einu sinni var óhugsandi en menn hafa síðan gert bækur um og er núna hugsanlega mögulegt og verður kannski einhverntíma að einhverju leyti venjulegt.

23.11.10

Læra meira. Og meira.

Jæja. Artaud réttsvo afgreiddist í gær. Hann er nú strembinn. Enda held ég að það séu aukamerkingar í sumum orðunum sem hann notar... en ég nenni ekki að útlista það.
Eiginlega er ljómandi að lesa allskonar mis-abstrakt leiklistarkenningar og fara svo á leikæfingu á kvöldin og hugsa um þær á meðan. Ferlega sniðugt.

Annars gengur ferlega vel að æfa leikritið mitt í Hugleiknum. Það heitir (núna) Helgi dauðans og á að frumsýnast seinnipartinn í janúar. Mér þykja æfingar ganga með eindæmum vel. Langar oft til að segja hið fornkveðna „mikið ofboðslega er þetta gott leikrit,“ en stilli mig þar sem nýliðið sem er að leika í þessu þekki ekki Unni Gutt mjög vel.

Í dag ætla ég að læra gríðarlega vel og lengi. Jafnvel fara í jóga, meiraðsegja. Læra fram að kvöldmat, fara á leikæfingu eftir kvöldmat og skrópa alveg á heimilið. Enda er ég svo geðvond heima hjá mér eitthvað og með endalaust samviskubit yfir að vera ekki í húsum hæf svo ég held að bæði ég og heimilið verðum alveg guðslifandi...

Það sést ekkert í skrifborðið mitt fyrir drasli. Lítur út fyrir að ég sé að gera miklu meira en ég er. Sem er kannski bara ágætt. Ég ætlaði alltaf að gera borðið mitt eitthvað „persónulegt.“. Hengja upp myndir og/eða eitthvað merkilegt á veggstubbana í kringum borðið mitt og svona. En ég hef bara ekki gert það. Ég gerði reyndar merkisspjald, á fyrstu dögunum mínum hér. Hafði fyrir að fara með það upp á Bandalag og plasta það og allt. En fyrir utan nokkra post-it með deddlænum er það það eina sem hangir. Allt hitt er eitthvað drasl og bækur sem liggur allt í haugum. Sem má svo sem alveg færa rök fyrir að sé minn stíl...

22.11.10

2. í ofurstresskrumpi

Ekki virðist geðvonskan ætla að láta undan síga alveg strax. Allavega var mjög erfitt að díla við börnin í morgun. Það er eitthvað við ástand ofurstresskrumps að því fylgir mjög aukinn einhverfustuðull og erfiðleikar við að fást við mörg áreiti í einu. Og það er svo merkilegt að tvö börn geta haldið úti allt að 10 mismunandi áreitum alveg á sama tíma.

Svo mikið var nú óvenjulega gott að skilja þau eftir á leikskólanum í morgun. (Og þau voru jafnfegin að losna við pirruðu-mömmu.)

Annars er helst í fréttum að nú er mig farið að langa ansi hressilega til að losna við þessi 8 kíló sem eru eftir í staðlaða þyndarstuðlunarmarkmiðið sem ég er búin að einsetja mér. (Með réttu ellegar röngu.) Fyrsta skrefið er að komast loksins í leikfimi í dag eftir hálfsmánaðar veikindafrí frá allri hreyfingu. Jafnvel er smuga að einnig verði reynt að komast í jóga í vikunni (svona til að jafna geðið) og hlaupa svo vel og rækilega og langt um næstu helgi. Þegar ég hugsa um það þá á veikindatengt hreyfingarleysi örugglega heilmikinn þátt í geðkrumpinu.

Í þessari viku liggur aðallega fyrir próflestur. Prófið er í þarnæstu viku en sú næsta verður eitthvað frekar geðbiluð, þannig að þetta er vikan sem hlutirnir þurfa að lærast, sem mest. Annars vegar póstdramað og hins vegar allt hitt.

Og nú ætla ég að lesa um Leikhúsið og Tvígengil hans eftir Antonin Artaud.
Af því að það er svo gaman.

21.11.10

Ofurstresskrump

Það er gífurlegt stuð að hafa kvíðaröskun. Suma daga er svo gríðarlega mikilvægt að allt sé nákvæmlega eins og maður var búinn að ÁKVEÐA og að ekkert TRUFLI mann að það er eiginlega bara best að fara í vinnuna. Aumingja fjölskyldan hefur ekkert til saka unnið. Og mamman með ofurstresskrump er hreint ekkert skemmtileg.

Það heyrast líka allskonar hljóð í kringum heimili manns á sunnudögum. Þ.e.a.s. ef maður skyldi nú heyra eitthvað fyrir börnum í leikskólafráhvörfum. Þá ætla nágrannarnir víst eitthvað að fara að voga sér að eiga líf.

Í vinnunni er hins vegar alveg grafarþögn. Allavega minni. Allt nákvæmlega eins og ÉG ÁKVEÐ að hafa það.

En það væri svo sem gaman að vera í Húsdýragarðinum... með börnin, hlaupandi í sitthvora áttina endalaust og grenjandi yfir öllu sem má ekki og öllu sem þau eru of lítil til að gera...
Nei annars. Það væri eiginlega alveg hreint ekkert gaman og ferlega heppilegt að eiginmaðurinn er haldinn Ofurstresskrumpi, heldur hefur jafnaðargeð englanna.

Ofurstresskrumpið þarf að komast út um eyrun. Það gerist ekki nema með algjörri grafarþögn.

Ég ætla að hlusta á þögnina meðan ég les.