11.3.11

Kerlingartussur og hryðjuverkamenn.

Það má sem sagt kalla fólk "kellingatussur". Samt er stjór hluti þjóðarinnar enn á eipinu yfir að Landsbankamenn skuli hafa verið meðhöndlaðir eins og "hryðjuverkamenn" þegar þeir reyndu að moka inneignum breskra sparifjáreigenda í eigin vasa í gegnum íslenskar höfuðstöðvar, um árið.

Það er ekki öll vitleysan eins.
Hún er allskonar.

Mikil ósköp eru nú af rasshausum á þessu landi. Eins gott að nefna engin nöfn, samt. Þetta fína orð hefur ekki hlotið friðhelgisvottun frá saksóknara.

10.3.11

Slór

Búin að gera bókstaflega allt annað í morgun en það sem ég á að vera að gera, og þarf að vera að gera, og kemst ekki hjá því að gera... En Nenni Siggi er alveg ferlegur fastagestur þegar kemur að því að vinna styrkumsóknir eða gera annað alvarlega merkilegt.

Svo er bara kominn brjálaður snjór og vetur og frost og Öskudagur ku eiga 18 bræður, þannig að vorið kemur 28. mars. Að staðartíma. (Eitt af því sem ég reiknaði út í morgun, sko.)

Ég er líka búin að lesa fésbókina, af stökustu alúð. Eitt að því sem ég er búin að lesa nokkrum sinnum eru að rannsóknir ku sýna að það sé hollt fyrir karlmenn að horfa á brjóst. Er ekki svolítið merkilegt að vefur sem segist vera fyrir konur geri mest útá að halda á lofti réttlætingum fyrir því að karlmenn hagi sér eins og... tja... svín, og að konur eigi að mála sig og vera til friðs? (Og vera ekki að gera sér rellu yfir því þó menn tali við brjóstin á þeim frekar en andlitin.) Það hefur mér allavega sýnst, svona á fyrirsögnum. Ég reyni að sneiða hjá því að gefa nýju fjölmiðlamafíunni "hitt".

Svo virðist vera að koma einhver helgi dauðans. Morgundagurinn þaulskipulagður fram undir miðnætti. Og sölufundur íbúðar eftir hálfan mánuð! Ljómandi það. Mikið vona ég nú samt að snjórinn og frostið láti undan síga áður en brestur á með flutningum. Það er alveg dauðinn sjálfur að flytja í snjó.

Það vantar tvennt í aðstöðu fyrir doktorsnema. Kaffistofu til að taka kjaftatarnir, og stað til að leggja sig.

Farin undir borð!

9.3.11

Hugvísindi og Kópavogur

Nú er hugurinn heima... eða ekki heima... hvar sem það er nú. Það er nú illa skemmtilegt að þýða verkefnislýsingar og allt svoleiðis yfir á Engilsaxnesku. Og reyna að bora rannsókn á Hugvísindasviði inní styrkumsókn sem er sérhönnuð fyrir rannsóknir í raungreinum. Spes. Reyndar ágætt að við erum alveg nokkur að krepera yfir þessu saman.

Annars eru búsetumálin í undarlegu limbói. Við erum búin að samþykkja tilboð, en erum að bíða eftir kvaðningu á kaupsamningsfund. Eftir hann ættum við að vera laus allra mála. Og í fyrrakvöld datt í hausinn á okkur íbúð til leigu! Góður frændi á óseljanlega efri hæð í Kópavogi. Herbergi handa öllum, skápar úti um allt, og yfir þrjátíu fermetrum meira en við eigum að venjast. Allt sófasettið kemst í stofuna og hjónin geta fengið að búa í hjónaherberginu. Flutningar í börbin áætlaðir þann 1. maí. Svo nú fer ég að óþreyjast eftir sölusamningi... og í framhaldinu nokkurn veginn skuldleysi!

Við förum ekki langt uppí Koppavoginn. Bara eiginlega í nágrenni við Huggu syss, austanmegin samt. Leikskólar Kópavogshlíðar Fossvogsdals eru til gagngerrar skoðunar.

Og þar sem fyrirhugaðir flutningar breyta lífstílnum ótneitanlega talsvert, fór ég í bæinn í gær. Þar sem úthverfadrottningar labba sér ekkert niður á Rósenberg á þriðjudagskvöldum. Dætrasynir spiluðu skemmtilega að vanda en toppuðu sig alvarlega í uppistandi á milli laga. Kvöldið varð því erfiðara fyrir þindina en lifrina. (Svo maður taki lífvísindin á þetta.)

Já, ég er að drepa tímann. Fjölmyrða hann, alveg hreint. Enda er ég ferlega metnaðarlaus gagnvart þessari umsókn. Téður sjóður veitti enga styrki til rannsókna á hugvísindasviði í fyrra og einhverja tvo til félagsvísinda, og þeir minnir mig að hafi farið í peningafræðin. Og mér sýnist á nýja umsóknarforminu að menn séu ekkert á þeim buxunum að fara að skipta eitthvað um takt þar. Eingöngu rannsóknir á því sem gæti skapað peninga skulu styrkjast.

Hlakka til þegar peningar verða úreltir og fjármálakerfið dautt.
Þá fyrst verður hægt að fara að gera eitthvað af viti.

7.3.11

Jæja, krakkar.

Spennandi tímar. Bankar eiga að verða færri og stærri... bankastjórar eiga að hafa ofurlaun... þessar svikamillur Zatans skila milljarðahagnaði... en það er verið að skera niður í mennta- og heilbrigðiskerfi.

Þess ÞARF víst.

Svo ég vitni í Áramótaskaupið 2010, það er eitthvað svoooo rangt við þetta.

Þar sem ekki mátti hækka laun eða ráða fólk í góðærinu (þá kæmi sko verðbólgan) þaðan þarf líka að taka peningana til að borga bankaruglið sem hrundi. Sem er samt ennþá í fullum gangi. Og á sjálfsagt eftir að hrynja aftur, allavega er allt við það sama þarna.

Mig langar til að gera eitthvað.

Það virðist engu máli skipta hverjir eru í ríkisstjórnum eða borgarstjórnum. Auðræðið er með skuldasnöruna um hálsinn á hinu opinbera, alla leið. Og svo virðist þetta fólk bara ekki vera neitt sérstaklega vel gefið. Fjármálaráðherra Steingrímur hélt að hann væri búinn að "endurreisa fjármálakerfið" þegar hann var búinn að endureinkavæða allt draslið, skuldaskolað, út um bakdyrnar. Borgarstjóra Gnarr finnst þægilegra að skera niður í leikskólum og skólum heldur en að segja kröfuhöfum að fokka sér.

Það eru allir í stjórnkerfinu, hvert sem litið er, að hamast við að skera niður hjá almúganum til þess að hlaða undir auðræðið. Pakkið sem setti þjóðina á hausinn en er nú komið aftur í gerfi "kröfuhafa". Innheimtir nú skuldirnar sem það stofnaði sjálft til.

Túnisbúar ætla ekki lengur að láta sig hafa þetta. Heldur ekki Egyptar. Né Líbíumenn, þó það sé að kosta mörg mannslíf. Meira að segja Bandaríkin eru að átta sig, allavega liðið í Wisconsin.

Allar þessar byltingar snúast um það sama. Óréttlæti og misskiptingu.

Hversu lengi ætlum við hér á klakanum að halda áfram að láta taka okkur í félagsheimilin?

Fer þetta ekki að verða ágætt?