13.3.04

Þá er komin, tjah, eiginlega vanhelgi. Stjórnarfundur hér á Bandalaginu í dag, og ef við náum ekki að klára hann, líka á morgun, sýningar hjá Hugleik í kvöld og annað kvöld... og svo verður bara aftur kominn mánudagur. Svona á þetta að vera, annars eru helgar svo gjarnan leiðinlega gagnslaus tími. (Sérstaklega fyrir fólk sem á að vera að skrifa ritgerðir og leikrit og nennir því ekki.)

Fór á frumsýningu hjá Leikfélagi Kópavogs í gærkvöldi á leikritinu "Smúrtsinn" í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar. Það var algjör gargandi öskrandi snilld á alla kanta, frábær leikhópur, skemmtileg nálgun á þessu klikkaða verki, flott útlit, tónlistarnotkun, lýsing og bara hvergi brotalöm. Félaginu og heiminum öllum til algjörs sóma. Þar fyrir utan finnst mér Hjáleigan í Kópavogi vera einn skemmtilegasti leiksalur sem ég hef séð. Svartur ferkantaður kassi, ekki of stór, sem er síðan hægt að snúa og gera við hvað sem hvur vill. Næst þegar ríkisstjórn Íslands fer á málamyndaflipp og ætlar að ausa peningum í húsbyggingar um allt land (til að komast hjá því að styrkja starfsemina af einhverju viti til frambúðar) finnst mér að öll starfandi leikfélög ættu að fá eitthvað svipað til umráða.

Búið að auglýsa skólann góða í Svarfaðardalnum. Skemmst frá því að segja að eitt námskeiðið fylltist á um 6 klukkutímum eftir að opnað var fyrir skráningar. Þar af leiðandi þarf sennilega eitthvað að endurskoða skráningafyrirkomulag þar sem ólíklegt er að allir bæklingar í "sneilmeil" hafi verið komnir til skila. Þetta er hins vegar alveg splunkunýtt vandamál, eftir því sem ég best veit, síðast þegar ég var að vinna hérna þá vorum við nú yfirleitt frekar að naga á okkur neglurnar yfir því hvort lágmarksþátttaka næðist, og stundum fram yfir umsóknarfrest. Reyndar eru 3 námskeið af 4 sem við getum verið í þeim pakka yfir. En svona er þetta, það er greinilega tískan að vera trúður.

Og ég er mjööög upptekin af því þessa dagana að vera 29 ára. Enda eins gott að nota tímann!

10.3.04

Á bara að vera rok og rigning það sem eftir er eilífðar? Eða hvað? Allavega búið að vera síðan elstu menn muna og sér ekki fyrir endann á ólátunum. Ég vissi ekki að það væri til svona mikið loft og vatn.

Annars, rólegheitin sem átti að bresta á með eftir frumsýningu urðu ekki, eiginlega bara galið að gera á öllum vígstöðvum. Skólabæklingar fyrir sumarið að fara í póst, Leikfélag Hafnarfjarðar að fara á fullan skrið (var einmitt á leikæfingu þar í gærkvöldi þegar formaður Leikfélags Fljótsdalshéraðs hringdi í mig í misgripum til að boða mig á stjórnarfund hjá því ágæta félagi. Maður getur alltaf á sig blómum bætt...) Helgin stefnir í skemmtilegt óefni, frumsýning hjá Leikfélagi Kópavox á föstudaxkvöld, stjórnarfundur hér á Bandalaginu á laugardag og sýningar hjá Hugleik laugardax og sunnudaxkvöld. Á milli alls þessa mjakast ritgerðin, hægt og sígandi, en hún á einmitt að skilast í uppkastaformi á mánudag.

Og ég er ekki ennþá búin að koma heimaprjónuðu afmælisgjöfunum á afmælisbörnin frá í desember og janúar. Þarf að búa til tíma til að hitta keeellingarnar mínar einhvern tíma áður en þetta ár er úti.

Sipp og hoj...

7.3.04

Stalst í vinnuna til að prenta aðgöngumiða fyrir Hugleik, hélt ég væri á fínum tíma þangað til ég komst að því mér til mikillar skelfingar að úrið mitt er stopp.

Er þar að auki skelþunn eftir alltof skemmtilegt kvöld með Vinum Dóra.

Semsagt, sýning í kvöld, sem ég er að verða of sein á, rok og rigning úti, verður stuð að þvælast í kringum Tjarnarbíó í skjóllitla búningnum mínum.

Mottó þessarar sýningar er: Allir í beina röð og reyna svo að bjarga handritinu!
A la leikdómur Lárusar á leiklist.is. Það ætlum við einmitt að fara að gera núna.

Skemmtilegir og misjákvæðir leikdómar virðast vera að skila fínni aðsókn, og það er nú gott, Hugleikur er blankur.

Rokk on!