19.3.04

Í dag stendur Hugrún systir mín á tímamótum, á hálfs fjórða tugs afmæli. Og það á flöskudegi! Hún er hins vegar stödd í hinni stóru Ammríku á þessum stað í lífi sínu þannig að lítið þýðir að hringja í hana eða senda ímeil. Hvað þá að hún sé einhvers staðar til samdrykkju.
Hún fær því ammliskveðjurnar hér, ef hún skyldi rekast inn á bloggið mitt.

Til hamingju, gæskan, vonandi er gaman í úttlöndum.

18.3.04

Fattaði allt í einu að ég hef ekkert fylgst með því hvað er að gerast í heiminum vikum saman. Hef ekki séð fréttir síðan elstu menn muna eða lesið fréttavefi.
Ákvað að bæta úr því.
Og er ekki búin að missa af neinu.
Hryðjuverkastríðið um allan heim heldur áfram, fólk slysast til að lenda í slysum, fólkið sem þykist stjórna landinu japlar og engar fréttir eru góðar fréttir neins staðar. Þessutan hamast mínir menn í öllum íþróttum við að skíta á sig í hvívetna.

Pfff. Greinilega skemmtilegra í mínum eigin heimi heldur en í þeim almenna. Best að halda sig bara þar.

Æfing hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar í gær. Það var nú skemmtilegt. Til liðs við Hafnfirðinga hefur gengið ungfrú Siggadís og er það nú vel og gott. Næsta æfing á Sunnudaxmorgun löngu áður en ég vakna, fór aldrei svo að það yrði frí margar helgar í röð... Þar verður skipað í hlutverk á nýju, dularfullu og óskrifuðu verki. Dammdammdammdamm...!
Og sýning á Sirkus á laugardaxkvöld. Nú finnst mér gaman.

Skráningar á leiklistarskóla Bandalagsins í fullu trukki auk fjörugra umræðna um fyrirkomulag hverskonar á því ágæta fyrirbæri á spjalli leiklist.is. Gaman að því líka.

Svo er náttúrulega alltaf í býgerð að fara að skrifa eitthvað nýtt og leikkyns. Gúgglaði fólkinu (sem ég mundi fullt nafn á) frá námskeiðinu í Bonn og þau hafa aldeilis ekki setið auðum höndum. Flest búin að skrifa eins og vindurinn fyrir hin ýmsustu batterí síðan í hittífyrra. Og ég sit bara og skammast mín...
Ojpoj.

17.3.04

Um sig hefur gripið bloggleti.
Erfitt að segja til um hverju þetta sætir, hef bara eiginlega enga skoðun á einu eða öðru þessa dagana. Veit ekki hvað er í fréttum og er algjörlega í mínum eigins heimi eitthvað.

Skráningar eru hafnar á leiklistarskóla Bandalagsins. Þar skráði ég mig á höfundarsmiðju, sótti reyndar líka um að komast á slíka úti í Írlandi á sama tíma, en efast nú kannski svona frekar um að komast að þar. Enda fer ekki hjá því að mig langi talsvert mikið meira að vera með vinum mínum í Svarfaðardalnum heldur en á einhverju skerí vörksjoppi með ókunnugum útlendingum... en sjáum til.

Ritgerðin mjakast og mjakast. Allt of hægt. Sérstaklega eftir að það fór að vera sól úti. Þegar ég útskrifast verð ég á annarri hvorri höfundasmiðjunni, og þegar það verður búið ætla ég aldrei að læra neitt framar. Veit alveg nóg, punktur og pasta. Nú þarf nú samt að fara að skyrpa í lófana, ef þessi útskrift á að hafast.

Hérmeð.
Hrrruggg-tu!