16.5.07

Fallin

Hefi að undanförnu háð hildi við drepsótt nokkra.
Er nú fallin í valinn ok veit eigi hvort endurkomu vorrar í mannlegt samfélag má vænta um sinn.
Hann Flensuður Fáráður er óttalegr ádámr.

15.5.07

Menntakerfið

gleypir og spýtir fjölskyldumeðlimum á víxl, þessa dagana. Ég var að fá bréf, er formlega að fara að setjast á skólabekk í haust. Rannsóknarskip er að fara að syngja á nemendatónleikum annað kvöld, vænanlega sínum síðustu í bili. Þar með er menntakerfið búið að sleppa af honum klónni... þangað til í haust þegar allar líkur eru á að hann fari að kenna einhversstaðar.

Tekið skal fram að tekjur heimilisins koma til með að aukast um helming þegar hann fer að kenna og ég fer á námslán. Þá vona ég að við getum hætt öllum aukaverkefnum... (þ.e.a.s., þeim sem flokkast undir "vinnu") og dinglað okkur á kvöldin. (Sem þýðir að hann getur farið í kór, ég get skrifað meira, og svo getum við leikið og leikstýrt í Hugleik eftir behag. Svo ekkert er meira svona, "ekkert".)

Núna erum við alveg ferlega þreytt eftir veturinn. Elsku Rannsóknarskipið mitt er með eitthvað eilífðarkvef sem mér finnst hann hafa haft stanslítið í vetur. Og ég er með ofþreytu í mörgum formum. Ég held við þurfum alvarlega að hugsa um að hægja á okkur, ef við eigum ekki að missa heilsurnar endanlega ofan í klofin á okkur.

Ég er búin að vera nokkurn veginn þunglyndislaus seinnipartinn í vetur. En það er nú ekki tekið út með sældinni. Áður gerði svarti hundurinn nú það að verkum að ég hvíldi mig stundum alveg út í hið óendanlega. Í vetur er ég hins vegar búin að vera fullkomlega bremsulaus. Og er að súpa seyðið af því.
Lífið er línudans.
(Og ég hrín á alla sem muna Embættismannahvörfin að fá ákveðið lag á heilann.)

Og svo fann ég lag, sem er í eðli sínu, að hluta, letilag.

14.5.07

Pöllögg

Miðasala er hafin á sýninguna á Listin að lifa sem verður í Þjóðleikhúsinu þann 7. júní. Hér.

13.5.07

Merkilegri fréttir


En fréttir heimilisins eru þær að elsku litla Freigátan, sem mér finnst hafa fæðst í fyrradag, er komin inn á leikskóla. Hún komst inn á leikskólann Ægisborg og byrjar líklega þar í haust. Hann er reyndar alveg hinumegin í Vesturbænum svo við erum með hana á flutningslista ef eitthvað skyldi losna nær áður en hún byrjar. Við mátuðum annars leikvöllinn á Ægisborg í morgun, og hann er RISAstór, auk þess sem þessi leikskóli er með áherslu á tónlist og eitthvað. Þannig a' kannski móðurskipið láti sig nú bara hafa þessa ferð á morgnana og eftirmiðdaginn, allavega næsta vetur, svo rassinn á því stækki nú ekki allt of mikið á skólasetunni.

Freigátan er annars að stækka svo mikið og þroskast þessa dagana að það er alveg meiriháttar að fylgjast með því. (Ekki að allur hreyfiþroskinn sem fylgir sé svosem alltaf sérlega þægilegur.) Nýjasta æðið er að príla upp á hvað sem fyrir verður. Og hoppa. En hún talar ekkert ennþá. Hún hermir eftir málróm og atkvæðafjölda þess sem maður segir við hana, en ekki orðum. það finnst mér nú merkilegt. Eins og reyndar flest annað við þetta merkilegasta sköpunarverk mitt til þessa dags.

Fréttir

Mér fannst skemmtilegt að fullklædd kona, frjálslega vaxin, sem söng vel og á frummálinu, skyldi vinna Júróvísjón. Mér fannst líka gaman að konurnar á sviðinu með henni skyldu ekki dansa. Ég skildi ekki alveg beygjurnar í hárinu á þeim... en það er önnur saga. Annars tók tónlistarsmekkur minn undarlega beygju í keppninn og ég var tekin að heillast mjög af lögunum frá Búlgaríu og Georgíu. En þetta var nú bara gaman.

Ég nenni ekki að mynda mér skoðun á kosningum, fyrr en ég sé hvernig ríkisstjórn verður. Þá, kannski.