24.11.05

..liggur þar og á svo bágt

Uhu...
Held ég hafi sjaldan vorkennt sjálfri mér jafn svakalega og akkúrat núna. Hef enda aldrei áður verið bandólétt og fengið tvær flensur alveg í röð. Eðlismunurinn á þeim er hins vegar sá að þessi er nú meira krassandi. Meira hor og svona. (Tengist kannski öllum hor-mónunum?) En Pollýannan í mér kýs að trúa því að það geri það að verkum að hún taki fljótar af.

Þegar Rannsóknarskip má vera að hefur hann ofan af fyrir mér með afmælisgjöfinni sem ég gaf honum, það var allt X-Files eins og það leggur sig. Og mikil gleði með það. (Alveg óvart, í leiðinni, eignuðumst við líka allan Angel. Líka mikil gleði.)
Amazon er mjööög hættulegur staður.

Og svo fórum við aðeins á námskeið í gær. Það var... ja... kannski fróðlegt? En það var ekki svona fyndið námskeið með hofgyðju og steinþrykksglærum eins og Björn M fór á. Heldur með nýmóðins ljósmóður og power-point-showi. Hún sagði ýmislegt spaklegt... kannski ekki margt sem maður vissi ekki fyrir, en skýrði þó nokkur smáatriði. Svo æfðum við okkur að anda, og ég komst að því að eftir 15 ár af leiklistarnámskeiðum og þindaröndunarpredikunum er mér alveg lífsins ómögulegt að anda grunnt.

Og einu sinni enn komst ég að því að kjaftæði um "kraftaverkið fæðinguna" og að eftir hana fái maður "bestu verðlaun í heimi" og tilfinninga-hvað ha, gerir ekkert fyrir mig. Ég efast ekki um að það er gasalegt "kraftaverk" og voðalega gaman að vera búinn að eignast barnið, en ég held að það sé nú bara svona eins og brandarar sem ekki er hægt að endursegja. Maður þarf að hafa verið á staðnum. Og þetta kraftaverkakjaftæði hughreystir mig nú bara ekki baun þegar kemur að því að búa sig undir að koma hlut á stærð við hangikjötslæri út um leggöngin á sér.

Það mest hughreystandi sem ég hef heyrt kom frá Svandísi. Hún sagði að þetta væri eins og að skíta. Það finnst mér bæði fyndið og uppörvandi, þar sem ég kann það alveg.

Jæja, best að taka pínu til áður en húseigendur brenna í hlað.

23.11.05

Skrambans

Virðist vera að fá aðra flensu, alveg í röð. Ligg í dag með upphafseinkenni. Er nú samt að vona að mér takist að taka u-beygju áður en ég lendi á henni. Drakk sólhatt í gær og það hafði hinar undarlegustu afleiðingar. Er kílói léttari í dag en í gær. Ég meig því. Er ekki einu sinni að ýkja neitt!

Reyndar erum við búin að fara í mæðraskoðun í morgun. (Ég og Árni. Er ekkert á leiðinni að fara að tala um sjálfa mig í fleirtölu.) Ljósmóðirin gaf okkur bækling með fullt af myndum af brjóstum. Gerir nú ekki mikið fyrir mig.

Og á eftir verð ég víst að reyna að lufsast á foreldrunarnámskeið, hvað sem tautar. Best að sofa þangað til.

ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz

22.11.05

Allt að koma

Ég held ég sé að verða búin að losa heilann út úr síðasta verkefni. Er allavega alveg að verða búin að ná í skottið að því sem er efst á baugi í umheiminum. Og alveg á fullu að mynda mér skoðanir í dag. Bara tímaspursmál hvenær þær verða komnar í eitthvað tjáningaform.

Allavega er ég að huxa um að ræða alvarlega við stofnfrumuna í barninu í sjálfri mér og athuga hvort hún er ekki til í að sjá til þess að Kafbátur erfi rólyndi og skapgæði föður síns og sönghæfileika, að minnsta kosti. Og svo auðvitað almenn dásamlegheit. Eitthvað dálæti virðist barnið allavega hafa á tónlist. Þegar svoleiðis heyrist upphefst jafnan mikill dans. Einkum og sérílagi við tónlist úr Jólaævintýrinu, en það var trúlega fyrsta tónlistin sem Kafbáturinn heyrði, eftir að hann fékk eyru. Hitt áhugamálið virðist vera fótbolti. Við áhorf á sollis gerast jafnan fóboltaæfingar á mínum heimavelli. Menn spyrja kannski sem svo hvort mikill munur sé á hreyfingum innra með mér eftir því hvort um er að ræða dans eða fótbolta? Það er það sko. Fótbolti er óþægilegri.

Annars hefur verið í gangi mikil tiltekt í Imbu-Skjálf. Hélt á tímabili daginn eftir frumsýningu að ég væri komin með hreiðurgerð, þangað til ég komst að því að æðsti höfundur þjáðist af því sama. Reyndust vera einhvers konar fráhvörf sem brutust fram í röðunarfíkn og þvottæði. Það er líka bara ljómandi. Ætla að reyna að stefna á að föndra aðventukrans og finna öll aðventuljós heimilisins í vikunni og setja þau útum ALLT.

Jólajóla.

21.11.05

Gagg

Var búin að lofa alheiminum því, svona innra með mér, að hætta nú að tjá mig um hið nýfrumsýnda Jólaævintýri. Get samt ekki látið hjá líða að benda á umfjallanir sem við höfum fengið bæði hér og í Mogganum í dag. Fínustu pistlar frá Herði og Hrund eins og ævinlega. Og, ég verð nú bara að minnast á eitt. Í þessu höfundagengi er ég FREMST í stafrófinu! Hef aldrei verið það í neinu samhengi. Enn ein ástæðan til að halda áfram að skrifa með þessu fólki. ;-)

Og þá er víst best að fara að hrökkva í gírinn og hefja undirbúning frumsýningar Kafbáts. Á þeim vígstöðvum er nú bara næstum allt eftir. Þarf að sækja dót um alla Smábátsætt og við erum ekkert farin að hugsa fyrir hlutum eins og í hvurslax rúmi barnið á að sofa eða öðrum hirslum til að geyma það í. Umsókn um fæðingarorlof liggur í gremjulegum dvala, þar sem ég fyllist ævinlega skapvonsku þegar ég hugsa um hana.

En þetta verður vika foreldrafræðslunnar. Á miðvikudaginn erum við að fara í lannnga mæðraskoðun sem á að felast aðallega í því að ljósmóðirin ætlar að taka klukkutíma í að tala um allskonar. Ég reikna með að verða margs vísari.

Sama eftirmiðdag hefjum við síðan setu á foreldrunarnámskeiði, sem ég er að vona að sé jafnfyndið og Björn M segir. Rannsóknarskip vonar að hann verði eftir það við öllu búinn. Hef grun um að hann hafi miklu meiri áhyggjur af fæðingu en ég. Og er þá talsvert sagt.

Að lokum: Mig dreymdi um sýningu sem Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýnir um næstu helgi. Vakti hún í draumförum mínum svo mikinn múgæsing að menn söfnuðust saman, hundruð talsins, einhvers staðar á víðavangi, klæddir eins og Keltar í gamla daga og höfðu varðelda og gengu umvörpum á spjót sín. (Og þetta var sem sagt sértrúarsöfnuður sem spratt af hamslausri aðdáun á sýningunni, ekki skipulagt fjöldasjálfsmorð...)

Hvort þetta tengist eitthvað efni sýningarinnar skal algjörlega ósagt látið, enda veit ég ekkert um hana. En, hlýtur að spá góðu?

20.11.05

Þá er hann runninn upp, þessi dagur...

...svo sannarlega gleðidagur, eða hvað?

Vissulega er ég búin að hlakka til í grindverknum, að vera marflöt heima hjá mér á kvöldin, alveg samviskubitslaust. En einhver fráhvörf eru nú samt í manni. Er búin að gera fullt af því sem ég hef verið að trassa. Hitta ömmu mína að westan, sem er nýuppskorin í bænum. Búin að þrífa bæði baðherbergin, taka helling til hér og þar, ganga frá einhverjum þvotti og þvo meira af svoleiðis... og síðast en ekki síst, tala við Togga um hvort sama höfundagengi ætti ekki að reyna að skrifa meira.

Um það erum við 50% gengis allavega heilt sammála.

Allavega, allt gekk ljómandi vel í gærkvöldi og mér heyrðust menn heilt yfir vera ánægðir. (Enda, hver myndi svosem kunna við að segja annað við höfund á frumsýningarkvöld ;-) Og þetta var náttlega bara alltsaman geðveikt. En næst þegar ég leikhúsa ætla ég að vera hætt að vera með grindverk. Það fer illa saman. Og þá ætla ég líka helst að geta bjórað smá...