Um helgina var hin árlega höfundalest á Austurlandi og hélt upplestra á nokkrum stöðum. Þeir sem mættu fengu að heyra upplestrana. Enginn fær að heyra viðtöl við þá Að því tilefni. Hrönn Jónsdóttir á Djúpavogi sendi frá út bókina Árdagsblik. Um hana veit ég ekkert nema nafnið. Sennilega eru tónleikar og aðventukvöld í öllum kirkjum núna á aðventunni. Ég sé að það var kveikt á jólatrénu við kaupfélagið um helgina. Og ég held það hafi verið Grýlugleði á Skriðuklaustri. En ég veit svo sem ekkert um þetta.
Um hvernig viðburðir niðri á fjörðum hafa gengið fyrir sig veit ég ekki neitt.
Ég heyri ótrúlegasta fólk láta út úr sér þá bábylju að Ísland sé lítið land. Það er það ekki. Það er risastórt. Það er hins vegar afar sparlega mannað. Á Austurlandi búa um 10.000 manns sem dreifast um risastórt svæði. Það er langt á milli byggðakjarna og oft erfitt yfirferðar á veturna. Það er langt á milli okkar. Og það lengdist talsvert eftir að ákveðið var að loka Svæðisútvarpi Austurlands, RAUST.
Ég fann ekki muninn fyrr en ég flutti aftur austur árið 2012. En munurinn er mikill. Ég veit ennþá miklu meira um menningu og mannlíf á Höfuðborgarsvæðinu þó ég komi þangað sjaldan. Menningarumfjöllun einskorðast við höfuðborgarsvæðið. Sumt á alveg erindi, svo sem. En margt tilheyrir líka Svæðisútvarpi Suð-Vesturlands. Útvarp Reykjavík. Það sem við sjáum af fréttum og menningarumfjöllun af Austurlandi þarf að eiga erindi við landsmenn alla. En hér í samfélögunum í kringum okkur er ýmislegt um að vera sem enginn utan fjórðungsins hefur áhuga á.
Við viljum samt heyra það.
Við viljum samt heyra það.
Hvernig gengur á nýja hjúkrunarheimilinu á Eskifirði?
Hvað er að frétta af Fish Factory á Stöðvarfirði?
Hvernig gengur tónlistarklúbbnum Brján?
Er verið að veiða einhvern fisk þarna niðurfrá?
Kom sumarið sæmilega út fyrir Borgfirðinga?
Af hverju veit ég þetta ekki?
Er það vegna þess að það er svo stórfenglegur sparnaður í því að leggja niður RAUST (sem stóð, er mér sagt, alltaf undir sér með auglýsingatekjum) og hagkvæmni í því að láta útvarpsstúdíóið á Egilsstöðum standa tómt?
RAUST var aldrei fjölmennur vinnustaður. En hann bætti heilli vídd í atvinnulífið á svæðinu. Möguleikanum á því að starfa við útsendingarmiðil. Ég fór í starfskynningu á Svæðisútvarpið. Var seinna með menningarpistla þar í nokkra mánuði. Tók seinna kúrs í útvarpsþáttagerð og gerði nokkra þætti fyrir Rás 1 í framhaldinu. Þetta hefði mér líklega ekki hugkvæmst, hefði ég ekki hafð aðgengi að ljósvakamiðli á svæðinu. Ég gæti vel hugsað mér að starfa meira við slíkt í framtíðinni. Til þess þarf ég að flytja aftur til Reykjavíkur.
Byggðastefna?
Í dag hefði Inga Rósa Þórðardóttir, sem talar ekki framar frá Egilsstöðum, orðið sextug. Hún er í hugum okkar margra holdgervingur Svæðisútvarps á Austurlandi og var okkar útvarpsstjóri lengst af. Inga Rósa kvaddi okkur langt fyrir aldur fram. En öll okkar samtöl síðustu árin snerust um Svæðisútvarpið og ótímabært andlát þess.
Í dag hefði verið viðeigandi að hafa útsendingu til minningar um Ingu Rósu.
En það er ekki hægt.
Stúdíóið á að vera tómt.
Og ljósin slökkt.