3.10.09

Að lifa október af. Dagur 3.

Í Mogganum í dag ku vera ógurlega nýjar upplýsingar um að ævintýrasjóðir gömlu bankanna hafi verið of hátt metnir. (Eins og einhvern hafi ekki grunað það.) Á forsíðunni á Fréttablaðinu er sagt frá einhverju sem kallað er "sýruárás" á Rannveigu Rist, þegar hún varð fyrir málningarslettu sem beindist að húsi hennar. Rataði ekki eftirminnilega í fjölmiðla þegar hún átti sér stað, í ágúst.

Mogga/Fréttablaðsstríðið er hafið og gerir þennan dag vafalaust betri að lesa hvorugt. Ótrúlegt að maður skuli lifa það að DV sé orðið áreiðanlegasta dagblaðið, en þannig er það nú.

Persónulega ætla ég að meika þennan októberdag með því að hlaupa óvenjulangt í sólinni.
10 km, coming up!

2.10.09

Að lifa október af. Dagur 2.

Ekki hugsa um fjárlögin fyrr en þú þarft þess. Að öllum líkindum þarftu þess aldrei. Ef þú lest engan fréttavef og horfir bara á eitthvað skemmtilegt meðan fréttirnar og Kastljósið geturðu ímyndað þér að árið sé nítjánhundruðníutíu og eitthvað og það sé ekki einu sinni búið að einkavæða bankana.

---

Af fréttum af heimilisfólki er það helst að allir hafa það bara fínt. Við Rannsóknarskip erum eitthvað að spá og spekúlera og erum nú farin að skoða alvarlega þann möguleika að skreppa í tveggja ára námsferð til Kanada, ca. árið 2012. Þannig er að enskukennarann hefur lengi langað í MA-gráðu frá háskóla í enskumælandi landi. Þarna eftir 3 ár verður Smábáturinn búinn með grunnskólann, Freigátan búin með leikskólann og doktorsverkefnið mitt vonandi komið á það stig að ég get farið að huga að einhverri úrvinnslu. (Fyrir utan að hér verður líklega allt farið að hanga verulega mikið á horreiminni.) Við erum að spekúlera í Manitoba. Þar er flottur háskóli sem er m.a. með íslenskudeild sem ég er að láta mig dreyma um að fá þá kannski að vera gestanemandi/kennari, við.

En þetta eru nú alltsaman draumórar og spekúleringar, ennþá. Sem eru aftur líka fínir til að láta október líða.

1.10.09

Að lifa október af. Dagur 1.

Hrunadans.
Lestu alla fréttavefi, sérstaklega Eyjuna ef þú ert hægrisinni og amx ef þú ert til vinstri. Kommentaðu á allt og rífðu rækilega kjaft við alla sem þú ert ósammála, undir eigin nafni. Skrifaðu síðan nokkur illa stafsett og hálfvitaleg skítakomment sem eru ósammála þér undir dulnefnum svo þú komir enn betur út.
Farðu á kaffistofuna í kaffinu og tjáðu þig hátt og snjallt um pólitík og vertu með öfgar í skoðunum. (Hvort sem þú ert það í alvörunni eða ekki.) Komdu helst af stað slagsmálum og málaferlum.

Byrjaðu mánuðinn á smá adrenalíni.
Endurlífgum upprunalega merkingu orðsins "útrás".

30.9.09

Á morgun hefst október

Og þar sem það er jafnan minn úldnasti mánuður ætla ég að birta hér á hverjum degi þess mánaðar eitt heilræði til að lifa hann af. Tökum forskot á sæluna.

Til að lifa október af. Dagur 0.
Ef Hólavallakirkjugarður við Suðurgötu verður á vegi þínum, gakktu um hann. Þar er til dæmis hægt að fíla haustlitina betur en víðast hvar og heilsa uppá Benedikt Gröndal. (Hann er í neðstu röð, tiltölulega sunnarlega. Eiginlega hægt að heilsa honum af Suðurgötunni, líka.)
Til að lífga uppá stemminguna er síðan hægt að finna sér laufhrúgu á einhverjum göngustígnum og hlaupa í gegnum hana í slómó. Jafnvel nokkrum sinnum og syngja tónlist úr söngleikjum á meðan. Ekki er verra að sjáist til þín. Þá ertu í leiðinni búin/n að kæta fleiri.

29.9.09

Úldn að hausti

Las Dr. Gunna í morgun. Hann er úldinn eins og ég. Þessa dagana berst ég við syfju og nammilöngun á víxl og kem fáu í verk. Er í beinu framhaldi að hugsa um að gera október að átaksmánuði, hlaupa helst 6 daga í viku og missa 5 kíló. Snúa vörn í sókn, þar sem tilhneigingin er að hreyfa mig ekkert og bæta á mig aftur þessum 5 sem voru farin.

Ég skil ekki hvað þetta er með október. Frá því um þetta leyti á haustin og fram yfir miðjan nóvember, ca., hef ég tilhneygingu til að leggjast í hýði. Og aftur á vorin. Seinniparturinn í apríl og allur maí eru framdir í einhverju móki. og ofáti.

Þetta sökkar ferlega, sérstaklega þar sem þetta eru alveg æðislegir árstímar. Haust og vor. Litirnir úti núna eru algjör æði og í gær var svo gott veður að ég var úti að þvælast með litlu krakkana fram að kvöldmat. (Enda voru menn ekki lengi að sofna.)

En, ég veit allavega af þessu mynstri. Nú er þetta greinilega að byrja að gerast, þrátt fyrir Hörbalæfið og brjáluðu lífstílsbyltinguna með líkamsrækt og látum, svo þá er bara að setja sér markmið og gera allt mögulegt til að vinna gegn þessu. Í dag ætla ég til dæmis að hlaupa, fara í jóga, labba heim og fundarita svo seinnihluta aðalfunds hjá Honum Hugleik.
(Sem er eins og allir vita hreinasta afbragðs þunglyndislyf.)
(Allavega á þriðjudögum.)
(Því þá er ekkert í sjónvarpinu.)

28.9.09

Afmæli Hrunsins

Um þessar mundir er ár liðið síðan það besta sem gat komið fyrir íslenska þjóð gerðist.

Eftir 17 ár í ruglinu.

Húrra fyrir Afmælisbarninu!