7.12.11

Umræður skrumræður

Við erum nýlega byrjuð að blogga. Enn nýlegar farin að tjá okkur á fésbók og farin að geta gert athugasemdir við fréttir. Að vera vitni að upphafi umræðuhefðar er mjög áhugavert, þó það sé auðvitað oft þreytandi. Spjallþráðaumræðan er ekki enn komin með hefðir, venjur, kurteisisreglur. Fólk lætur vaða, og getur það, nokkuð ábyrgðarlaust... ennþá. Og rökræðir. En þá rekst maður á hið fornkveðna, skoðanir eru eins og rassgöt, ein á mann.

Ég held að í upphafsringulreið þessa óheftandi samskiptaforms felist áhugaverðar uppljóstranir. Kannski ekki nýjar en meira áberandi en vitneskjan verður almennari.

Ég þoli ekki að lesa umræðuþræði. Ég gæti reynt að halda því fram að það væri vegna lélegrar málfræðikunnáttu umræðenda eða að umræðan væri "á of lágu plani," hvað sem það nú þýðir, en staðreyndin er sú að ég þoli ekki að sjá fólk rökstyðja skoðanir sem mér þykja fáránlegar, ömurlegar og mannskemmandi. En þannig þýðir náttúrulega ekkert að láta. Það sem er, bara er. Eins er hægt að rökræða sig bláan í framan. Maður er ekkert að fara að breyta skoðunum neins. Enginn fær hugljómun og frelsast frá asnalegri skoðun við að lesa umræður á DV eða Facebook.

Og rökræður?

Allir sem hafa einhverntíma tekið þátt í ræðukeppni vita að það er hægt að færa rök fyrir hvaða kjaftæði sem er. Einu sinni talaði mitt lið fyrir því að konur færu út af vinnumarkaðnum. Í annarri keppni vildu andstæðingarnir leggja niður jólin. Þannig æfa menntaskólanemar sig fyrir kjaftæðissamfélagið.

Ég held að við myndum okkur skoðanir fyrst. Byggt á tilfinningu. Eða hagsmunum. Allavega ekki með rökum. Við hengjum þau utaná eftirá. Þess vegna er oft gaman að setjast um borð í hugsanalestina, helst varðandi mál sem manni er ekki sérlega annt um. Eitthvað sem snertir mann ekkert mikið, persónulega. Þegar maður er orðinn flinkur getur maður gert slíkt hið sama við mál sem standa manni nærri og komist að því að það er margt í mörgu. Alltaf.

Ég fór til dæmis að hugsa um vændi. Þaðan fór ég yfir í líkamann sem söluvöru. Fór að hugsa hvort líkaminn sé ekki seldur þegar við skuldbindum hann til að mæta á ákveðnum tíma, á ákveðinn stað og vinna ákveðna vinnu 8 - 16 tíma á dag, 5 - 7 daga í viku. En það er innbyggt í kerfið að við gerum það. Atvinnan gengur fyrir öllu öðru sem við þurfum að gera. Alltaf. Engar undantekningar. Kerfið gerir ekki ráð fyrir því að við, börnin okkar eða aðrir nákomnir, veikist eða deyi. Þeir sem hafa heilsufar sem ekki leyfir að þeir vinni eins og vélmenni 8 tíma á dag 5 daga í viku, minnst, eru ekki tækir til atvinnu. Og þar með annars flokks í samfélaginu. Er mannslíkaminn kannski söluvara í fleiri en einum skilningi og það innbyggt í kerfið?
Semsagt, vændi er kannski "eins og hver önnur vinna." En "atvinnulífið" er þrælahald. Ég er ekki komin lengra.

Og þannig fór samtalið við sjálfa mig um vændi.

En það er gaman að fylgjast með netumræðunni þróast. Hún er líklega óþagganleg en allir eru þó að reyna að þagga niður í einhverjum öðrum þar. Að trompa þessa óþolandi einstaklinga með apalegu/fáránlegu/glæpsamlegu skoðanirnar. Ýmsar aðferðir eru í gangi. Rökræður, skítkast, troll... maður sér ýmsum brögðum beitt. Og enginn er að "vinna." Maður hefur tilhneigingu til að lesa frekar greinar frá skoðanasystkinum. Umræðan er jafnstjórnlaus. Hinir eru bara annarsstaðar. Líka saman í hóp.

Það er ekki hægt að setja yfir netumræðuna lög. Hakktívistasamtökin Anonymus hafa reyndar fundið leið til að taka niður síður andstæðinga en ef fjársterkir aðilar finna ekki upp leið til að þagga niður í þessu fjölhöfða skrímsli þá kemur að því að fólk þarf að bera ábyrgð á sjálfu sér innan netsamfélagsins. Það er gaman að vera alltaf brjálaður yfir einhverju, fullur "réttlátri" reiði yfir hvað allir eru miklir fábjánar. Í smá tíma. En ég hugsa að við verðum þreytt á því.

Og það þýðir ekkert að hnussa og fussa. Við verðum aldrei öll sammála.

Áhugaverðir tímar, þetta.