21.4.12

Háleit. Markmið.

Það er kannski meiri séns í helvíti að maður standi við það sem maður ætlar sér ef maður lýsir því yfir á opinberum vettvangi. Ekki að neinn fylgist svosem með því hvernig efndirnar verða (ég meina, er Sigmundur enn á íslenska kúrnum?) en... það má reyna.

Rannsóknarskipið er í Rúmeníu. Samkvæmt fésbókarstatus var hann að hengja upp gardínur þar, áðan. Meira veit ég ekki. En ég veit að við verðum án hans fram til sunnudags næstu helgar. (Og nú er laugardagur.) Eins og ævinlega þegar hann fer að heiman hef ég afar háleit markmið fyrir tímann. Ekki veit ég hvers vegna markmiðin koma einmitt þá. Sennilega vegna þess að þá ræð ég öllu. En, allavega. Þau eru m.a.:

- Að kenna yngri börnunum að hjóla. (Alllmáttugur hvað það tekur á taugarnar, en það er allavega búið að reyna bæði í gær og dag.)
- Að kenna unglingnum að vakna sjálfur á morgnana. (Ég held hann geti það vel, Rannsóknarskip þrjóskast við að vekja hann og reka stanslaust á eftir honum þar til hann er kominn út í bíl. Ég spyr stundum hvort hann ætli að halda þessu áfram þar til drengurinn flytur að heiman... Hann vaknaði altént sjálfur á föstudaginn, eins og ekkert væri.)

- Að vera reglulega mikið úti með þau litlu til þess að litarhaftið á okkur nái af sér ljósgrænu, berklalegu slikjunni. (Búin að gera mitt allrabesta í gær og dag.)

- Ná í raðskatið á þvottaskrímslinu sem hefur haft yfirhöndina frá því fyrir stóruflensu. (Gekk vel í dag.)

- Ná undirtökum í baráttunni við Skítinn en gegn honum hefur eingöngu verið háð nauðsynlegasta varnarbarátta síðan í Stóruflensu.

- Ganga frá sosum eins og rúmmetra af hreinum þvotti... sem getur jú líka fallið undir baráttuna við áðurnefnt þvottaskrímsli.

Og síðast en ekki síst, HÆTTA AÐ ÉTA EINS OG SVÍN!

Þannig er að fullorna fólkið á heimilinu ákvað að taka sig aðeins í gegn og missa nokkur kíló í framhaldi af því að versluð var ný vigt (andstyggileg, sem segir sannleikann) inn á heimilið. Á meðan Rannsóknarskip og Unglingur hafa hrópað upp árangur sigri hrósandi í hvurri vigtun, hef ég ekki misst gramm. Ekki eitt. Reyndar bara staðið í stað og Stóraflensa gerði stórt skarð í venjubundna líkamsrækt en nú þarf að fara að hlaupa og láta öllum illum látum til þess að langa flugið til Chile í sumar verði mér ekki aldurtila. Svona fyrir utan hvað væri nú gaman að komast í fagra sumarkjólinn frá henni Guðfinnu í Frakklandi í júní. Reyndar var ég ekki nema í kringum 50 kílóin þegar ég bjó síðast í Montpellier, svo það er líklega sama hvað ég geri. Kunnugir munu alltaf hugsa: "Svakalega er hún þessi orðin FEIT!" Þannig að það er alveg nó win þar. (Reyndar hef ég séð myndir af mér frá þessum tíma. Þær eru ógeðslegar. Af tvennu illu fer mér klárlega betur að vera 75 kíló en 55, verður að segjast.)

Ég ætla samt að reyna eins og ég get að missa mig ekki í ísskápinn þessi kvöld sem enginn sér til. Ég þyrfi að eiga eldhús með tímalás. Læsist þegar síðasti maður fer út eftir kvöldmat. Hefur þá þægilegu hliðarverkun að þá þarf ekkert meira að hugsa um að þrífa þar eða taka til fyrr en næsta morgun.

Jæjah. Þá er að gá hvernig gengur... Ég ætla að reyna að muna að kjafta hreinskilnislega frá því eftir viku...